Óður til Dollýar

Ég eins og stór hluti þjóðarinnar var svo heppin að fá bóluefnið Moderna (Spikevax) sem var meðal annars fjármagnað af engri annarri en Dolly Parton. Þegar ég var á leiðinni til og frá fyrstu bólusetningunni spilaði ég Dolly slagara eins og aldrei fyrr. Ástæðan var ekki bein áhrif efnisins heldur einhvers konar forvitni hvað kona eins og Dolly væri að gera að eyða peningum í bóluefnaframleiðslu. Síðan þá hef ég svoldið verið með Dolly á heilanum.

Dolly hefur unnið 10 Grammy verðlaun en samtals hlotið 50 tilnefningar til þeirra, hún á tvö heimsmet á Guiness listanum og er eini kántrý söngvarinn sem hefur átt topp 20 lag á 6 áratuga bili. Það getur enginn haldið öðru fram en að Dolly sé magnaður listamaður. En hún er miklu meira en það.

Eins og aðdáendur hennar eflaust vita fæddist Dolly ekki með silfurskeið í munni, hún er ein af 12 systkinum sem bjuggu í mikilli fátækt í Tennessee. Frægt er lag hennar „Coat of many colors“ sem fjallar um að mamma hennar hafi búið henni til kápu úr mislitum afgöngum og þó að krakkarnir stríddu henni þá skipti það ekki máli því hún átti þessa dýrmætu kápu handgerða af mömmu sinni. Hún hefur sagt að henni dreymdi um að vera lagahöfundur og hún vissi að draumar hennar myndu rætast. Þeir sannarlega gerðu það.

Hvort það er vegna æsku hennar eða bara hreinnar manngæsku þá hefur Dolly ekki setið ein á auð sínum. Hún stofnaði Dollywood (skemmtigarður) í heimabæ sínum til þess að afla atvinnu á svæðinu en rúmlega 3000 manns vinna þar. Ágóðinn af garðinum hefur svo leyft Dolly að gefa enn meira af sér. Tveim árum eftir að garðurinn opnaði stofnaði hún Dollywood sjóðinn og átti hann að fjármagna ýmsa framþróun í heimabæ hennar. Eitt af þeim verkefnum var að minnka brottfall úr skólum í bænum en skemmst er frá því að segja að brottfallið fór úr 35% í 6%.

Árið 1995 stofnaði hún „Dolly Parton’s Imagination Library“ en það gengur út á það að senda eina bók hágæða bók á mánuði til 5 ára aldurs, bara að fá börnin til að lesa. Fyrst átti þetta bara að vera fyrir börn í hennar heimabæ en nú er þetta rekið í Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi, Kanada og Ástralíu. Hún stofnaði þetta til heiðurs föður hennar sem lærði aldrei að lesa og hann vildi að hún myndi nota frægð sína til að sjá til þess að aðrir þyrftu ekki að fara í gegnum lífið ólæsir.

Auk þessa Dolly hefur fjármagnað rannsóknir á hvítblæði, hún hefur safnað fyrir samfélög sem hafa orðið fyrir náttúruhamförum, styrkt starfsemi fyrir Alzheimer sjúklinga og nú nýlega fjármagnað það sem varð bóluefni gegn COVID 19.

Við þekkjum flest Ameríska máltækið að setja peninginn þar sem munnurinn þinn er, ég held að Dolly setji peninginn sinn þar sem hjarta hennar er. Hvaða lærdóm sem við getum svo sem tekið af því en hún sagði í viðtali eitt sinn að þegar þú getur hjálpað skaltu hjálpa. Hún sagði að það væri gott að eyða tíma þínum, orku og peningum í góðgerðarmál sem eru nærri hjarta þínu. Það gerir þetta enn meira gefandi.

Ég veit ekki hvort ég muni hlusta á Dolly alla ævi en ég veit að ég hef lært af henni. Ég veit að maður getur látið sér dreyma og stundum rætast draumar manns. Ég veit að ég get breytt heiminum hvort sem það er að gefa eina bók til þess sem ekki á bók eða að millifæra einhverja þúsund kalla af og til inn á góðgerðarfélög sem standa mér nærri þá geta allir gert eitthvað og þannig breytum við heiminum.

Skilaboðin eru kannski verum aðeins meira eins og Dolly.

Hér má svo finna lagalista með góðum slögurum https://open.spotify.com/playlist/3gt4ZaPdO1TQflCMCy8K5d

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.