Lifum við á fordómalausum tímum?

Við upphaf COVID-19 faraldursins var fjallað um hugrenningatengsl þeirra sem upplifðu erfiða tíma á níunda áratugnum þegar HIV veiran geisaði. Baráttan við hinn nýja og framandi sjúkdóm skóp áður óþekktar áskoranir og áhyggjur sem í mörgum tilvikum leiddu til hræðslu og fordóma gagnvart þeim sem greindust með smit. Ekkert lyf var til og hræðsla og vanþekking almennings leiddi af sér ranghugmyndir um smitleiðir og eðli sjúkdómsins.

Sjúkdómurinn lagðist mismunandi á fólk án þess að á því fyndust haldbærar skýringar. Hann dró suma hratt til dauða á meðan aðrir gátu lifað með honum einkennalausir eða einkennalitlir. Þá breiddist sjúkdómurinn hratt út á meðal samkynhneigðra karlmanna og sú staðreynd dró fram í dagsljósið fordóma í garð þeirra. Í dag lifa HIV smitaðir góðu lífi á lyfjum sem gera kraftaverk ef horft er til þeirra hörmunga sem sjúkdómurinn olli og smitaðir geta lifað með smitinu án þess lífsgæði þeirra séu skert. Almenningur er meðvitaður um smitleiðir og hvernig má forðast smit. Það er ekkert að óttast.

Í stórmerkilegum heimildarþáttum Hrafnhildar Gunnarsdóttur, Svona fólk, sem sýndir voru á RÚV í vetur, kom fram að glíman við HIV dró fram sterkar línur í baráttunni fyrir réttindum samkynhneigðra. Sjúkdómurinn hafi í raun dregið réttindabaráttuna fram í dagsljósið og þannig mögulega hraðað henni. Sjúkdómnum fylgdi mikil skömm sem væntanlega helgast af þeim fordómum sem enn voru við líði á þeim tíma sem hans varð fyrst vart. Réttindi samkynhneigðra á Íslandi eru nú að fullu tryggð með lögum og í lokaþætti Svona fólks er fyrstu giftingum samkynhneigðra para fylgt úr hlaði. Baráttan er unnin. Fordómafullir kreddukarlar eru nú jaðarsettir og almenningur skundar í gleðigöngu og fagnar fjölbreytileikanum. Því það er nákvæmlega þannig þjóðfélag sem við viljum lifa í.

COVID-19 faraldurinn hefur valdið miklu fjaðrafoki og haft áhrif á hagi fólks á heimsvísu. Umfjöllun um sjúkdóminn hefur tekið á sig ýmsar myndir og margir fletir tilverunnar verið settir í samhengi við hann. En sú staðreynd hefur ekki farið hátt að fólk sem tekur lyf vegna HIV smits er mjög ólíklegt að smitast af kórónaveirunni. Þegar betur er að gáð eru afar fáir sem vilja tjá sig um það og í ljós hefur komið margir sem lifa með HIV veiru í blóðinu vilja alls ekki að neinn komist að því. Þetta er auðvitað einkamál hvers og eins en þegar ástæðurnar eru skoðaðar kemur í ljós að enn leynast fordómar og skömm. Í ákveðnum starfsstéttum er fólk krafið um heilsufarsupplýsingar. Í stöðluðum spurningalista er beinlínis spurt hvort að viðkomandi sé smitaður og stundum undir þeim sykurhjúp að spyrja hvort viðkomandi starfsmaður sé að taka einhver ónæmisbælandi lyf. Mörg flugfélög í heiminum eru í hópi þeirra fyrirtækja sem ganga svona langt gagnvart starfsfólki sínu. Það er þekkt staðreynd meðal fólks sem gegnir starfi flugþjóna og flugmanna að HIV smit sé beinlínis brottrekstrarsök. Hvernig HIV smit hefur t.d. áhrif á starf þeirra er mér fyrirmunað að skilja. Flugþjónar bera ábyrgð á öryggismálum um borð í flugvélum og þjóna farþegum með mat og drykk og sjá til þess að upplifun ferðalagsins sé sem bærilegust.  Sá grunur læðist að manni að vanþekking og fordómar kunni enn að ríkja í sumum kimum þjóðfélagsins eða allavega hjá sumum atvinnurekendum.

Í því ljósi er rétt að rifja upp grein á Vísindavefnum sem nefnist “Getur maður fengið  HIV-veiruna við sjálfsfróun?” en í henni eru talin upp dæmi um það hvernig HIV smitast EKKI og er þar vitnað í lista á vef Landlæknisembættisins. Kemur þar fram að HIV smitast ekki með glösum, diskum eða við venjulega umgengni. Listinn er mun lengri og geta áhugasamir kynnt sér hann. Ég hvet forsvarsmenn flugfélaga alveg sérstaklega til að gera það.