Framtíðin sem við skuldum

Börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum. Við foreldrar kappkostum að veita þeim eins gott veganesti út í lífið og við getum og treystum að samfélagið allt taki þátt í verkefninu með okkur.

Börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum. Við foreldrar kappkostum að veita þeim eins gott veganesti út í lífið og við getum og treystum að samfélagið allt taki þátt í verkefninu með okkur.

Íslenskt menntakerfi er lykillinn að framtíð barnanna okkar. Við treystum öll á það að börnin sem alast upp í þessu landi fái góða menntum til að auka lífsgæði og sjálfstæði hvers og eins en einnig til að auka hag þjóðarinnar í heild. Hátt menntunarstig þjóða eykur hæfni þeirra til að takast á við breytingar, að breyta heiminum og styrkir stöðu þeirra í samkeppni við aðrar þjóðir.

Á þriggja ára fresti er PISA-könnun OECD lögð fyrir grunnskólanemendur í 79 löndum. Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar árið 2018 er frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD. Alvarlegast er að samkvæmt könnuninni búa um 34% íslenskra drengja ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi og fer staðan versnandi miðað við sömu könnun árið 2015 og 2009. Hlutfallið er um 19% hjá stúlkum sem er einnig allt of hátt.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hagstofu Íslands eru rúmlega 4.400 einstaklingar að útskrifast úr 10. bekk næsta vor. Ef staðan er enn sú sama og árið 2018 þá hafa tæplega 1.200 þeirra ekki náð að læra að lesa sér til gagns eftir 10 ár í grunnskóla. Hvernig hefur rík þjóð eins og Ísland efni á því að svo hátt hlutfall grunnskólanema sé í þessari stöðu? Reikna má með að nokkur þúsund einstaklinga á Íslandi hafi í gegnum tíðina farið í gegnum skólakerfið án þess að hafa öðlast nægjanlega færni í lestri. Við getum öll verið sammála um að þetta er staða sem er óboðleg og þarf að breyta fyrr en seinna. En þetta mun ekki breytast nema við öll ákveðum að breyta þessu.

Fyrsta skrefið til að leysa vandamál er að vita hvert það er og horfast í augu við það. Við þurfum að viðurkenna að það sem við höfum verið að gera hefur ekki skilað fullnægjandi árangri. Stór vandamál eru yfirleitt ekki einhverjum einum að kenna heldur eru orsakirnar margþættar. Ég tel ljóst að þetta vandamál varði svo mikla hagsmuni til framtíðar að samfélagið allt þurfi að koma að því að leysa það. Afleiðingar þess fyrir einstakling að ná ekki færni í lestri eru víðtækar. Ef þú nærð ekki færni í lestri í grunnskóla er ólíklegt að þú náir fótfestu í námi síðar á lífsleiðinni.

En hver er ástæða þess að íslenskir drengir eiga erfitt með að fóta sig í lestri? Við því er ekkert eitt einfalt svar. Við þurfum að skoða hvort menntakerfið sé of stíft og þungt eða of laust í reipunum og stefnulaust. Er sá rammi sem yfirvöld menntamála setja grunnskólunum ófullnægjandi? Getur verið að breytur eins og lengd kennslustunda og uppbygging kennsludagsins skipti máli? Er námsefnið nógu fjölbreytt og áhugavert? Þarf að endurskoða kennsluhætti? Getur verið að þær öru tæknibreytingar sem við upplifum í dag og höfum tileinkað okkur í daglegu lífi leiði til þess að hefðbundið nám virki óspennandi og leiði til skorts á virkri þátttöku drengja í skólakerfinu? Getur verið að það skorti sterkari fyrirmyndir sem tala fyrir mikilvægi menntunar? Getur verið að sú staðreynd að meirihluti kennara sé kvenkyns hafi áhrif? Hvert á hlutverk foreldra að vera? Getur verið að það sé skortur á virðingu fyrir menntun í íslensku samfélagi? Getur verið að menntunarstig foreldra hafi áhrif á viðhorf barna til náms?

Ljóst er að við þurfum að greina orsakir vandans og ráðast í nauðsynlegar breytingar. Það er sameiginlegt verkefni alls samfélagsins. Við eigum ekki að vera hrædd við að breyta gamalgrónum kerfum ef þau eru ekki að skila árangri. Við þurfum líka hafa í huga að breytingar á viðhorfum eru oft stærsta hreyfiaflið.  Grundvallarhlutverk menntakerfisins og ástæða þess að samfélagið leggur því til ríkuleg fjárframlög er að búa öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri. Tækifæri fyrir hvern og einn einstakling, sama hver bakgrunnur hans er eða fjölskylduaðstæður, til að byggja upp sína framtíð og finna sig í því sem hentar hverjum og einum. Börnin okkar eiga að geta byggt sína framtíð á þeirri þekkingu sem skólakerfið færir þeim og aukið með því lífsgæði sín og þjóðarinnar í heild. Við hin fullorðnu skuldum þeim þá framtíð.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.