Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum

23. mars síðastliðinn voru undirrituð lög sem fela í sér róttækustu breytingar á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna í marga áratugi. Ýmsum mikilvægum spurningum um þýðingu laganna og afleiðingar þeirra verður ekki svarað fyrr en á komandi árum, jafnvel áratugum, en í upphafi skyldi endinn skoða.

23. mars síðastliðinn voru undirrituð lög sem fela í sér róttækustu breytingar á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna í marga áratugi. Lögin kveða á um stóraukið aðgengi almennings, sérstaklega lágtekjufólks, að heilbrigðisþjónustu en margt er enn óljóst um innleiðingu laganna og baráttan um endanlegar útfærslur mun halda áfram á fjölmörgum stigum bandarískrar stjórnsýslu. Ýmsum mikilvægum spurningum um þýðingu laganna og afleiðingar þeirra verður ekki svarað fyrr en á komandi árum, jafnvel áratugum, en í upphafi skyldi endinn skoða…

Útilokun margra, mikill kostnaður og óhagkvæmni kerfisins hafa lengi verið stærstu vandamál heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum, og fyrstu skref í innleiðingu laganna snúast um að ná til fleira fólks. Árið 2019 er til að mynda áætlað að sjúkratrygging á vegum fyrirtækja nái til 159 milljóna, samanborið við 150 milljónir í dag, hið opinbera greiði fyrir 51 milljón manna (40 milljónir í dag) í gegnum Medicaid eða sambærilegar leiðir. Samkvæmt áætlunum á ótryggðum í heild að fækka um tæplega 30 milljónir manna á tímabilinu.

Önnur stærsta spurningin er hversu mikið breytingarnar munu kosta. Áætlað er að á næstu tíu árum muni sparast 124 milljarðar dollara hjá alríkisyfirvöldum, en áhrifin á hinn almenna borgara eru mun óljósari. Í þessu liggur ein helsta gagnrýni andstæðinga laganna því sjúkrakostnaður hefur hækkað verulega umfram verðbólgu. Hagfræðingar hafa bent á að ómögulegt verði að ná tökum á kostnaði í sjúkratryggingakerfinu nema allir séu tryggðir, því þeir ótryggðu hafa tilhneigingu til að bíða með að leita til læknis fram á síðustu stundu og fara þá á bráðamóttökur sem er afar kostnaðarsamt í rekstri.

Medicare er fyrirbæri sem er mörgum Íslendingum framandi, en þar er um að ræða eitt fjölmennasta félagslega kerfi í Bandaríkjunum; það veitir 38 milljónum manna sjúkratryggingu. Medicare er því órjúfanlegur hluti af umræðu um breytingar á sjúkratryggingakerfinu þarlendis og mikilvægt verkfæri í þeim breytingum sem framundan eru, bæði sem sá aðili með mestan styrk til að hafa áhrif á sjúkrahúsin og sem gluggi inn í hvaða úrræði virka og hver ekki. Litlar breytingar eru áætlaðar á núverandi kerfi og 500 milljarða dollara sparnaður hjá Medicare á næstu 10 árum (af áætlaðri 6,1 trilljóna dollara veltu) á fyrst og fremst að nást með aukinni hagkvæmni í rekstri.

Lögin eru óvenjuleg um margt, meðal annars að því leyti að með þeim eru stjórnvöld í Washington að leggja býsna skýrar línur í máli sem er gríðarlega umfangsmikið, línu sem öll ríkin eiga að fylgja. Þetta er nokkuð sem bandarísk stjórnvöld forðast alla jafna. Eftir 2014 á heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum að vera orðið mun samleitara en það er nú, en þó bjóða lögin upp á svigrúm milli ríkja, sem eru komin afskaplega mislangt í áttina að breytingum til batnaðar. Til dæmis voru nánast allir íbúar Massachusetts færðir inn í sjúkratryggingakerfi árið 2006 á meðan 28% íbúa í Texas eru ótryggð.

Það er ómögulegt að fjalla um þessi lög, sem þekja 2400 blaðsíður og fela í sér svo víðtækar og róttækar breytingar, á fullnægjandi hátt í stuttu máli. Boðskapurinn er líklega bara sá, að sama hversu söguleg lagasetningin var þá var hún bara byrjunin á einhverju miklu stærra. Næstu skref munu ráða hvaða áhrif þetta hefur á bandarískar fjölskyldur og hversu miklar breytingar þetta mun hafa á bandarískt þjóðfélag. En það er víst ábyggilegt að breytingarnar verða miklar.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)