Besta hátíðin

Vonandi gefum við okkur líka tíma til að minnast tilefnisins, enda býr trúin ekki í kirkju heldur í brjósti hvers og eins. „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Vitur maður benti mér eitt sinn á að páskarnir væru besta hátíðin. Þá væri minnsta pressan á að gera eitthvað, frídagarnir væru alltaf jafn margir og maður gæti einfaldlega notið þess í friði að borða góðan mat og eyða tíma með fjölskyldunni. Ég er ekki frá því að um þetta ríki hér samfélagsleg sátt. Þeir sem að öllu finna hafa jafnvel látið það vera að agnúast út í páskastemningu í grunnskólum.

En páskarnir eru ekki bara kærkomnar samverustundir með fjölskyldunni, ofát og enn fleira ljótt, en krúttlegt föndur frá skólabörnum. Páskarnir eru heilagasta hátíð kristinna manna þegar við minnumst krossfestingar og upprisu Jesú Krists.

Á skírdegi í svokallaðri dymbilviku (vegna trékólfs sem var áður settur í kirkjuklukkur á þessum tíma) minnumst við síðustu kvöldmáltíðar Jesú Krists með lærisveinunum. Föstudagurinn langi er dagurinn sem Jesús var krossfestur á Golgatahæð. Sorgardagurinn þegar ritningin rættist og Kristi var hafnað og afneitað af fylgismönnum sínum og dæmdur til að deyja á krossi. Pyntingatækið fékk síðan nýja merkingu hjá kristnum sem nota hann sem sigur- og kærleikstákn.

Páskadagurinn er fyrir okkur sjálfur páskaeggjadagurinn. Páskaeggjaframleiðsla á Íslandi hleypur á milljónum eggja, ótrúlegt en satt. Á mínu heimili er metnaður lagður í ratleik og börnin (og foreldrarnir) eru yfir sig spennt og glöð. Og á páskadag gleðjumst við einmitt yfir upprisu Jesú, enda eru páskarnir gleðileg hátíð –  sigurhátíð vonar, trúar og kærleiks.

Við erum líklegast fleiri sem borðum, hlæjum og knúsum heldur en förum í kirkju um páskana. Mörg okkar hafa líka örugglega þurft að fletta því upp og svara spurningum um hvað þessir dagar þýða nú allir saman – af hverju sé aftur frí í skólanum. Það er mikilvægt og dýrmætt að kristin þjóð fái þessa daga til að umvefja sína nánustu kærleika og njóta samveru þeirra. Vonandi gefum við okkur líka tíma til að minnast tilefnisins, enda býr trúin ekki í kirkju heldur í brjósti hvers og eins. „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (MATT 2820)

Gleðilega páska!

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.