Reið framtíð?

Ef lýsa ætti þjóðarsál Íslendinga í dag með einu orði væri það reiði. Þjóðin er reið út í ríkisstjórnina, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, gjaldþrot bankanna, spillinguna, Davíð Oddsson, Jón Ásgeir, Hannes Smárason, Bjöggana, hina útrásarvíkingana, Davíð Oddsson, krónuna, verðbólguna, húsnæðislánin, vaxtastigið, fallandi húsnæðisverð, fjöldauppsagnir, gjaldeyrishöft, launalækkanir, Davíð Oddsson og svona mætti lengi telja.

Mikil reiði er í þjóðfélaginu í dag og margir að leita að blórabögglum vegna hruns efnahagskerfisins. Til að við Íslendingar getum hafist handa við nauðsynlegt uppbyggingarstarf er gríðarlega mikilvægt að ná tökum á þessari reiði. Því miður er fátt sem bendir til þess á þessari stundu að von verði til þess í bráð.

Ef lýsa ætti þjóðarsál Íslendinga í dag með einu orði væri það reiði. Þjóðin er reið út í ríkisstjórnina, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, gjaldþrot bankanna, spillinguna, Davíð Oddsson, Jón Ásgeir, Hannes Smárason, Bjöggana, hina útrásarvíkingana, Davíð Oddsson, krónuna, verðbólguna, húsnæðislánin, vaxtastigið, fallandi húsnæðisverð, fjöldauppsagnir, gjaldeyrishöft, launalækkanir, Davíð Oddsson og svona mætti lengi telja. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt enda atburðir síðustu vikna stórkostlegar efnahagslegar hamfarir.

Reiði er vont ástand því hún leiðir oft til misviturra verka. Reitt fólk fremur glæpi eða hermdarverk, segir hluti sem það meinti ekki og særir aðra sem síst eiga það skilið. Í reiði býr hins vegar líka mikill kraftur. Mikilvægt er að beisla þennan kraft á jákvæðan hátt til skapandi verka. Fólk þarf að fá útrás fyrir reiðina, sem það hugsanlega gerir um helgar á Austurvelli, en það þarf líka að fá ástæðu til að beina henni í betri farveg. Því miður er ekki margt í stöðunni sem gefur fólki ástæður eða von til að gera það.

Það er algjört grundvallaratriði í því samhengi, og ekki í fyrsta sinn sem sú vísa er kveðin, að stjórnvöld tryggi eftir fremsta megni sanngjarna , jafna og réttláta meðhöndlun eigna og skulda ,sem selja á eða gera upp með öðrum hætti, úr þrotabúum bankanna. Takist þetta ekki er eins víst að reiðin stigmagnist með ófyrirséðum afleiðingum. Nú þegar eru eggin farin að fljúga og spurning hvað þurfi til að harðgerðari hlutir fái sömu meðhöndlun?

Sem dæmi má nefna að strax eftir hrun Kaupþings bárust fréttir af því að starfsmenn Kaupþings sem tóku lán fyrir hlutabréfakaupum myndu fá skuldir sínar niðurfelldar. Sem betur fór var komið í veg fyrir það. Pistlahöfundur heyrði í vikunni sögu af sama banka sem ætlaði að skuldbreyta fasteignalánum starfsmanna. Kjörin einstök: eignin verðmetin og allt umfram verðmat afskrifað. Afganginum breytt í verðtryggt lán í krónum með föstum 1% vöxtum. Sé þetta satt, sem er vel að merkja ekki staðfest, er þetta enn eitt dæmið um það að skattgreiðendur verði látnir greiða fyrir fjármagnsflutninga til útvalins aðals. Slíkt má einfaldlega ekki eiga sér stað.

Önnur dæmi eru úthlutanir úr þrotabúum þekktra fyrirtækja. Tryggja verður að ríkisbankarnir, sem kröfuhafar, leiti hagstæðustu tilboða við að koma eignum í verð eða umfram allt auglýsi eða bjóði þær til sölu opinberlega. Nú þegar hafa verið tekin til meðferðar þrotabú tveggja þekktra verslana Next og BT og í báðum tilfellum hafa heyrst efasemdarraddir um söluna á lager og viðskiptavild úr þrotabúum þessara fyrirtækja.

Við megum ekki við því að reiðin í þjóðfélaginu halda áfram að magnast. Ráðherrar og stjórnvöld þurfa að koma með skýrari yfirlýsingar um að öll svona mál verði könnuð og að eignasala og meðferð eigna þrotabúanna eða bankanna verði hafin yfir allan vafa. Besta leiðin til þess er að stjórnvöld leyfi fólkinu í landinu að fylgjast betur með því sem er að gerast. Því vel upplýstri þjóð er líklegri til að renna reiðin.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)