Kafbátarnir á kaffistofunum

Í flestum fyrirtækjum má finna starfsmenn sem eru duglegir að láta í sér heyra þegar eitthvað er þeim ekki að skapi í rekstri fyrirtækisins. Þeir eru sannkallaðir „kanslarar kaffistofunnar“ þegar hitamál ber á góma, með einföld svör og dramatískar yfirlýsingar á reiðum höndum þegar þeir telja að brotið sé á réttindum starfsmanna. En eru þetta hæfir stjórnendur?

Í flestum fyrirtækjum má finna starfsmenn sem eru duglegir að láta í sér heyra þegar eitthvað er þeim ekki að skapi í rekstri fyrirtækisins. Þeir eru sannkallaðir „kanslarar kaffistofunnar“ þegar hitamál ber á góma, með einföld svör og dramatískar yfirlýsingar á reiðum höndum þegar þeir telja að brotið sé á réttindum starfsmanna, eða jafnvel bara þegar nýjasta auglýsingaherferð fyrirtækisins fellur þeim ekki að skapi.

Þekkingarsvið þessara starfsmanna, sem stundum eru kallaðir kafbátar í fræðum mannauðsstjórnunar og verða svo nefndir hér eftir í þessum pistli, virðist ná yfir breiðara svið en gengur og gerist meðal almennra starfsmanna. Þeir virðast vera jafn vígir á fjárstýringu, starfsmannahald og grafíska hönnun eins og viðhaldi fasteigna, kerfisfræði og sölumennsku. En þrátt fyrir þessa miklu þekkingu er framlag kafbátanna til umræðunnar undantekningarlítið neikvætt og allt of sjaldan uppbyggilegt; þeir vilja frekar ata „vitleysingana í markaðsdeildinni“ eða „bölvaðan kokkinn“ saur, en nýta visku sína í að leggja fram skynsamlegar lausnir á vandamálunum.

Annað einkenni á kafbátum er að þeim finnst ekkert höfuðatriði að gagnrýnin sé á sterkum rökum reist; aðalatriðið er að viðhalda aðdáun annarra kaffistofugesta á mælsku þeirra, þekkingu og réttlætiskennd. Ef ein gagnrýnisrispan fer ofan garðs og neðan er auðvelt að yppa öxlum og vísa ókvæðisorðunum annað, því eins og skáldið sagði: „Alls staðar kemst eitthvað ekki í verk / þó ýmsu sé hrundið í framkvæmd.“ Þannig má í raun finna vanhæft fólk alls staðar innan fyrirtækisins, ef þú ert nógu einbeitt/-ur í leitinni, og í þessu sérhæfa kafbátar sig.

Kafbátar sýna sjaldan leiðtogahæfileika eða löngun til að leiða hóp, heldur hentar þeim vel að sigla undir radarnum með sinn boðskap. Ef kafbátur yrði skyndilega hækkaður í tign og gerður að stjórnanda myndi það þýða að hann sjálfur væri orðinn skotmark ósáttra starfsmanna og slík gagnrýni væri auðvitað óæskileg, jafnvel ómakleg. Slík vistaskipti þýddu líka að kafbáturinn þyrfti að temja sér nokkuð sem hann forðast alla jafna í lengstu lög, og það eru málamiðlanir. Þetta gerir það að verkum að hópavinna sem kafbátar taka þátt í er aldrei langlíf og upp úr springur áður en yfir lýkur.

Eitt stærsta verkefni mannauðsstjórnunar í hvaða fyrirtæki sem er er að einangra kafbáta og takmarka skaðann sem af þeim getur hlotist, en að sjálfsögðu er það almenn kurteisi og tillitssemi að hlusta á og virða ólík sjónarmið innan fyrirtækisins. Það er þó sem betur fer sjaldan gripið til þess ráðs að bjóða slíkum starfsmönnum stjórnendastöður með stóraukinni ábyrgð til að þröngsýnar og ósveigjanlegar skoðanir þeirra geti haft veruleg áhrif á framtíðarstefnu fyrirtækisins.

Höfundur hefur starfað á ýmsum vinnustöðum og hefur setið bæði fundi og kaffitíma þar sem kafbátahernaður er stundaður í óhófi, honum til mikillar mæðu.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)