Má ég, elskan?

Í útvarpsauglýsingu American express korts Icelandair spyr kona mann sinn vælinni röddu hvort að hún megi kaupa meira. Er þetta eitthvað grín eða þykir það sjálfsagt að auglýsa vöru með þessum hætti þar sem kaupóða konan spyr ábyrgan mann sinn hvort hún megi nota kreditkortið?

Í morgun heyrðist leikin útvarpsauglýsing um American express kort Icelandair en þar heyrist konurödd spyrja vælin hvort að hún megi kaupa meira. Karlmaður svarar að það sé í góðu lagi, enda mun ein peysa í viðbót fleyta punktasöfnun hans yfir mörkin þar sem hann er að safna sér fyrir fótboltaferð.

Konan reynist sem sagt að vera að spyrja manninn sinn, sem augljóslega fer með fjármálavaldið, um leyfi að kaupa. Hann gefur henni leyfi byggt á því að það muni koma honum vel enda er hann að fara á leik í útlöndum – en það er að sjálfsögðu eitthvað sem hann áveður alveg sjálfur. Hann safnar punktunum. Einn. Hann ákveður. Hann ræður.

Sá grunur læðist að manni að forsvarsmönnum fyrirtækisins gangi það til að gera nógu grófa auglýsingu til að fá umræðu um hana – betra sé að reyna að reita feminista landsins til reiði heldur en að fá enga umfjöllun – að betra sé að fá yfir sig skammir og hneykslun og uppskera þannig athygli almennings en að hverfa í súpu auglýsinganna. Er þetta meðvitað eða eru úreldar staðalímyndir um konur svona greyptar í huga auglýsandans?

Því miður er umrædd auglýsing ekki einsdæmi. Margar útvarpsauglýsingar ganga út á samtal karls og konu, þar sem hlutverk kynjana eru svipuð og í Icelandair auglýsingunni.

Það er ljóst að 19. júní er liðinn.