Ekki boðleg umræða

SkattsvikUmræða um skattsvik hefur komist á flug eftir að nefnd á vegum fjármálaráðherra skilaði nýverið af sér skýrslu um málefnið. Eins og vant er rjúka til ýmsir stjórnmálamenn með hæpnar fullyrðingar og upphrópanir, en öllu verra er þó þegar embættismenn hins opinbera og jafnvel yfirmenn stofnana sem í hlut eiga ganga ógætilega fram.

SkattsvikUmræða um skattsvik hefur komist á flug eftir að nefnd á vegum fjármálaráðherra skilaði nýverið af sér skýrslu um málefnið. Eins og vant er rjúka til ýmsir stjórnmálamenn með hæpnar fullyrðingar og upphrópanir, en öllu verra er þó þegar embættismenn hins opinbera og jafnvel yfirmenn stofnana sem í hlut eiga ganga ógætilega fram.

Í kjölfar skýrslunnar umræddu hljóp á snærið hjá ýmsum stjórnmálamönnum og öðrum þeim sem jafnan eru fyrirferðamiklir í þjóðmálaumræðunni. Því var slegið upp með aðstoð fjölmiðla að fyrir þá upphæð sem áætlað var að svikin væri undan skatti á ári hverju mætti greiða öll útgjöld til menntamála. Þessi skrumi var ágætlega svarað í grein Pawels Bartoszek hér á Deiglunni, Menntun og skattsvik.

Svo gerist það að yfirmenn opinberra stofnanna, sumir af æðstu embættismönnum ríkisins, mönnum sem treyst hefur verið fyrir bæði miklum valdheimildum og ríkri ábyrgð, ganga fram í fjölmiðlum og ýja að því að íslensk fjármálafyritæki séu með óhreint mjöl í pokahorninu þegar kemur að skattsvikum, að þau geri hreinlega út á það að aðstoða Jón og Palla við fara á svig við skattalög og -reglur. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt og ekki upp á það bjóðandi að háttsettir embættismenn flæki sig með þessum hætti í þjóðamálaumræðuna.

Eitt af þeim nýyrðum sem skotið hefur upp kollinum hér á landi er skattasniðganga. Hvað er það? Annað hvort er háttsemi manna brot á skattalögum eða þá að menn fylgja settum reglum. Það er ekkert hægt að sniðganga skattalögin frekar en önnur lög. Hvað ætti maður eiginlega að segja ef lögreglumaður kæmi nú fram og talaði um að maður sniðgengi umferðarlögin? Undirritaður kannast við að hafa brotið umferðarlögin og goldið keisaranum fyrir það, en þess á milli hefur hann fylgt umferðarlögunum. Það er spurning um að tala við Óla Þórðar og athuga hvernig maður ber sig að við að sniðganga umferðarlögin.

Og skattalög eru rétt eins og önnur lög. Þau eru annað hvort virt eða þau eru brotin. Umræddir embættismenn hafa það hlutverk að sjá til þess að lögin séu virt. Þeim var ekki ætlað neins konar nýyrðasmíð eða að taka þátt í kappræðum á vettvangi þjóðmálanna.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.