Háskólakosningar hefjast!

Í dag og á morgun fara fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaráðs. Ekki hafa valkostirnir alltaf verið skýrir en nú horfir öðruvísi við.

Í dag er fyrri kjördagur kosninga til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaráðs Súdentar standa frammi fyrir þremur valkostum; kjósa ekki, skila auðu eða merkja við eina af þremur fylkingum sem eru í framboði. Ef við gefum okkur að þriðji möguleikinn verður ofan á stendur valið á milli Háskólalistans, Röskvu og síðast en ekki síst, Vöku. Þessir þrír valkostir hafa aldrei verið jafn skýrt aðskildir.

Háskólalistinn er að taka þátt í sínum fjórðu kosningum og heldur áfram á lofti sínu eina baráttumáli, einstaklingskosningum. Það væri gott í pistli af þessu tagi að geta á málefnalegan hátt vegið og metið kosti og galla þeirra tillagna sem fylkingin hefur lagt fram, en það er því miður erfitt þar sem þær hafa verið sárafáar og algjörlega ófullnægjandi. Listinn hefur átt sæti formanns ráðsins síðastliðið ár og virkni hans hefur verið lítil sem engin. Ljóst er að ef málflutningur H-listafólks á að öðlast trúverðugleika þarf meira til en hálfkveðnar vísur á síðasta Stúdentaráðsfundi fyrir kosningar. Einstaklingskosningabólan virðist vera að springa, og er það því miður ekki vegna málefnalegrar niðurstöðu í málinu, heldur er það frekar vanhæfni H-listans við að koma þessu eina máli sínu á framfæri sem veldur tilvistarkreppu hans.

Röskva virðist hafa ákveðið að þetta verði árið sem Stúdentaráð verði að pólítísku afli með víðtækt ályktunarvald um ýmis þjóðfélagsleg deilumál í krafti stúdenta, hvort sem þau koma stúdentum við með beinum hætti eða ekki. Röskva vill að ráðið beiti pólítískum þrýstingi til að fá aukið fjármagn til handa Háskólanum, og virðist ekki telja rétt að Stúdentaráð, eða fylkingarnar sem það mynda, beiti sér sjálf í þágu stúdenta. Dæmi um þetta eru andmæli Röskvuliða á Stúdentaráðsfundi sl. föstudag við hugmynd Vöku um sjálfboðavinnu við gæslu Þjóðarbókhlöðunnar, til að hægt verði að hafa safnið opið lengur en nú þekkist. Þessu var mótmælt á þeim forsendum að fjármagn eigi einfaldlega að vera til staðar til að stúdentar þyrftu ekki að gera þetta. Sömu rök voru einmitt notuð þegar Röskva fjallaði um stúdentakortin í fréttapósti sínum. Kortin eru dæmi um langþráð mál sem hefur tekið langan tíma, og ómælda vinnu Vökuliða, að koma í framkvæmd, en þau væru enn fjarlægur draumur ef Háskólinn hefði verið látinn sjá um málið.

Vaka hefur lengi státað sig af því að vera jákvætt framkvæmdaafl sem skilar miklum árangri í hagsmunabaráttu stúdenta. Aðferðirnar sem félagið hefur beitt í þeirri baráttu hafa einkennst af frumkvæði, ósérhlífni og óbilandi trú á málstaðinn; að bæta hag stúdenta. Þessir eiginleikar verða einnig að einkenna Stúdentaráð til að sem mestur árangur náist, því hagsmunabarátta er spurning um árangur og ekkert annað. Hlutverk SHÍ er að starfa sem réttindaskrifstofa stúdenta og tími ráðsins er best nýttur í að leita lausna við vandamálum sem steðja að innan skólans, því af nógu er að taka. Þá skiptir engu hvort um er að ræða hin opinberu mál, þar sem andstöðu gegn skólagjöldum eða skertum opnunartíma Þjóðarbókhlöðunnar er beint að stjórnvöldum, eða unnið sé innan skólans að gerð stúdentakorta eða að fundnar séu leiðir að bættri kennslu.

Hvað varðar pólítískt ályktunarvald Stúdentaráðs, þá hefur Vaka haldið því fram að ráði hafi ekki slíkt umboð frá stúdentum þar sem þeir eru fjölbreytilegur þverskurður af þjóðfélaginu og hafa ólíkar skoðanir og áhugasvið. Það er ekki rétt að ráðið álykti í þjóðfélagslegum deilumálum fyrir hönd allra stúdenta við HÍ, sem allar líkur eru á að hafi mismunandi afstöðu í slíkum málum. Það eina sem allir stúdentar við Háskólann eiga sameiginlegt er að þeir nema við sama skólann og ráðið á að gæta hagsmuna þeirra með það í huga, í stað þess að álykta fyrir hönd þeirra í málum sem snerta þá lítið eða óbeint sem háskólastúdenta.

Í dag og á morgun eru kosningar í Háskólanum og val kjósenda snýst um hvert hlutverk Stúdentaráðs skuli vera og hvernig það nái mestum árangri í þágu stúdenta. Línur eru skýrar og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi (nema þá kannski helst harðir stuðningsmenn skólagjalda). Þessar kosningar munu skipta miklu máli um framtíð ráðsins og hagsmunabaráttu stúdenta í heild sinni, og því er mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið þrammi á kjörstað og merki X við A.

Áfram Vaka!

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)