Rétta leiðin er aldrei auðveld

Senn verður eitt ár liðið frá því rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu að fyrirskipan Vladimírs Pútín. Mannfallið hefur verið gífurlegt og hörmungar úkraínsku þjóðarinnar ólýsanlegar. Vonir Pútíns og hans samverkamanna um skjótan sigur í Úkraínu eru fyrir löngu að engu orðnar. Hann býr sig nú undir langvarandi stríð í þeirri von að úthald lýðræðisþjóðanna þverri og samstaða þeirra dvíni.

Þótt ráðamenn í einstökum ríkjum á Vesturlöndum hafi dregið lappirnar með skammarlegum hætti þegar kemur að stuðningi við Úkraínu, þá er samstaða lýðæðisþjóðanna engu síður afar sterk, mun sterkari en hún hefur verið um áratugaskeið þegar kemur að því að standa uppi í hárinu á alræðisríkjum þessa heims. Í þessum efnum hafa íslensk stjórnvöld skipað sér í hóp hinna einörðu og nýtur sú stefna stuðnings þvert á stjórnmálaflokka. Hugrekki og baráttuþrek úkraínsku þjóðarinnar á mestan þátt í því að tekist hefur hrinda innrásinni að svo stöddu, hrekja hersveitir Pútíns frá stórum landsvæðum og verja sjálfstæði Úkrínu en sá stuðningur sem Úkraínumenn hafa notið frá sínum bandamönnum hefur reynst afar mikilvægur.

Að taka afstöðu og berjast fyrir einhverju hefur alltaf í för með sér fórnarkostnað. Því meira sem er í húfi því meiri er fórnarkostnaðurinn. En sá kostnaður bliknar ætíð í samanburði við kostnaðinn af því að aðhafast ekki eða gefast upp. Og gleymum ekki því að þótt stuðningur bandamanna við Úkraínu sé þeim kostnaðarsamur í krónum og aurum, þá er kostnaður úkraínsku þjóðarinnar við að verja tilveru sína gagnvart ofbeldi stjórnvalda í Moskvu talinn í tugþúsundum mannslífa; hermanna, gamalmenna, kvenna og barna.

Stuðningur við Úkraínu er ekki einungis stuðningur við lífsbaráttu og sjálfsákvörðunarrétt úkraínsku þjóðarinnar. Stuðningur við Úkraínu er ekki síður stuðningur við lýðræði, frelsi, mannréttindi og mikilvægi þess að alþjóðalög séu virt í samskiptum þjóða. Það er því ekki bara siðferðislega rétt að styðja við úkraínsku þjóðina sem sætir þessari árás, heldur hafa lýðræðisþjóðirnar sjálfar beina og mikla hagsmuni af því að árásinni verði hrundið.

Stíðinu í Úkraínu getur þess vegna bara lokið með ósigri Rússa. Allt annað er óhugsandi niðurstaða. Þeir sem tala fyrir öðru, gjarnan í nafni friðar, vilja fara hina auðveldu leið uppgjafar. Að gefast upp er einföld og auðveld leið til að koma á því sem sumir kalla frið. Sagan hefur hins vegar fellt þunga dóma yfir kaupmönnum friðþægingar og enn á ný stöndum við á slíkum tímamótum. Enn á ný er allt undir og enn á ný þurfum við að treysta því að þeir sem forystu hafa í okkar málum hafi viljastyrk og siðferðisþrek til að velja réttu leiðina í stað þeirrar auðveldu.

Í dag er aldarfjórðungur síðan Deiglan hóf göngu sína. Til hamingju með afmælið, mín kæra.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.