Ný lægð og gömul

Undanfarna viku hafa blaðamenn og ritstjórar Gulu pressunnar svokölluðu legið undir gagnrýni fyrir óvægna umfjöllun um einkalíf fólks. Helst hefur blaðið Hér og Nú verið gagnrýnt en einnig Séð og Heyrt og DV.

Undanfarna viku hafa blaðamenn og ritstjórar Gulu pressunnar svokölluðu legið undir gagnrýni fyrir óvægna umfjöllun um einkalíf fólks. Helst hefur blaðið Hér og Nú verið gagnrýnt en einnig Séð og Heyrt og DV.

Þessi gagnrýni hefur verið algjörlega réttmæt enda hefur umfjöllunin undanfarið, og þá sérstaklega hjá Hér og Nú, verið sérstaklega ógeðfeld. Ritstjórar og blaðamenn bera ábyrgð á einstökum fréttum og verðskulda þá gagnrýni sem fylgir þeim. En það eru fleiri sem bera ábyrgð — svona til lengri tíma litið.

Blöð sem þessi eru að sjálfsögðu til fyrir tilstuðlan þeirra sem kaupa þau og lesa með dyggri hjálp þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem eru til í að styrkja þau með auglýsingatekjum. Þessir aðilar bera takmarkaða ábyrgð á einstökum fréttum eða myndum en hvað varðar langtíma umfjöllun blaðanna er ábyrgð þeirra mikil.

Nú er hún alveg skiljanleg –upp að ákveðnu marki– þessi ásækni í slúður og laumumyndir af nágrannanum. Greinarhöfundur, eins og flestir, er ekkert saklaus af því að hafa einhvern tíman lesið með áhuga krassandi sögur af fræga fólkinu. En það er eins og fólk átti sig ekki á afleiðingum þess að kaupa og lesa þessi blöð. Átti sig ekki á því að peningar þess (hvort sem það er í gegn um kaup á blaðinu eða vörum auglýstum í blaðinu) fara beint í að borga papparazzi ljósmyndurum og slúðurberum sem ráðast að einkalífi fólks.

Það er nefnilega þannig að fólk hefur áhrif á þróun þjóðfélagsins á margan annan hátt en bara í kosningum. Hver einasta sala hefur áhrif á hvað er selt og hvar. Lestur blaða, hlustun á útvarp og áhorf á sjónvarp hefur áhrif á hvað er á boðstólnum. Nánast hver einasta smella á netinu er skráð og hefur áhrif á þróun þess.

Það er von pistlahöfundar að þessar nýjustu árásir á einkalíf fólks verði til þess að íslenskir neytendur fari að taka meiri ábyrgð á neysluvenjum sínum. Þangað til það gerist bið ég lukkuna að forða mér og mínum frá frægð og fjöldahylli.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)