Mexíkósk langa, rjómalöguð Mexíkósúpa, brauð og salatbar

Hvar annars staðar en í mötuneyti á Íslandi er borin fram mexíkósk langa, marokkóskar hakkabollur, brokkólíbuff með grískri jógúrtsósu, kalkúnasnitsel með dill-kartöflum eða ungversk gúllassúpa?

Á mínum vinnustað er tilkynnt formlega, á hverjum mánudagsmorgni, hvað verði í hádegismatinn í vikunni. Ég bíð oftast spenntur enda mikill áhugamaður um mötuneytismat almennt, svona upp að því marki sem það er hægt að minnsta kosti. 

Mötuneytismatur er nefnilega algjör sérkapítuli í gastrónómík á Íslandi: bæði vegna þess sem reitt er fram og líka vegna þess félagsskapar sem notið er hverju sinni. Margir borða nær jafnoft með vinnufélögum í mötuneyti og með fjölskyldum sínum við borðstofuborðið heima, ef ekki oftar. 

Hvar annars staðar en í mötuneyti á Íslandi er borin fram mexíkósk langa, marokkóskar hakkabollur, brokkólíbuff með grískri jógúrtsósu, kalkúnasnitsel með dill-kartöflum eða ungversk gúllassúpa?

Ég veit allavega ekki hvernig viðbrögð ég fengi frá sambýliskonu minn ef ég segði klukkan 17:47 á þriðjudegi: “Heyrðu, elskan. Ég er að hugsa um að hafa mexíkóska löngu í matinn.”

Sérkapítuli innan þess sérkapítula sem mötuneytismatur er, er einmitt allt sem sagt er vera “mexíkóskt”. Ótrúlegustu hlutir geta verið mexíkóskir; súpur, alíslenskar fisktegundir, kjötréttir og hvaðeina, sem innfæddir Mexíkóbúar myndu eflaust hrista hausinn yfir. Hvað er það líka sem á að gera hlutina mexíkóska, er það sýrði rjóminn í súpunni, mulda snakkið eða rifni osturinn? Er það græna paprikan í kryddleginum með löngunni eða jafnvel lime-sneiðin ofan á hrísgrjónunum með kjúklingaréttinum? Er eitthvað af þessu eitthvað sérlega mexíkóst, nú eða þá frumlegt?

Hvernig varð þetta svona? Ef kokkar í íslenskum mötuneytum eru að reyna að gera því sem þeir elda hærra undir höfði og þá lystugra í leiðinni, af hverju segja þeir þá ekki að langan sé “íslensk, borin fram með kartöflum og steiktu grænmeti” – það væri nærri lagi. Hvers vegna þarf langan að vera mexíkósk, þegar hún er bara gufusoðin í einhverjum ofni með niðurskornu grænmeti og kryddblöndu úr dalli sem á stendur Garri. 

Ég er ekki að segja að mötuneytismatur sé vondur, en af hverju þarf hann samt að vera eins og hann er? Af hverju þarf hann endilega að vera mexíkóskur?

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.