Af majónesi og öðrum undrum

Þá er ein mesta ferðahelgi ársins að baki. Af þeim sem lögðu land undir fót virðist leið flestra hafa legið á suðurlandið enda úr nógu að velja. Hvort sem leiðin lá á Humarhátíð á Höfn í Hornafirði, Goslokahátíð í Eyjum, SMS hátíð í Galtalæk eða Landsmót hestamanna á Gaddstaðaflötum á Hellu þá eiga flestir það sameiginlegt að hafa komið heilir heim.

Þá er ein mesta ferðahelgi ársins að baki. Af þeim sem lögðu land undir fót virðist leið flestra hafa legið á suðurlandið enda úr nógu að velja. Hvort sem leiðin lá á Humarhátíð á Höfn í Hornafirði, Goslokahátíð í Eyjum, SMS hátíð í Galtalæk eða Landsmót hestamanna á Gaddstaðaflötum á Hellu þá eiga flestir það sameiginlegt að hafa komið heilir heim. En það er annað ekki síður merkilegra sem vegfarendur um suðurland síðustu daga eiga sameiginlegt en það er að hafa ekið framhjá nýjasta undri okkar sunnlendinga þ.e. risavaxinni Majónesdós sem stendur keik við Suðurlandsveg vestan við Þjórsá.

Nú er það svo að ég er mjög hrifin af majónesi, og þá sérstaklega Gunnars majónesi. Þessi himneska blanda af eggjarauðum og olíu hefur heillað íslensku þjóðina í gegnum tíðina og hefur verið gripið til gulröndóttu látlausu dósarinnar með rauðu kúlunni þegar mikið liggur við. Hvort sem um var að ræða, hnausþykkar brauðtertur með þykku majóneslagi í fermingarveislum eða rækjusalatið á samlokurnar í Þórsmerkurferðum gegndi gamli góði Gunnar lykilhlutverki án þess þó að mikið bæri á. En nú eru breyttir tímar og þjóðin upptekin af hollustu og heilsuvörum og Gunnar hefur, a.m.k. á mínu heimili, verið látinn víkja til hliðar fyrir allskyns diet stælingum.

Það er væntalega af þessum sökum sem eigendur og framleiðendur Gunnars hafa séð sig knúna til að grípa til nýtískulegra aðferða til að minna á gamla kónginn. Risastóru líkani af majónesdós hefur verið plantað á sumarbústaðalandi eigenda fyrirtækisins við Þjóðveg 1, að því er virðist án tilskilinna leyfa skipulagsyfirvalda. Þegar Gunnar hefur verið blásinn upp í þess stærð, þá er hann ekkert sérlega látlaus lengur heldur frekar ógnvekjandi. Auk þess er ekkert lystaukandi við það að sjá fyrir sér það gríðarlega magn af majónesi sem geti rúmast í umbúðum af þessari stærðargráðu..Fyrir utan að skyggja á glæsilega fjallasýn þá er dósinni þannig komið fyrir að hún er rammskökk. Með uppátækinu hefur eigendum Gunnars tekist að pirra aðila í ferðaþjónustu, sýslumann og almenna vegfarendur um sSðurland. Ég held þetta verið að teljast vera ein misheppnaðasta auglýsing síðari tíma. Sú sátt sem ríkt hefur milli Gunnars og íslensku þjóðarinnar virðist vera að rofna. Ég mæli því með að eigendur dósarinnar fjarlægi hana sem fyrst áður en ímynd Gunnars býður frekari hnekki. Allt er best í hófi, líka majónes.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.