Þriðja stoðin – tilboði hafnað

Þriðja stoðinÍ nóvember síðastliðnum gerði íslenskur hátækniiðnaður stjórnvöldum tilboð – að mynda þriðju stoðina í íslensku atvinnulífi, til móts við sjávarútveg og áliðnað. Tilboðið er gott og kostirnir óumdeildir. Stjórnvöld hafa hafnað tilboðinu.

Þriðja stoðinSamtök upplýsingatæknifyrirtækja, sem einungis er hluti af íslenskum hátækniiðnaði, gerði stjórnvöldum tilboð á haustdögum um að verða þriðja stoðin í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands árið 2010, sem mótvægi við sjávarútveg og áliðnað.

Í tilboðinu felst meðal annars að:

– tífalda gjaldeyristekjur af upplýsingatækni á næstu sex árum, úr fjórum milljörðum í 40 milljarða,

– fjölga störfum í upplýsingatækni um 3000 og

– skapa nettó skatttekjur upp á um fimm milljarða og auka fjárfestingu um tvo milljarða.

Þessi tilboði hefur nú verið hafnað á ál-altari skammsýnis- og sérhagsmunasjónarmiða. Stjórnvöld eru með álæði sýnu að hamla áframhaldandi örum vexti íslensks hátækniðnaðar og í raun að hvetja hátæknifyrirtæki til að flytja starfsemi sína úr landi.

Heimsmarkaðsverð á áli og stærð fiskistofna (þ.a.l. kvóta) sveiflast ár frá ári og þær sveiflur ásamt gengissveiflum krónunnar (tengdum eða ótengdum) skapar ójafnvægi í efnahagskerfinu. Hátækniðnaður sem þriðja stoðin getur haft mikilvægt sveiflujafnandi hlutverk ef iðnaðinum eru sköpuð eðlileg vaxtarskilyrði. Auk þess skapar hátækniiðnaður fleiri hálaunastörf en sjávarútvegur og áliðnaður til samans. Engu að síður hafa stjórnvöld valið að styrkja álstoðina frekar.

Við lifum á tímum þar sem alþjóðavæðingin er að gerbreyta atvinnuumhverfi okkar og hefur varanleg áhrif á samkeppnishæfni þjóða. Stór hluti af framleiðslustarfsemi í heiminum er að flytjast til Kína og þekkingarstörf að flytjast til Indlands. Margir gera sér eflaust ekki grein fyrir því hvað þessi þróun er komin langt á veg og nokkuð öruggt má telja að Bandaríkjamenn gera sér ekki allir grein fyrir því að: skattframtölin þeirra séu gerð á Indlandi, læknisfræðileg greining á röntgenmyndum þeirra er gerð á Indlandi og tæknileg þjónusta við þá í gegnum síma fer fram í Chennai eða Bangalore.

Þessi þróun er rétt að byrja og gerir það að verkum að ríkustu þjóðir heims verða að endurskilgreina atvinnuuppbyggingu sína – ef þær ætla að halda sinni stöðu. Svar íslenskra stjórnvalda við þessari þróun er: Iðnvæðing.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)