Velheppnaður miðbær Selfoss

Miðað við fyrstu fréttir af foropnun nýs miðbæjar Selfoss virðist sem vel hafi tekist til. Þarna var ákveðið að byggja “gamalt nýtt”. Húsin í nýja miðbænum eru byggð á gömlum húsum, sem hafa þó aldrei staðið svona saman á þessum stað.

Slík skapandi sögufölsun hefur aldrei náð sérlegum vinsældum hér á landi, fyrr en kannski nú. Við sem brotin erum af miðevrópsku bergi könnumst hins vegar aðeins betur við þessa tilhneygingu. Varla er til sá gamli miðbær í Póllandi sem raunverulega eldri en 80 ára. Það stafar auðvitað af illri nauðsyn. Flestir miðbæir urðu rústir einar í stríðinu. Og enn er verið að endurbyggja byggingar, nú hefur endurbygging Saski-hallarinnar til dæmis verið boðuð í Varsjá.

Á Íslandi var ekkert stríð sem lagði gömlu miðbæina í rúst. Það er meira að þeir hafi aldrei almennilega náð að verða til, stundum sökum fátæktar og stundum vegna pólitískrar andúðar á þéttbýlinu. Nýr miðbær Selfoss er forvitnileg tilraun til að endurskapa sögu sem ekki varð. Og hugsanlega munu fleiri fylgja í kjölfarið. Fréttir berast nú af nýjum gömlum bæ á Kársnesinu. Og áformin á Egilsstöðum, þar sem þörfin á nýjum miðbæ er líklegast mest, hafa breyst mikið í þessa veru á áratug og ekki til hins verra.

Það er ekki svo langt síðan að öll umræða um skipulag miðbæja snerist um bílastæði. Nú virðist sem betur fólk átta sig á að aðdráttarafl miðbæja felst ekki í bílastæðum, þar hafa verslunarmiðstöðvarnar vinninginn hvort eð er. Aðdráttarafl miðbæja felst frekar í

  • húsum í nostalgískum stíl,
  • matarmenningu,
  • göngugötum með verslunum á jarðhæðum og
  • torgum sem sem hægt er að sitja á á góðviðrisdögum.

Um smekk má alltaf deila. En það er jákvætt að nýr miðbær sé hannaður í kringum mannlíf, mat og menningu en ekki bíla og bílastæði. Fyrir það má hrósa. Fljótt á litið virðist sem nýi gamli bærinn á Selfossi eigi eftir sinna hlutverki sínu vel.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.