Taívan má ráða sér sjálft

Árið er 1998. Ólympíukeppnin í stærðfræði er haldin í Taívan. Ég geng um götur Taípei með hópi ungra Íslendinga. Heimamaður kemur auga á okkur. Hann heldur sigrihrósandi á enskumælandi dagblaði. Fyrirsögnin er að Bandaríkjamenn hyggjast áfram selja Taívönum vopn.

Hann heldur að við séum Bandaríkjamenn. Hann krefst þess að kaupa eitthvað handa okkur. Drykki, mat, bara eitthvað. Sem þakklætisvott fyrir aðstoð “okkar” á krefjandi tímum.

Ári áður höfðu yfirráð yfir Hong Kong flust frá Bretlandi til Kína undir kjörorðinu “Eitt land – tvö kerfi”. Yfirvöldin á meginlandinu hafa margoft lýst yfir áhuga á því að nota sama módel þegar kemur að Taívan.

Þessi hugmynd nýtur nú vægast sagt takmarkaðra vinsælda á eyjunni. Í nýjustu könnunum styðja um 1-2% kjósenda sameiningu “eins fljótt og hægt er”. 

Af hverju ætli það sé? Það er auðvitað út af því hvernig reynslan frá Hong Kong hefur verið. Hægt og örugglega hefur flestum stoðum frjálslynds lýðræðis í Hong Kong verið rutt úr vegi þangað til að ekkert stendur nema ásýndin. Hún mun svo hverfa líka. Nú eru til dæmis bara stuðningsmenn Beijing-stjórnar eftir á Hong-Kong-þinginu.

Niðurstaðan með þessu öllu er sú  að jafnvel þeir Taívanir sem myndu vilja sjá sameiningu við meginlandið hafa engin rök í höndunum. Allir hafa séð að “Eitt land – tvö kerfi” endist ekki. 

Taívan er lýðræðisþjóðfélag. Maður vinnur ekki hjörtu slíkra samfélaga með því að haga sér eins og fyrrum kærasti korter í nálgunarbann. Það þýðir að það er ekki sniðugt að flytja í einu orði lofræður um kosti tveggja kerfa kerfisins en skjóta svo úr alvöru byssum úti á sjó út af því Nancy Pelosi kemur í heimsókn. Það er ekki trúverðugt.

Taívan hefur verið de-facto sjálftstætt ríki yfir 70 ár og virkt lýðræðisríki seinustu 35 ár. Þau eiga að geta ráðið sínum örlögum sjálf, og ákveðið sjálf um tengsl sín við meginlandið, án þess að sitja undir hótunum. Eflaust geta svokallaðir “raunsæismenn” beggja vegna Atlanshafsins fundir góða, raunsæja ástæðu fyrir að við eigum að láta okkur örlög einhvers 20 milljóna lýðræðissamfélags í Asíu engu varða. En siðferðilega spurningin um það með hverjum við eigum að standa með – hún er eins einföld og þær gerast.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.