Augun full af ryki og nefið af skít!

Einn þeirra stjórnmálamanna sem ofangreint á við er Árni Matthisen fjármálaráðherra. Árni hefur ítrekað gerst sekur um umdeild vinnubrögð auk þess sem margir hafa efast um getu hans og þekkingu til að stýra efnahagslífi landsins í skjóli menntunar í dýralækningum.

Stjórnmálamenn á Íslandi hafa verið afskaplega óduglegir í gegnum árin að axla ábyrgð. Gildir þá einu hvert tilefnið er, ástæðurnar eru ávallt óheppilegar en ekki við þá að sakast. Auk þess eru þeir allt of fastheldnir í þeirri skoðun sinni að kosningar séu eina lýðræðislega tækið til að fella stjórnmálamenn. Á milli kosninga geti þeir því, að því er þeim sjálfum finnst, hagað sér eins og þeir vilja og þurfa ekki að bera neina ábyrgð fyrr en dómur kjósenda fellur. Þessa skoðun endurspeglaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi er hún sagði einmitt að þingmenn gætu bara ekki sagt af sér því að kosningar væru til þess að fella dóm um þá.

Þessi skoðun Ingibjargar og fleiri íslenskra stjórnmálamanna er afskaplega óheppileg. Þannig hafa stjórnmálamenn í gegnum árin setið af sér ótrúlegustu axarsköft í starfi í skjóli þess að ef þeir hafa gert eitthvað rangt munu kjósendur einfaldlega fella þá í næstu kosningum. Þetta hefur svo undið upp á sig með árunum og er nú svo komið að ekki einu sinni kerfishrun bankakerfisins og brotlending íslensks efnahagslífs hefur þótt nógu rík ástæða til að horfast í augu við eigið getuleysi og sína ábyrgð í verki með afsögn.

Spilling hefur heldur ekki þótt nógu góð ástæða til afsagnar. Kannski vegna þess að í skjóli opinberra kannana er spilling ekki til á Íslandi. Það vita það þó allir landsmenn að spilling í íslenskum stjórnmálum er vissulega til staðar hér á landi. Hún birtist bara á annan hátt. Hér ríkir gamli fóstbræðrahugsunarhátturinn þar sem vinir og venslamenn hjálpa hvorir öðrum. Framsóknarmenn hafa til að mynda löngum verið kenndir við bitlingapólitík þar sem Framsóknarmennirnir bak við tjöldin róa að því öllum árum að finna leiðir til að hagnast þegar flokkurinn er við völd. Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar, eru ekki undanskildir þessari hegðun. Þar hefur löngum tíðkast að ráða útbrennda stjórnmálamenn eða vini í ýmsar lykilstöður í stjórnsýslunni eða utanríkisþjónustunni. Hvað er það annað en spilling? Spilling sem verður sérstaklega ámælisverð þegar getuleysi og vanhæfi þeirra sem ráðnir voru á þessum forsendum kristallast við erfiðar aðstæður.

Einn þeirra stjórnmálamanna sem ofangreint á við er Árni Matthisen fjármálaráðherra. Árni hefur ítrekað gerst sekur um umdeild vinnubrögð auk þess sem margir hafa efast um getu hans og þekkingu til að stýra efnahagslífi landsins í skjóli menntunar í dýralækningum. Árni gerðist t.a.m. á árinu 2008 sekur um að munnhöggvast við umboðsmann Alþingis vegna embættisfærslna sem umboðsmaður gerði athugasemdir við. Árni var ekki sammála og reifst opinberlega við umboðsmann, eina lögskipaða eftirlitsmann stjórnsýslunnar á landinu. Undir lok síðasta árs felldi svo umboðsmaður annan dóm um fjármálaráðherra þegar hann gagnrýndi harðlega ráðningu Árna á Þorsteini Davíðssyni sem héraðsdómara. Í kjölfarið lýsti Sigurður Líndal fyrrum lagaprófessor þeim dómi á áliti umboðsmanns að Árni hefði brotið það harkalega af sér að í nánast öllum öðrum tilvikum, þ.e. alls staðar annars staðar í stjórnsýslunni, hefði brotið sjálfkrafa leitt af sér uppsögn á starfssamningi.

Árni virðist hins vegar þverrast við og sér enga ástæðu til uppsagnar, ekki frekar en aðrir embættismenn sjái ástæðu til að axla ábyrgð. Eins og í lagi bræðranna Haraldar og Þórhalls um villta ferðalanginn virðist ráðherra vera með augun full af ryki og nefið af skít. Blindaður, sér hann ekki eigin axarsköft og sekkur dýpra í fenið þar til nefið fyllist af skít sem hann hefur mokað undir sig sjálfur. En afsögn er útilokuð.

Réttast væri að forsætisráðherra krefðist afsagnar ráðherra (og fleiri ef því er að skipta) en þar sem ekki virðist ætla að leiða til þess þá þarf Árni að taka af skarið sjálfur. Árni, þú verður maður að meiri á eftir og vonandi fylgja svo fleiri í kjölfarið.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)