Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans

Nú þegar við erum í auga stormsins og við blasir áframhaldandi samdráttarskeið sem hófst með látum fyrir örfáum vikum í kjölfar COVID er fólki tíðrætt um það sem tekur við og mun koma efnahagi landsins á réttan kjöl. Á Íslandi njótum við sem hér búum náttúruauðlinda sem okkur hefur tekist að nýta á arðbæran og ábyrgan hátt. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að auðlindirnar eru af skornum skammti og oftar en ekki höfum við lagt allt okkar traust á fáar en stórar stoðir. Í rekstrarlegu samhengi myndi slíkt viðskiptamódel seint teljast sjálfbært.

Ítrekað hefur íslenska þjóðin staðið frammi fyrir því að fallvölt gæði hafa brugðist, ýmist í formi aflabrests eða fjármálakreppu. Þrátt fyrir einlægan ásetning á liðnum árum um að byggja hér upp fjölbreyttar efnahagsstoðir, þá höfum við á tíðum gerst sek um að treysta á fáar tekjulindir þegar vel gengur. 

Því er ekki að undra að fólk velti fyrir sér hvað muni taka við og hleypa glæðum í efnahagslífið á ný. Í því samhengi hefur verið horft til nýsköpunar. Í bjartsýnustu ræðum og stöðufærslum er svo  langt gengið að segja nýsköpun sé töfralausnin sem muni rífa íslensku þjóðina úr efnahagslægðinni sem nú ríkir. Staðreyndin er sú að nýsköpun mun ekki verða þess valdandi ein og sér. En nýsköpun mun mögulega verða til þess að þegar næsta kreppa skellur á, að þá munum við standa hana af okkur.

Að byggja upp fyrirtæki í arðbærar einingar sem leggja sitt af mörkum til hagvaxtar landsins, tekur tíma. Langan tíma. Það gefur því augaleið að þau vaxtafyrirtæki sem starfandi eru í dag munu ekki ein og sér rífa okkur upp úr lægðinni. 

Í lok síðasta árs voru stigin mikilvæg skref í þessa átt með nýsköpunarstefnu ríkisstjórnarinnar og nýrri útflutningsstefnu Íslandsstofu sem unnin var í víðtæku samráði við atvinnulífið. Hvort tveggja gefa tilefni til bjartsýni og lögðu grunninn að auknum stuðningi við útflutningsgreinar á sviði tækni og hugvits. Vegferð sem þegar var byrjuð þegar COVID kreppan skall á.

Viðbrögð og snör handtök stjórnvalda í aðgerðarpakka undanfarinna mánaða í þágu nýsköpunar fela í sér langtímahugsun. Þannig mun ákvörðun þeirra um hækkun á þaki og hlutfalli á endurgreiðslu þróunarkostnaðar hafa jákvæð áhrif á komandi árum sem og aukin fjárfesting í nýsköpunartengdum verkefnum.

Vissulega hafa sprottið fram áhugaverð nýsköpunarfyrirtæki í kjölfar kreppa hér á landi, samanber þau sem litu dagsins ljós eftir 2008. Það voru jákvæðar hliðarverkanir af dapurlegum atburðum og í dag erum við að sjá ávöxt þeirrar þróunar. En það voru aðrir og skjótvirkari þættir sem komu við sögu að endurreisa efnahag landsins. Meðal annars hraður vöxtur í fjölda ferðamanna. En það reyndist okkur dýrkeypt enn og aftur að safna ekki fleirum eggjum í körfuna. Aftur á móti er margt sem bendir til þess að ef við höldum áfram á þessari braut og hlúum sérstaklega að  og styðjum við útflutningsgreinar á sviði hugvits og tækni, þá mun það skila íslensku efnahagslífi auknum ábata. Verðmætasköpun byggð á hugviti lýtur ekki hefðbundnum takmörkunum náttúruauðlinda. Hún er ótakmörkuð uppspretta nýrra tækifæra, laðar hingað til lands sérhæft vinnuafl, hvetur innlend ungmenni til að tileinka sér nýja hluti og finna lausnir sem bæta heiminn. Þannig mun hér blómstra þekkingariðnaður sem skila okkur sterkara efnahagskerfi sem mun standa af sér áföll framtíðarinnar.