Úti að aka í Borg englanna

Lengi vel leit það vel út. Samgöngukerfi heilla borgarsvæða sem byggir fyrst og fremst á einkabílnum til fólksflutninga. En eftir áratuga baráttu við umferðarteppur eru menn ekki eins sannfærðir og í Los Angeles eykst áhuginn á að umbylta samgöngukerfinu.

Önnur stærsta borg Bandaríkjanna – Los Angeles – er merkilegt samansafn smáborga og úthverfa. Samgöngukerfið byggir nær algerlega á einkabílnum, enda óx svæðið hraðast frá miðri síðustu öld eða sama tíma og almenn einkabílaeign varð staðreynd. Borgin var skipulögð umhverfis einkabílinn og risavaxið net umferðaræða sá fyrir samgönguþörfinni. Lengi vel fyrirmynd annarra borga að margra mati.

En í dag hefur dæmið snúist við. Los Angeles í raun allt annað en öfundsverð af samgöngukerfi sínu. Hvergi í Norður-Ameríku eru umferðartafir og mengun frá bílaumferð jafn stórt vandamál. Umferð á annatímum árdegis og síðdegis á virkum dögum sniglast áfram að meðaltali með hraða undir 45km/klst og er þá sama hvar gripið er niður. Hver íbúi eyðir að jafnaði tæplega 100 klukkustundum á ári í umferðarteppum. Víða er ástandið nær algerlega svæðisbundið. Jafnvel svo slæmt að hnútarnir ná inn í bílageymslur og stæði.

Borgaryfirvöld hafa eðlilegar miklar áhyggjur af þessu. Nýjustu kannanir benda til þess að í dag séu fleiri sem ráðgeri að flytja burtu frá borginni en kusu í síðustu borgarstjórnarkosningum. Ástæðan er rakin til hrakandi lífsgæða sem aftur eru að miklu leyti rakin til ofálags á samgöngukerfið.

Margir telja að samkeppnishæfni borgarinnar sé í hættu. Það er því eðlilegt að samgöngur séu efst á lista yfir vandamál sem þurfi að leysa. En stóra spurningin er auðvitað sú hvort til sé raunhæf samgöngustrategía fyrir Borg englanna. Strategía sem hafi það að markmiði að útrýma vandanum í eitt skipti fyrir öll.

Það eru vaxandi efasemdir að enn frekari aukning umferðarmannvirkja geti leyst samgönguvanda borgarinnar. Ýmsir benda á að sú leið hefur verið að mörgu leyti fullreynd og ekki vænleg að halda áfram á sömu braut. Nú þegar eru 65% landsvæðis í borginni tekin undir umferðarmannvirki og tengda landnotkun, s.s. bílastæði. Það er því orðið verulega erfitt og óvinsælt að breikka og fjölga umferðaræðunum enn frekar.

Þess fyrir utan benda nýjustu rannsóknir til að þessi taktík hafi verulega vankanta út frá hegðunarmynsti umferðar. Smávægilegar endurbætur hér og þar hafa nefnilega yfirleitt tímabundin jákvæð áhrif. Umferðin laðast – ef svo má að orði komast – að þeim á nýjan leik, bæði í tíma og rúmi. Gróft á litið vilja nefnilega allir ferðast á nánast sama tímapunkti árdegis og síðdegis og eftir þægilegustu leið frá A til B. Jafnvægið – þ.e. umferðarteppan eða biðröðin – kemst þannig á aftur að lokum og ávinningurinn hverfur oft að miklu leyti. Auk þess skapa staðbundnar endurbætur nýjan hvata til svæðisbundinnar uppbyggingar og aukinnar starfsemi. Með því eykst aftur umferðarsköpunin, álagið vex og tafirnar komast fljótt í sama horf og áður.

Sumir sérfræðingar telja að skömmtun umferðar – sem þýðir í raun og veru mjög hæg umferð – sé í raun eina raunhæfa lausnin til að anna samgönguþörf í dreifðum og fjölkjarna bílaborgum eins og LA. Bíllinn sé í raun og veru dreifbýlisfarartæki og taka verði mið af þeim grundvallareiginleika. Því séu umferðartafir í rauninni ekki vandamál heldur lausn í sjálfu sér. A.m.k. eina raunhæfa lausnin á meðan samgönguvalkostir – valkostir sem eru tiltölulega samkeppnishæfir gagnvart einkabílnum – eru ekki til staðar.

Hvernig sem því líður verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig mál þróast í Los Angeles á næstu árum og áratugum. Sumir telja að borgin verði ákveðinn brautryðjandi fyrir aðrar vestrænar borgir þar sem allt skipulag og þróun voru grundvölluð á einkabílnum og gæðium bílaumferðar í fleiri áratugi. Reynslusarpurinn verður því vonandi mikill og gagnlegur.

En hindranirnar og vandamálin eru víðtæk og flókin. Árangur næst e.t.v. ekki fyrr en seint og um síðir. Fyrir hönd ‘Los Angelenos’ verður maður að vera bjartsýnn. Breytt hugarfar, breytt þjóðfélagsuppbygging, ný tækni og fleira virðist ætla að koma íbúunum til hjálpar. Vonandi gerist það bara fyrr en síðar.

Nokkrar heimildir:

Rethinking Traffic Congestion (pdf)

Market-Based Transportation Alternatives for Los Angeles

The People’s Freeway

Mayor Shares Vision for LA

Anthony Downs: Still Stuck in Traffic: Coping with Peak-Hour Traffic Congestion. Brookings Institution Press. 2004.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.