Um Deigluna

Deiglan er frjálst og óháð vefrit. Útgefandi Deiglunnar er Deiglan, stjórnmálafélag sem stofnað var 30. apríl 2014.

Deiglan er almennt félag með aðsetur í Reykjavík. Útgáfan er ekki rekin í hagnaðarskyni og allt vinnuframlag tengt útgáfunni, þar með talið skrif, hönnun og forritun, er sjálfboðastarf félagsmanna. Allur tilfallandi kostnaður, til dæmis hýsing, vegna útgáfunnar er greiddur með framlögum félagsmanna. Deiglan hefur aldrei tekið við fjárhagslegum styrkjum frá fyrirtækjum, stjórnmálaflokkum, félagasamtökum eða einstaklingum utan Deiglunnar.  

Ritstjórnarstefna Deiglunnar felst í að birta vandaða og upplýsandi pistla um hvaðeina sem erindi á þjóðmálaumræðuna. Ábyrgðarmaður Deiglunnar er Borgar Þór Einarsson.

Eitt fyrsta vefrit landsins

Deiglan kom fyrst út þann 3. febrúar 1998 og var henni fylgt úr hlaði meðeftirfarandi orðum:

Netið býður upp á möguleika sem áður voru óhugsandi fyrir efnalitla einyrkja. Mikill prent- og dreifingarkostnaður við hefðbundna blaðaútgáfu er þröskuldur sem flestum reynist óyfirstíganlegur. Ekki er það ætlunin með þessu litla vefriti, sem hlotið hefur heitið Deiglan, að standa fyrir umfangsmiklum, alhliða fjölmiðlarekstri – ekki ennþá. Miklu frekar ber að líta á þessi skrif sem eins konar leiðara, líkt og hjá héraðsfréttablöðum.

Deiglan hefur í raun ekki æðri tilgang en þann, að svala tjáningarþörf ritstjóra. Í Deiglunni verður – eins og gefur að skilja… – fjallað um þau mál sem eru í deiglunni hverju sinni. Það skal tekið skýrt fram að hér er ekki á ferðinni miðill með pólitískar „ambisjónir.“ Fræðileg umræða um stjórnmálakenningar hentar ekki ritstjórnarstefnu ritsins og þar að auki eru aðrir betur til slíkrar umræðu fallnir.

Reykjavík 3. febrúar 1998,
Borgar Þór Einarsson

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Deiglan tekið miklum breytingum. Þótt „alhliða fjölmiðarekstur“ sé enn langt undan, þá er Deiglan í dag orðin að rótgrónum fjölmiðli á Netinu með tryggan og ört stækkandi lesendahóp.

Mjór er mikils vísir

Deiglan var lengi framan af eingöngu skrifuð af ritstjóranum og útgáfutíðnin heldur minni en nú er. Haustið 2000 urðu þáttaskil í sögu Deiglunnar þegar þrír nýir pennar hófu að skrifa. Þetta voru þeir Þórlindur Kjartansson, Jón Steinsson og Brynjólfur Ægir Sævarsson.

Á vormánuðum 2001 bættust aðrir þrír pennar í hópinn, þau Guðmundur Svansson, Andri Óttarsson og Soffía Kristín Þórðardóttir, og um sumarið fjölgaði enn um þrjá þegar Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Guðjónsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hófu að skrifa á Deigluna. Haustið 2001 hófu tveir nýir skríbentar að skrifa, Baldvin Þór Bergsson og Margrét Einarsdóttir. Drífa Kristín Sigurðardóttir bættist í hópinn vorið 2002.

Síðan þá hefur fjölgun pistlahöfunda verið mikil og eru þeir nú nálægt eitt hundrað talsins. Samhliða fjölguninni hefur verkefnum fjölgað og er mikill metnaður lagður í að efnisþættir á Deiglunni séu uppfærðir reglulega.

Deiglan hefur beint sjónum sínum mjög að frelsi einstaklingsins og öðrum mannréttindamálum og ítrekað verið farvegur fyrir óánægju fólks með mál sem þessi mál varða. Yfir fimm þúsund manns skrifuðu undir mótmæli gegn útlendingafrumvarpi ríkisstjórnarinnar 2004 en Deiglan hafði frumkvæði að og tæknilega umsjón með samstilltu átaki ungliðahreyfinga og vefrita í því máli. Sumarið 2005 hafði Deiglan frumkvæði og umsjón með einni viðamestu undirskriftasöfnun í sögu Íslands þegar tæplega þrjátíu þúsund manns undirrituðu áskorun til ritstjórnar og útgefenda DV að hverfa af braut lágkúrulegrar blaðamennsku og óréttlætanlegum innrásum í einkalíf fólks.

Að þessu leyti hefur Deiglan verið bæði hreyfiafl og hugveita á þeim tíma sem liðin er frá stofnun hennar. Deiglan hefur einnig verið traustur félagsskapur og staðið fyrir margs konar félagslífi á starfstíma sínum.

Sjálfstæði pistlahöfunda

Pistlahöfundar hafa óskorað frelsi í efnistökum sínum og kunna áherslur þeirra í ýmsum málum að vera æði mismunandi. Ritstjórn leggur þó áherslu á að efni sé í samræmi við almennt velsæmi og sé ekki vefritinu eða félagsskapnum til vansæmdar. Deigluskríbentar eiga það þó sameiginlegt að aðhyllast grundvallarhugmyndir um frelsi einstaklingsns og virðingu fyrir mannlegum gildum. Deiglan er þannig frjálslynt vefrit sem ekki verður dregið í pólitíska dilka. Hér er leitast við að birta vandaða og upplýsandi pistla, og reynt í lengstu lög að forðast ófrumleika og kreddur. Efnistök og orðfæri er á ábyrgð höfundar sjálfs.