Tækifæri til að efna fögur fyrirheit

Í gær var sléttur mánuður frá því að Alþingi kom saman að loknum kosningum. Á þingi tóku sæti 27 nýir þingmenn auk margra góðra reynslubolta sem allir áttu það sameiginlegt, samkvæmt minni upplifun, að vilja bretta upp ermar og taka til óspilltra málanna við að endurreisa efnahag landsins. En orð og efndir fara ekki alltaf saman í pólitík og virðist það vera að sannast á yfirstandandi sumarþingi, eða hvað?

Í gær var sléttur mánuður frá því að Alþingi kom saman að loknum kosningum. Boðað var til kosninga í kjölfar mikils umróts í þjóðfélaginu í kjölfar bankahrunsins. Í kosningabaráttunni urðu frambjóðendur varir við miklar væntingar kjósenda til þess að nýtt þing myndi taka á málum af festu og ábyrgð. Ýmsir frambjóðendur flokkanna hétu nýjum vinnubrögðum á þingi með aukinni áherslu á samvinnu og samstarf. Á þingi tóku sæti 27 nýir þingmenn auk margra góðra reynslubolta sem allir áttu það sameiginlegt, samkvæmt minni upplifun, að vilja bretta upp ermar og taka til óspilltra málanna við að endurreisa efnahag landsins. Í stjórnarsáttmálanum voru jafnframt gefin fögur fyrirheit um samráð allra flokka.

En hvar á að byrja á endurreisnarstarfinu? Grundvöllur þess að við náum árangri sem leiðir til vaxtalækkunar og afnáms gjaldeyrishafta er að stjórnvöld nái tökum á ríkisfjármálunum og að endurreisn bankanna verði lokið. Áður en ríkisfjármálin og bankarnir komast í lag verða allar aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu máttlausar.

Hvernig gengur endurreisnarstarfið á hinu háa Alþingi? Nú er það svo að enn hefur ekki verið lagt fyrir þingið hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að taka á halla ríkissjóðs. Þá hefur endurreisn bankanna heldur ekki verið lokið.

Vissulega eru verkefnin eru flókin og vandinn djúpstæður og auðveldara um að tala en í að komast. Staðreyndin er engu að síður sú að íslensk heimili og atvinnulífið mega engan tíma missa. Í dag er þörf á kjarkmiklum stjórnmálamönnum sem þora að taka ákvarðanir. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram viðamiklar efnahagstillögur sem hafa vakið jákvæð viðbrögð þvert á flokka í þinginu. Tillögurnar eiga að meginhluta til að vera komnar til framkvæmda fyrir 15. júlí.

Að mínu mati er framlaging tillögunnar og umræðurnar um hana í þinginu það besta sem lagt hefur verið til málanna á sumarþingi varðandi endurreisn efnahagslífsins. Því hvet ég þingmenn til þess að beita sér fyrir hraði meðferð þingsályktunartillögunnar þannig að þeim aðgerðum sem hún boðar verði hrint í framkvæmd sem fyrst. Er slík afgreiðsla ekki einmitt tækifæri fyrir þingheim til að sýna í verki að alvara er að baki því að ástunda ný vinnubrögð þar sem samvinna og samráð eru í lykilhlutverki?

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.