Live 8

Laugardaginn næstkomandi taka hljómlistarmenn um allan heim upp hljóðfærin þegar haldnir verða tónleikar á sjö stöðum samtímis. Samanburður við fyrri tónleika Bob Geldof, Live Aid, er áhugaverður, því ólíkt þeim tónleikum er markmiðið ekki að safna peningum, heldur að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir.

Nú á laugardaginn stígur Björk okkar á svið í Japan fyrir þá sem svelta í Afríku. Það sama munu tónlistarmenn gera um allan heim, í London, París, Róm, Berlín, Fíladelfíu og Barrie (í Kanada). Þessir tónlistarmenn feta í fótspor þeirra sem tóku þátt í Live Aid tónleikunum fyrir tuttugu árum síðan, og sumir endurtaka nú leikinn síðan þá.

Maðurinn á bak við þetta mikla ævintýri er Bob Geldof, sem hefur á ný tekist að draga alla helstu tónlistarmenn heims með sér í slaginn. Sagan á bak við tónleikana hófst þegar Sir Bob tókst á 24 klukkustunum í nóvember 1984 að fá hugmyndina að hljómplötu til styrktar fátækum í Afríku, semja texta, fá Midge Ure til að semja með sér lagið, boða frægustu tónlistarmenn heimsins í stúdíó og taka lagið upp. Meðal annars vakti hann Boy George sem staddur var í New York, og fékk hann til að fljúga til Bretlands samdægurs með Concorde þotunni sálugu.

Afraksturinn var lagið „Do they know it’s Christmas?“ og smáskífa sem varð á skömmum tíma mest selda smáskífa allra tíma í Bretlandi. Sir Bob lofaði alþjóð því að hver einasti túskildingur sem kæmi inn við sölu plötunnar rynni til þróunaraðstoðar og eftir sennu milli hanns og Margaret Thatcher samþykktu bresk stjórnvöld að gefa allan virðisaukaskatt af sölu smáskífunnar aftur til samtakanna.

Vorið eftir var leiknum haldið áfram og tónleikarnir Live Aid urðu að veruleika í júlí 2005, þar sem um 250 milljónir bandaríkjadala söfnuðust til aðstoðar sveltandi Afríkubúum og hljómsveitin U2 ruddi Duran Duran úr sessi sem stærstu hljómsveit í heimi.

Nú, 20 árum síðar, er komið að næsta útspili Sir Bob, Live 8 (Live Eight) tónleikaseríunni. Markmið þessara tónleika er ekki að safna peningum, heldur að þrýsta á um aðgerðir stjórnvalda um allan heim. Bresk stjórnvöld virðast enn meyr fyrir boðskap Sir Bob, og hefur Tony Blair lagt mikla áherslu á að ná samkomulagi við aðra þjóðarleiðtoga um niðurfellingu skulda til fátækustu ríkja heims.

Dagsetning eða nafn tónleikanna er engin tilviljun, því í næstu viku hittast leiðtogar átta helstu iðnríkja heims á fundi G8 samtakanna í Edinborg. Markmiðið er að þrýsta á um að ekki aðeins verði gengið þar frá niðurfellingu skulda, heldur einnig að lofað verði meiri þróunaraðstoð og réttlátari viðskiptareglum gagnvart þróunarríkjunum.

Íslendingar ættu ekki að láta sitt eftir liggja. Ef einhverjir eru í stuði fyrir dúndurtónleika (og ekki búnir að tryggja sér miða á Duran í Egilshöll) er um að gera að skella sér til London eða annarra stórborga nú á laugardaginn. En fyrir þá sem vilja einfaldlega betri heim fyrir fátækt og sveltandi fólk er um að gera að beina spjótum sínum að íslenskum stjórnvöldum. Skuldir þróunarríkja við Ísland og Íslendinga eru reyndar ekki umtalsverðar, en þróunaraðstoð Íslendinga er heldur klén og verndarstefna okkar, meðal annars í landbúnaðarmálum, er til háborinnar skammar.

Fyrir þá sem vilja tjá skoðanir sínar á málinu er einfalt og þægilegt að senda tölvupóst á ráðamenn:

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)