Meira um kalóríuneyslu landans

sykurskattur Hér á landi er sérstakt vörugjald, svo kallaður sykurskattur lagður á gosflöskur. Eftir að sódavatnið kom á markaðinn jókst neysla á hollari drykkjartegundum, en svo vill til að einnig er lagt vörugjald á þessar tegundir. Ef vörugjaldinu væri létt af ósykruðum gostegundum, þá myndi neysla á þessum vörum aukast enn meira. Getur verið að forvarninar standi í vegi fyrir betri neysluvenjum?

sykurskattur

Reglulega skýtur upp kollinum umræða um holdafar landans. Manneldisráð birtir þá nýjustu upplýsingar um kílóafjöldan sem fer sífellt upp á við og engar hömlur virðast vera á því hvernig landinn tútnar út.

Þetta eru ekki góðar fréttir í desember, þegar stærsta kalóríuveisla ársins er framundan. Ýmsar hugmyndir hafa verið kynntar um það hvernig hægt sé að sporna við offituvandanum og sumar hafa komið til framkvæmda. Það vakti furðu margra þegar skýring á hárri verðlanging á gosi var útskýrð. Þá kom í ljós að við lýði er sérstakur sykurskattur sem leggst ofan á hverja flösku af gosi. Þetta hefur verið gagnrýnt hér á Deiglunni, enda mikl þversögn í því að ágóði sykurskattsins renni til Lýðheilsustofnunar. Þannig að því meiri árangri sem stofnunin nær, því minni tekjur renna til hennar.

Höfundur þessa pistils hefur óspart lagt sitt af mörkum til þess að sporna við aukakílóasöfnun þjóðarinnar. Þess vegna drekkur hann kristal, enda sést hverjir gera það. Því er það gremjulegt að sykurskattur, svo kallað vörugjald, er lagt á sódavatnsflösku rétt eins og um sykrað gos er að ræða. Þar með er verðinu á hollari vörum haldið uppi. Eftir að sódavatnsbyltingin reið yfir gosmarkaðinn, hefur neysla á hollari drykkjarvöru stóraukist og er það vel. Mig grunar að ef vörugjaldinu væri létt af sódavatni og ósykruðum gostegundum, þá myndi þessi þróun verða enn meiri. Sem sagt, þessi skattur stendur árangri Lýðheilsustöðvar fyrir þrifum.

Framundan er forvitnilegt verkefni fyrir Lýðheilsustöðina. Ef frumvarp Samfylkingarinnar verður að lögum um bann við auglýsingum á óhollri matvöru fyrir klukkan níu á kvöldin, þá mun stofnunin fá það verkefni að skilgreina hvaða matvara það er sem ekki má auglýsa. Þ.e.a.s. hún mun velja hvaða fyrirtæki mega auglýsa og hver ekki. Þetta er skref aftur á bak, enda ljóst að auglýsendur munu finna leið til að sniðganga bannið. Bann við áfengisauglýsingum hefur sýnt það. Í máli markaðsfólks í landinu hefur það komið fram að það tekur siðferðislega ábyrgð sína alvarlega og því þarf ekki boð og bönn til að sporna við því að of langt verði gengið í þessum efnum.

Hjá þjóðinni eru jólin framundan og mál til komið að tryggja sér konfekt á tilboði í kílóavís.