Nýr 100 ára Selfoss

Það getur reynt á þolinmæðina að ferðast um Suðurlandsveginn þessa dagana. Reglulega myndast umferðarteppa vegna ferðamanna á leið austur sem eiga engra annarra kosta völ en að aka í gegn um Selfoss.  Þó svo að tafirnar séu ekkert í líkingu við það sem vegfarendur þekkja i erlendum stórborgum og þó að þær séu bæði tíma- og árstíðabundnar, væri ágætt að sleppa við hringtorgin.

Ný brú yfir Ölfusá verður boðin út um næstu áramót og hillir þá undir að þessar tafir verði úr sögunni. Minnkar þá umferð um bæinn og er skiljanlegt að þeir sem reka t.d. verslanir hafi áhyggjur af því að í kjölfarið minnki viðskipti umtalsvert. Selfossbær hefur þó brugðist við þessum breytingum með aðdáunarverðum hætti og snúið vörn í sókn með myndarlegri uppbyggingu miðbæjarins sem vonandi verður til þess að enn fleiri geri sér erindi í þennan fallega bæ en áður.

Þó svo að auðvitað séu skiptar skiptar skoðanir um útlit bygginga má velta fyrir sér hvort ákvörðunin um að byggja upp miðbæinn í byggingastíl sem var ríkjandi um þar síðustu aldamót eigi eftir að eldast vel. Þó að byggingarnar séu fallegar og eiga eflaust eftir að þjóna sínu hlutverki ágætlega er engin ástæða til að festast í fortíðinni þegar kemur að byggingastíl. Hætta er á því að þessi byggð fái á sig tilgerðarlegt yfirbragð þegar fólk veit að hönnunin er fengin úr fortíðinni og í engum við takti við það sem gengur og gerist í nútíma byggingarlist.

Arkitektar hafa sýnt það með verkum sínum hér á landi að það er lítil ástæða til að vantreysta þeim til að þess að búa til fallegar byggingar í takt við tíðarandann og í samræmi við kröfur nútímans sem lýsa straumum og stefnum okkar tíma. Jafnvel í bland við eldri byggð í öðrum stíl. Til að setja þetta í eitthvert samhengi væri hægt að spyrja sig hvort eðlilegt þætti að t.d. Þjóðleikhúsið, sem var vígt árið 1950, hefði verið byggt í stíl við Menntaskólann í Reykjavík eða hvort að það sé ekki betra að það lýsi tíðaranda sem ríkti þegar það var tekið í notkun.

Þó svo að hönnuðum takist ekki alltaf vel til og auðvelt sé að benda á dæmi um arkitektúr sem við höfum ekki smekk fyrir í dag,  er engin ástæða til að gefast upp og hverfa til fortíðar. Slíkt viðhorf leiðir til stöðnunar og ef það hefði verið ráðandi áður fyrr værum við líklega mörgum fallegum byggingum fátækari.

Það er full ástæða til að óska Selfyssingum til hamingju með nýja miðbæinn sem á eflaust eftir að glæða bæinn nýju lífi. Þó er hætta á því að ákvörðunin um að byggja hann upp í gömlum stíl eigi eftir að eldast illa og að Íslendingar framtíðarinnar velti fyrir sér af hverju þessar byggingar séu ekki um 100 árum eldri en þær raunverulega eru.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.