Hringbrautarklúðrið

Nú hefur nýja Hringbrautin verið opnuð fyrir umferð í austurátt og vesturátt frá gatnamótunum við Njarðargötu. Óhætt er að segja að framkvæmdirnar hafi verið umdeildar á sínum tíma enda verið að leggja malbiksgímald á einu verðmætasta byggingarlandi Reykjavíkurborgar.

Nú hefur nýja Hringbrautin verið opnuð fyrir umferð í austurátt og vesturátt frá gatnamótunum við Njarðargötu. Óhætt er að segja að framkvæmdirnar hafi verið umdeildar á sínum tíma enda verið að leggja malbiksgímald á einu verðmætasta byggingarlandi Reykjavíkurborgar. Eftir að hafa keyrt hina nýju Hringbraut er óhætt að taka undir með þeim sem fundu þessari framkvæmd flest til foráttu.

Það er eflaust öllum ljóst sem keyra hina nýju Hringbraut hversu mikið pláss hún tekur. Þrjár akreinar í hvora aksturstefnu og fáránlega fyrirferðarmikil mislæg gatnamót gera það að verkum að svæðið milli Snorrabrautar og Suðurgötu í austri til vesturs og Landspítala suður fyrir gömlu umferðarmiðstöðuna, í norðri til suðurs, er algjörlega ónýtanlegt fyrir annað en umferð. Ekki nóg með að nýja brautin taki heljarmikið pláss heldur þá mun sú gamla haldast. Á að nýta fyrir forgangsakstur sjúkrabíla, strætisvagna og leigubifreiða ef ég hef skilið þetta rétt.

Þar að auki er erfitt að átta sig á því hverju nýja Hringbrautin breytir í raun og veru. Aðalflöskuhálsarnir voru hringtorgið við Þjóðminjasafnið og gatnamót Hringbrautar og Bústaðavegar. Það á enn eftir að koma í ljós hvernig nýju mislægu gatnamótin leysa Bústaðavegsumferðina og líklega er hugmyndin að reyna að beina umferðinni að meira marki um Njarðargötuna til að taka álag af Þjóðminjasafnshringtorginu. Það er þó erfitt að ímynda sér að breytingin sé það stórkostleg að hún réttlæti þessa klúðurslegu færslu Hringbrautarinnar.

Að öllum líkindum er það einungis tímaspursmál hvenær flugvöllurinn fer úr Vatnsmýrinni. Það virðist að minnsta kosti vera vilji fyrir því hjá forystumönnum beggja fylkinga í borgarstjórn að finna flöt á því að færa hann, ekki til Keflavíkur endilega heldur skoða aðra möguleika í nágrenni höfuðborgarinnar. Þegar af þessu verður mun nýja Hringbrautin rýra verðmæti stórs hluta mögulegs byggingarlands. Bæði tekur hún allt of mikið pláss og nálægð við svona stórt umferðarmannvirki er ekki fýsileg þegar litið er til búsetu.

Færsla Hringbrautarinnar er gott dæmi um klúður R-listans í skipulagsmálum borgarinnar. Maður hallast helst að því að hent hafi verið peningum í þessa framkvæmd því að borginni stóðu til boða peningar frá ríkinu en engar aðrar skynsamari framkvæmdir voru komnar nógu langt hönnunarlega séð. Því var betra að mati R-listans að eyða peningum í klúðurslega framkvæmd í stað þess að geta ekki eytt þeim. Vonandi hugsa kjósendur ekki eins því sama hvort þeim finnist aðrir kostir skárri í borgarmálum eða ekki, þá hlýtur að vera skynsamlegra að skila auðu í stað þess að eyða atkvæði í klúðurslegt kosningabandalag í næstu kosningum. Verk R-listans benda í það minnsta eindregið til þess.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)