Svarta gullið

20. apríl síðastliðinn varð sprenging í olíuborpalli British Petroleum á Mexíkóflóa, sem varð 11 starfsmönnum borpallsins að bana og olli því að olía hefur streymt óhindrað úr borholunni í flóann í rúman mánuð.

20. apríl síðastliðinn varð sprenging í olíuborpalli British Petroleum á Mexíkóflóa, sem varð 11 starfsmönnum borpallsins að bana og olli því að olía hefur streymt óhindrað úr borholunni í flóann í rúman mánuð.

BP rekur upphaf sitt til ársins 1866 og er því enginn nýgræðingur í orkugeiranum. Fyrirtækið er eitt stærsta orkufyrirtæki heims, með yfir 80 þúsund starfsmenn í 30 löndum, veltu upp á 239 milljarða dollara árið 2009 og 14 milljarða dollara hagnað það sama ár. Leit, vinnsla og flutningur á olíu og gasi eru máttarstólpar starfseminnar, þó fyrirtækið hafi líka fjárfest í þróun á nýtingu vind-, sólar- og lífeldsneytisorku. Fyrirtækið hefur augljóslega mikla þekkingu á starfsemi sinni, starfrækir 16 olíuhreinsistöðvar og gríðarlegan fjölda borpalla víða um heim (oft reknir af undirverktökum), en það var ekki nóg til að koma í veg fyrir þetta mikla umhverfisslys. Það segir kannski nokkuð um hversu hættulegir olíuborpallar geta verið, bæði fyrir starfsmennina og náttúruna í kring.

Skaðinn fyrir dýralíf í Mexíkóflóa er ómældur; á yfirborði flóans eru til að mynda brúnir pelíkanar og skjaldbökur í stórhættu. Af dýrum í mestri hættu undir yfirborði sjávar má nefna rækju, túnfisk og höfrunga, og á sjávarbotninum er óttast um ostrur og skelfisk, meðal annarra. Þar að auki skaðast verulega vistkerfi strandlengju þeirra ríkja sem að flóanum liggja, næst borholunni; Louisiana, Alabama og Florida.

Það er ekki lengra en á síðasta ári sem stjórnvöld í Bandaríkjunum lýstu yfir eindregnum áhuga á að fjölga olíuborpöllum undan Atlantshafsströnd Bandaríkjanna, með sams konar djúpsjávarborpöllum og sprakk í apríl. Nú er orðræða yfirvalda hins vegar allt önnur og harkan í garð BP hefur vaxið mikið á undanförnum vikum, í takt við hneykslan og hræðslu almennings.

Það er stundum sagt að slysin gera ekki boð á undan sér en sorgleg staðreynd málsins er að þetta gerði það; í gær var upplýst að tveimur tímum fyrir sprenginguna komu skýr merki í ljós um óreglulegt flæði í holunni en vinnu var engu að síður haldið áfram með ofangreindum afleiðingum. Hætta er á að þetta hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir BP og svissneska olíuborrisann Transocean, sem sá um rekstur borpallsins, sérstaklega þegar haft er í huga að ekki þarf að leita lengra aftur en til 2009 til að finna slík fordæmi tengd alvarlegu olíuslysi í Bandaríkjunum. Þá létust 15 starfsmenn olíuhreinsistöðvar og var eigandi hennar sektaður um 87 milljónir dollara, áður óheyrða upphæð í slíkum málum. Eigandinn var British Petroleum.

Á Íslandi er umræðan um orkumál áberandi og kaup Magma Energy og HS Orku hafa vakið sterk viðbrögð þeirra sem vilja ekki hleypa erlendum fyrirtækjum inn á íslenskan orkumarkað. Hugmynd um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum var mjög áberandi fyrir nokkrum misserum og leit að olíu er í fullum gangi á Drekasvæðinu norðaustur af landinu. Þegar aðstæður þar eru bornar saman við Mexíkóflóa kemur í ljós að dýpið er mun minna, 1-1,5 km á Drekasvæðinu samanborið við 3-4 km í Mexíkóflóa.

Við getum boðið stóriðjufyrirtækjum að mörgu leyti hagkvæmara og öruggara umhverfi fyrir þeirra starfsemi. Stjórnvöld bera ábyrgð á að haga málum svo að arðbær starfsemi þrífist vel á landinu í stað þess að botnlausa skattheimtu á almenning þurfi til að ríkissjóður líti ágætlega út, en fyrst og fremst þarf að gæta öryggis í kringum stóriðju. Það hefur tekist í áliðnaðinum en eins og dæmin sanna er greinilegt að að mörgu þarf að huga áður en risastórum olíuverkefnum er hleypt af stokkunum.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)