Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda

Það er að verða hröð en ekki alveg óvænt stefnubreyting í stjórnmálum þegar kemur að málefnum hælisleitenda hér á landi. Ummæli formanns Samfylkingarinnar og varaformanns VG í nýlegum viðtölum eru til marks um þetta, þar sem nú er stefnt að því að færa málaflokkinn nær því sem gerist á Norðurlöndunum, sem þýðir minna umfang, talað er um að sýna raunsæi og jafnvel gengið svo langt að segja að frumvarp um lokað búsetuúrræði verði afgreitt á þingi.

Þetta er ekki alveg óvænt ef horft er til þróunarinnar í þessum málaflokki í löndunum í kringum okkur þar sem margar þjóðir og stjórnmálaflokkar hafa stigið áþekk skref, en samt sem áður fer þetta mjög gegn þeirri stefnu sem Samfylkingin og vinstriflokkarnir hafa talað fyrir síðustu árin. Raunar hefur það verið eitt helsta áhugamál vinstrisinnaðra álitsgjafa á Íslandi undanfarin ár að benda á hve rasísk og ómannúðleg stefna íslenskra stjórnvalda í málefnum útlendinga er og eflaust talsverð vinna framundan á þeim vettvangi við að koma stóryrðum liðinnar tíðar heim og saman við nýju línuna.

Umfangið marg-tug-faldast þrátt fyrir nánast stöðuga gagnrýni

Umræðan hefur óneitanlega verið ansi áhugaverð. Á síðustu 15 árum hefur málaflokkur hælisleitenda tekið algerum stakkaskiptum hér á landi. Hann hefur farið frá því að vera af mjög litlu umfangi – heildarfjöldi umsókna um hæli hér á landi árið 2009 var t.d. 35 umsóknir og á fjárlögum þess árs var gert ráð fyrir rúmum 200 milljónum til málaflokksins. Árin 2022 og 2023 hafa umsóknir hins vegar verið yfir 4000 talsins bæði árin (að meðtöldum umsóknum frá Úkraínu) og gert er ráð fyrir að málaflokkurinn kosti ríkissjóð um 16 milljarða á þessu ári. Heildarfjöldi umsókna árið 2009 er sem sagt það sem nemur fjölda umsókna á 3-4 dögum núna að meðaltali. Við erum komin hlutfallslega langt fram úr Norðurlöndunum, svo mjög að við þurfum ekki lengur höfðatöluna góðu, þar sem við erum á pari í fjölda umsókna – læk fyrir læk – gagnvart t.d. Danmörku sem er þó með 13-14 sinnum fleiri íbúa en við (eftir því hvernig Hagstofan telur fjölda Íslendinga þann daginn).

Engu að síður hefur þessi ótrúlega aukning, kannski fimmtíuföldun á umfangi, átt sér stað undir nánast stöðugri gagnrýni og gífuryrðum, þar sem ásakanir um rasisma og útlendingaandúð kerfisins og ákveðinna stjórnmálaflokka hafa verið reglulegar og áberandi. Þetta rof á milli raunveruleika og umræðunnar er út af fyrir sig áhugavert fyrirbæri og segir okkur kannski eitthvað um hversu auðvelt er orðið í dag að tala með þeim hætti, fá platform og uppslátt sem aflar vinsælda í ákveðnum hópi en að öðru leyti eru þetta ábyrgðarlausar fullyrðingar og í litlu sem engu samhengi við það sem er raunverulega að gerast.

Fólk sem hefur unnið í þessum málaflokki, t.d. starfsfólk Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála, lögreglu og fleiri, hefur lagt á sig mikla vinnu og verið undir miklu álagi við að halda utan um stöðugt aukið umfang á kerfinu. Á sama tíma hefur það mátt sitja undir því að vera kallað alls konar nöfnum, sakað um útlendingaandúð, rasisma, nasisma og eitthvað þaðan af verra, störf þeirra gjarnan skrumskæld í opinberri umræðu og fjölmiðlum. Raunveruleikinn er sá að þetta fólk hefur verið að gera sitt besta í snúnum aðstæðum og með þessa gríðarlegu aukningu umsækjenda. Auðvitað er alltaf eitthvað sem má gera betur, hraðar, á styttri tíma og þar fram eftir götunum en það er vonandi að þessi kaflaskil sem virðast vera að renna upp í umræðunni verði til þess að það náist einhver jarðtenging í því hvernig talað er um fólk sem vinnur á þessu sviði.

Staðreyndin er sú að á bak við þetta kerfi allt saman er fólk; bæði þau sem leita hingað til lands, það eru manneskjur sem búa allajafna við töluvert erfiðari aðstæður en við myndum láta okkur detta í hug að sætta okkur við og þau eiga skilið að fá hér góðar og mannsæmandi móttökur en það á líka við um fólkið sem vinnur í kerfinu. Undir er enn stærri hópur fólks sem leggur hönd á plóg þótt þau vinni ekki með beinum hætti í kerfinu; kennarar, starfsmenn í félagsþjónustu og aðrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem hafa séð mikla aukningu í kringum þennan málaflokk undanfarnin ár og hafa lagt mjög hart að sér við að láta allt ganga upp. Í raun er ákveðið afrek og fær ekki alltaf mikla athygli að það hafi tekist að koma nánast öllum þeim sem hingað hafa leitað í sómasamlegt húsnæði, börnum sem tala hvorki íslensku né ensku inn í skólakerfið, að þjónusta hafi verið veitt til þeirra sem á þurfa að halda og svo framvegis, nánast án þess að neitt hafi hikstað.

Uppákomur og stemning

Í þessari sérkennilegu stemningu sem ríkt hefur í málaflokknum undanfarin ár hafa orðið alls konar athyglisverðar uppákomur. Einstök mál hafa þá verið tekin út fyrir sviga og mikil barátta sett í gang fyrir því að fá niðurstöðunni breytt, með þeim rökum að hún hafi verið svo ósanngjörn og ómannúðleg að þetta geti í raun ekki staðist. Ýmsum aðferðum og meðulum hefur verið beitt; umsækjendurnir fara í felur þannig að ekki er unnt að framkvæma ákvörðunina, málin hafa verið unnin náið með fjölmiðlum og jafnvel gengið harkalega og persónulega fram gagnvart fulltrúum kerfisins til að beita þrýstingi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem var dómsmálaráðherra, lýsti því t.d. nýverið hvernig það var setið um heimili hennar og hrækt á hana úti á götu í einu svona tilfelli, sem hluti af baráttu til að fá hana til að breyta niðurstöðu í tilteknu máli.

Úr hefur orðið heilmikill fjölmiðlastormur, ráðherrar jafnvel eltir á röndum dag eftir dag og spurðir hvort þeir ætli ekki að gera eitthvað í málinu þótt ákvarðanatökuvaldið í málinu liggi ekki þar. En þetta hefur samt sem áður skilað árangri í þónokkrum málum, það hefur verið látið undan, eitt og eitt mál tekið til hliðar og niðurstaðan endurskoðuð, reglurnar lagaðar til eftir á og ívilnanir búnar til, allt til að reyna að klára málið, lægja öldur, komast út úr storminum og vona að þetta komi ekki upp aftur. Sem það þó gerir.

Því má velta fyrir sér hvernig þetta myndi vera í öðrum málaflokkum, ef t.d. dómarar væru eltir á röndum fyrir dóma sem þeir kveða upp og ráðherrar settir á punktinn í fjölmiðlum með spurningum um hvers vegna væri ekki verið að snúa dómnum við eða breyta niðurstöðu hans. Jafnvel væri gerður aðsúgur að þeim og setið um heimili þeirra. Eða ef starfsfólk Tryggingastofnunar væri samsamað við ákvarðanirnar sem það tekur, að það væru ekki lögin og lagaramminn sem réðu úrslitum heldur starfsfólkið og mannvonska þeirra sem leiddi til þess að ekki væru greiddar út hærri fjárhæðir mánaðarlega en raun ber vitni. Okkur dytti þetta vitaskuld ekki í hug. En það hefur þótt sjálfsagt mál að setja hlutina fram með þessum hætti þegar um er að ræða málefni útlendinga.

Að setja ramma og mörk er ekki andstaða við málstaðinn

Vegferð Íslendinga á þessu sviði má að einhverju leyti líkja við manneskju sem fór fyrir nokkrum árum síðan að taka þátt í hjálparstarfi í sjálfboðaliðavinnu. Þetta frumkvæði kemur frá góðum stað en fljótlega hlaðast upp verkefnin í kringum starfið og þetta tekur tíma og orku á kostnað fjölskyldu og vinnu. Á einhverjum tímapunkti fara að renna tvær grímur á sjálfboðaliðann. Er eðlilegt að umfangið aukist og aukist? Þetta verður enn sérkennilegra þegar í ljós kemur að aðrir þeir sem taka að sér sambærileg verkefni verja ekki til þess nærri því jafnmiklum tíma. Og skrýtnast er kannski að þegar farið er að velta þessum hlutum upp, ræða þá og spyrja spurninga eru viðbrögðin úr umhverfinu á þá leið að viðkomandi sé greinilega alveg sama um málstaðinn. Það kemur auðvitað að því á endanum að það þarf að setjast niður og endurskoða málið, stíga eitt skref til baka og ná áttum. Að setja ramma og mörk er ekki það sama og að vera mótfallinn viðkomandi málstað.

Tryggir núverandi fyrirkomulag rétta forgangsröðun?

Eitt af því sem þarf að ræða og skoða er kjarninn í sjálfu verndarkerfinu. Í hugum margra er línulegt samband á milli umsókna og samþykktra umsókna annars vegar og árangurs hins vegar. Að fjöldinn tryggi gæðin ef svo má að orði komast.

Hér er þó ekki allt sem sýnist.

Hæliskerfið er þannig uppsett að í raun getur hver sem er komið hingað til lands og sótt um hæli. Koman til landsins er lykilatriði, enginn annar getur sótt um hæli. Sá sem reynir að hafa samband erlendis frá og óska eftir hæli hér á landi myndi ekki teljast hafa borið sig rétt að og slík umsókn væri markleysa og yrði synjað strax, jafnvel þótt viðkomandi væri sannarlega í mikilli hættu.

Umsóknin verður því að vera borin fram af einstaklingi sem er á landinu sem auðvitað útheimtir kostnaðarsamt og langt ferðalag til landsins og setur ákveðinn svip á þann hóp sem hingað kemur.

Ungir karlmenn áberandi í hópi umsækjenda

Það er fróðlegt að rýna í tölfræði (vefur Hagstofunnar) á þessu sviði og áberandi hve ungir karlmenn eru stór hluti umsækjanda. Á árunum 1997-2019 voru t.d. um 42% allra umsækjanda karlmenn á aldrinum 18-34 ára, sem er þó sá hópur sem ætti að eiga hægast með að flytja innan síns heimalands og koma sér fyrir annars staðar þótt þeir sæti ofsóknum á sínu heimasvæði. Yfir sama tímabil er hlutfall karla um 72% af öllum umsækjendum á meðan hlutfall kvenna er um 27%. Á tímabilinu eru börn 13 ára og yngri 17% umsækjenda. Þessar tölur sýna vel að konur og börn eru miklu síður í hópi umsækjanda þótt heilbrigð skynsemi segi að það séu einmitt þeir hópar sem þyrftu helst á aðstoð að halda þegar ofsóknir geysa eða neyðarástand kemur upp.

Við það eitt að bera upp hælisumsókn vakna ákveðnar skyldur okkar, umsækjandinn á rétt á að fá mál sitt skoðað á tveimur stjórnsýslustigum, lögfræðiaðstoð, fæði, klæði og húsnæði, ýmis konar aðra þjónustu á meðan málið er til skoðunar. Það er ekki óalgengt að þetta sé um árs tímabil. Vissulega er hluti þeirra sem hingað koma og sækja um vernd að flýja ofsóknir en það er ekki þar með sagt að allir sem hingað koma séu í þeirri neyð sem kerfið áskilur. Töluverður hluti kemur hingað í leit að betri lífsskilyrðum, sjálfsbjargarviðleitni sem er virðingarverð en skapar okkur ekki þá skyldu að veita viðkomandi vernd.

Þegar við erum að takast á hendur þær skyldur sem fylgja málsmeðferð vegna hælisumsóknar fyrir mörg hundruð, jafnvel þúsundir umsækjenda sem hingað koma en reynast svo ekki uppfylla skilyrðin, þá þyngist óneitanlega róðurinn, fjármagnið fer þá í að skoða og afgreiða mál sem uppfylla ekki skilyrðin – í stað þess að vera nýtt í málefni þar sem þetta myndi raunverulega skipta máli. Auðvitað er þetta óhjákvæmilegt að einhverju leyti, það er alltaf eitthvað hlutfall umsókna sem ekki verða samþykktar en þegar fjöldinn verður svona mikill hefur þetta áhrif. Þegar málaflokkurinn tekur til sín 16 milljarða á einu ári þá er ljóst að það fer ansi mikill kostnaður, orka og kraftur í að halda utan um umsóknir sem ekki eru samþykktar og viðkomandi svo sendir til síns heima á endanum. Hlutfall samþykktra umsókna hefur reyndar verið mjög breytilegt og farið vaxandi, yfir tímabilið 1997-2019 var samþykktarhlutfallið 21% en það hefur verið miklu hærra árin 2022 og 2023, einkum vegna mikils fjölda umsókna frá Úkraínu sem voru nánast allar samþykktar og um tíma gilti hið sama um umsóknir frá Venesúela.

Við erum aðilar að alþjóðasamningnum um réttarstöðu flóttamanna sem setur okkur ákveðinn ramma í þessum málaflokki. Að því sögðu á Ísland vitaskuld ákveðna valkosti, við getum gert breytingar á lögum og reglugerðum til að skilgreina þessi mál nánar. Eitt af því sem kemur væntanlega til skoðunar er hvort það sé eðlilegt að við tökum yfir jafnmargar umsóknir og við höfum gert, þ.e. umsóknir sem hafa þegar komið fram í öðrum ríkjum Evrópu þar sem umsækjandi er með sitt mál í ferli eða jafnvel kominn með vernd. Annað atriði sem kæmi mögulega til greina er að fjölga á lista yfir örugg ríki, þ.e. þau ríki þar sem ólíklegt telst, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um ástand mála í viðkomandi ríki, að einstaklingar þar í landi sæti ofsóknum en í þeim tilfellum getur verið heimilt að afgreiða málin hraðar. Slíkur listi er til staðar nú þegar og sem dæmi má nefna að árið 2022 kom talsvert af umsóknum frá slíkum löndum; frá Albaníu, Georgíu, Rúmeníu, Móldóvu og Ungverjalandi kom alls 61 umsókn og enn athyglisverðari eru t.d. sjö umsóknir frá Bandaríkjamönnum þetta ár og tvær frá Belgíu! Eflaust er slíkum umsóknum fljótsvarað en það segir þó ákveðna sögu að hver og ein svona umsókn útheimtir ákveðið utanumhald, ferli og kostnað.

Enn önnur nálgun er sú að snúa grunnhugsuninni í kerfinu við, í stað þess að horfa fyrst og fremst til þeirra sem ná að koma sér hingað og sækja um, þá getum við farið og sótt ákveðna hópa flóttamanna, eins og reyndar ýmis dæmi eru um. Þetta er það sem er stundum kallað að taka við „kvótaflóttamönnum“. Þá fer Ísland og sækir tiltekinn hóp og getur þá gengið úr skugga um að forgangsröðunin sé rétt, að það sé verið að ná þeim sem mest þurfa á aðstoð að halda, t.d. á svæðum þar sem neyðarástand ríkir.

Mómentið verði nýtt til góðs

Að öllu þessu sögðu er það skref sem formaður Samfylkingarinnar og að einhverju leyti varaformaður VG hafa stigið mikilvægt. Þetta móment verður vonandi til að frelsa umræðuna um þessi mál úr þessari sérkennilegu spennitreyju sem hún hefur verið í og það er mikilvægt að sú þróun verði til góðs, að þetta verði til þess að nauðsynlegar breytingar verði gerðar frekar en að hér fari einhverjar háværari og æstari raddir úr hinni áttinni að ná yfirhöndinni.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.