Misvelkomnir til Íslands

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Bobby Fischer dvalarleyfi hérlendis hlýtur að teljast undarleg í meira lagi. Pólitískum flóttamönnum er venjulega vísað úr landi um leið og þeir koma, hvað þá að þeir séu sérstaklega boðnir velkomnir með skipunarbréfi frá ráðherra. Þá hafa reglur um dvalarleyfi útlendinga verið stórlega hertar í ár.

Bobby Fischer á Íslandi 1972

Enginn efast um að einvígi þeirra Bobbys Fischers og Boris Spasskys á Íslandi árið 1972 um heimsmeistaratitilinn í skák hafi vakið heimsathygli. Hins vegar má setja stórt spurningamerki við það hvort veita eigi Fischer dvalarleyfi hér á landi. Hermt er eftir ráðuneytismönnum að hann hafi komið við sögu þjóðarinnar með sérstökum hætti og því sé sjálfsagt að aðstoða hann þar sem hann hafi átt frumkvæði að því sjálfur.

Uppruna málsins má rekja til þess að Fischer tefldi gegn Spassky í Júgóslavíu árið 1992, en bandarísk stjórnvöld töldu það brot á viðskiptabanni sem var þá í gildi gagnvart júgóslavneskum stjórnvöldum. Fischer hefur sjálfur afsalað sér bandarísku ríkisfangi og talið sig landlausan um alllanga hríð. Hann hefur leitað á náðir japanskra stjórnvalda, en þar hefur hann dvalist lengi, og þýskra enda var faðir hans Þjóðverji. Þær tilraunir hafa ekki borið árangur.

Í sumar var Fischer handtekin í Japan þar sem vegabréf hans reyndist útrunnið. Í kjölfarið var hann settur í stofufangelsi af þarlendum stjórnvöldum á þeim forsendum að hann dveldist ólöglega í landinu. Bandaríkjamenn hafa ekki farið fram á að hann verði framseldur og málið sem Fischer rekur fyrir japönskum dómstólum snýst um þá ósk hans að hann vera áfram í landinu.

Fischer er sjúkur maður, það kom skýrt fram í viðtali sem Páll Magnússon tók við hann fyrir Stöð 2. Gyðingahatur er áberandi í málflutningi Fischers og hefur hann verið ákaflega gagnrýndur fyrir það undanfarin ár. Ásakanir hans á hendur bandarískra stjórnvalda virðast vera ýktar eða byggðar á misskilningi og því er erfitt að gera sér grein fyrir því að hvaða leyti maðurinn getur talist pólitískur fangi. Það eru því enginn skýr mannúðarrök sem styðja þessa ákvörðun íslenskra stjórnvalda.

Þar með er ekki sagt að íslensk stjórnvöld eigi skilyrðislaust að hafna slíkum umsóknum, þvert á móti. Ef þetta er skref í þá átt að Íslendingar taki við fleiri pólitískum flóttamönnum hlýtur það að teljast afar jákvætt. Ef ætlunin er að auðvelda útlendingum að flytja til landsins er ákvörðun utanríkisráðherra skiljanleg. Miðað við fréttir gærdagsins er þó fátt sem bendir til þess.

23 ára Úkraínumanni var nýlega synjað um dvalarleyfi hérlendis þrátt fyrir að hann sé kvæntur íslenskri konu. Það var gert á grundvelli nýrra laga sem kveða á um að umsækjandi þurfi að hafa náð 24 ára aldri til þess að umsókn á grundvelli hjúskapar sé tekin gild. Deiglan hefur áður fjallað um útlendingafrumvarpið auk þess sem vefritið tók virkan þátt í undirskriftasöfnun gegn því.

Úkraínumaðurinn kom til landsins haustið 2003 og fékk þá dvalarleyfi sem námsmaður, auk þess sem hann vann með náminu. Leyfið rann út í ár og var honum þá bent á að hann þyrfti að endurnýja það hyggðist hann dvelja hér áfram. Það gerði hann ekki en gekk þess í stað að eiga unnustu sína. Móðir hans og stjúpfaðir eru þar að auki búsett hérlendis. Sýnt þykir að hjónabandið sé ekki til málamynda þar sem eiginkonan hefur gengið mjög hart fram í málinu. Engu að síður má hann ekki sækja um dvalarleyfi hérlendis næstu 3 árin auk þess sem honum er óheimilt að koma inn á Schengen svæðið. Hann hefði ef til vill átt að læra mannganginn betur.

Auðvitað ætti Bobby Fischer að vera frjálst að ferðast til landsins. Það er í sjálfu sér fráleitt að hann þurfi sérstakt leyfi eingöngu vegna þess að bandarísk stjórnvöld eru í fýlu yfir 12 ára gömlu skákeinvígi. En á nákvæmlega sama hátt ætti öðrum að vera heimilt að dveljast hérlendis, sérstaklega ef sýnt þykir að viðkomandi aðili stundi nám og atvinnu af heilindum. Annað er bara hræsni.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)