Í sumar fór hitinn í Kanada næstum upp í 50 gráður, hundruðir manns dóu í flóðum í Þýskalandi og Kína og skógareldar geisa á áður óþekktum skala um allan heim. Hlýnun jarðar er ekki lengur framtíðarvandamál heldur er orðið helsta einkenni nútímans og hefur áhrif á umhverfi okkar á hverjum degi.
En hvað ætlum við að gera? Stjórnvöld samþykktu nýverið nýja aðgerðaráætlun loftslagsstefnu. Þegar rennt er í gegnum það skjalið þá blasir við það mat stjórnvalda að loftslagsmál séu minniháttar mál sem á að tækla af sama krafti og starfsmaður í bæjarvinnunni hrærir í arfabeði.
Í samgöngumálum er lykilatriði að færa fólk í rafbíla en lítið gert til þess að breyta menningu í átt að bíl-léttari lífsstíl þar sem fleiri ferðir eru farnar með virkum ferðamátum. Haldið verður áfram að selja bensínbíla til ársins 2030.
Langstærsti losunarþáttur Íslands er framræst votlendi en talið er að 420.000 hektarar votlendis hafi verið ræstir fram á síðustu öld. Það er um 4% af landinu. Í núverandi aðgerðaráætlun er talað um að fara frá því að endurheima 45 hektara á yfir í að endurheimta 500 hektara á ári. Við ætlum sem sagt að fara úr því að endurheimta 0,01% votlendis á ári upp í að endurheimta 0,12% votlendis á hverju ári.
Í skógræktarmálum er talað um að tvöfalda framlag til skógræktar þannig að umfang verkefna fari upp í 2.300 hektara og í landgræðslu er áætlað að tvöfalda umfang svæða. Í báðum tilfellum er aukið fjármagn stjórnvalda til þessara verkefna á fjórum árum innan við milljarðar.
Við þurfum að setja miklu meiri kraft í endurheimt vistkerfa heldur en framangreindar áætlanir lýsa.
Hvenær kemur að þeirri tímasetningu að við sjáum aðgerðaráætlanir í loftslagsmálum sem minna meira á Kárahnúkavirkjun en minna á Ísland án eiturlyfja 2002?
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021