Réttast að hætta við fjölmiðlalög

Nú þegar hefur miklum tíma og pólitískri orku verið varið í umræðu um fjölmiðlalög. Deiglan telur að nýtt frumvarp sé lítið betra en hið gamla. Réttast hefði verið að leyfa kosningu að fara fram um lögin eða að draga það alveg til baka svo Alþingi og ríkisstjórn geti farið að snúa sér að þarfari málum – svo sem eins og skattalækkunum.

Hið óvænta útspil ríkisstjórnarinnar í deilunni um fjölmiðlafrumvarpið felur ekki í sér neinar þær breytingar á lögunum sem gerir það að verkum að Deiglan geti fremur en áður sætt sig við það. Það eru ekki veigamiklar breytingar að hækka hámarkseign markaðsráðandi fyrirtækis í fjölmiðlafyrirtæki úr fimm í tíu prósent.

Enn stendur eftir að hömlurnar eru mjög verulegar og ekki til þess fallnar að auka líkur á því að hér á landi fái þrifist blómleg fjölmiðlafyrirtæki á einkamarkaði. Enn mega fyrirtæki almennt ekki eiga meira en fimmtung í fjölmiðlafyrirtækjum og enn er bannað að fyrirtæki í blaðaútgáfu megi taka þátt í rekstri sjónvarps- og útvarpsstöðva.

Rökin fyrir þessum hömlum, eins og margítrekað hefur verið bent á á Deiglunni, standast einfaldlega ekki nánari skoðun og leggja óverjanlegar hömlur á markað sem mikilvægt er að sé kraftmikill og sjálfstæður. Deiglan hefur einnig tekið undir þá skoðun að nú um stundir sé ástand fjölmiðla með besta móti og ekkert sem bendi til þess að menn eigi annað hvort erfiðara en áður með að taka þátt í slíkum rekstri eða koma skoðunum sínum á framfæri.

Síðari breytingin á lögunum sem boðuð hefur verið snýr að gildistökunni. Henni er frestað til 1. september 2007 en á móti er útvarpsréttarnefnd gefin á ný heimild til þess að afturkalla gildandi útvarpsleyfi um leið og lögin taka gildi. Þeim verður sem sagt ekki leyft að renna út eins og til stóð. Hér er því á ný verið að kynna til sögunnar það ákvæði sem flestir sérfræðingar töldu hvað augljósast að bryti í bága við stjórnarská.

Á Deiglunni hefur verið dregið í efa að forseti Íslands hefði átt að synja lögunum um staðfestingu þótt viðurkennt sé að bæði sjónarmið hafi nokkuð til síns máls. Það er hins vegar staðreynd að eftir að sú staða kom upp að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar gerðu allir ráð fyrir því, bæði andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslunnar og fylgjendur, að slík kosning yrði haldin og að úrslit hennar réðu örlögum fjölmiðlalaganna.

Eitt af því sem vekur spurningar er aðferðin sem beitt er. Í fyrsta lagi er verið að leggja til tvær fremur léttvægar breytingartillögur við gildandi lög en í stað þess að leggja fram breytingartillögu við hinn ósamþykktu lög eru svo að segja samhljóða lög lögð fram. Og í einni grein hinna nýju laga er kveðið á um að hin fjölmiðlalögin falli á brott. Til þess að Alþingi felli gömlu fjölmiðlalögin á brott þarf það með öðrum orðum um leið að samþykkja hin nýju.

Í öðru lagi vill ríkisstjórnin fella gömlu lögin úr gildi og setja inn þrjár lítilvægar breytingar á þeim. Getur verið að þetta standist? Getur verið að ef 26. greinin er virk í stjórnarskránni þá geti Alþingi einfaldlega í hvert sinn sem málum er skotið til þjóðarinnar samþykkt nánast samhljóða lög og fellt þar með hin eldri úr gildi – og komast þannig hjá atkvæðagreiðslu fram í hið óendanlega?

Menn verða að standa vörð um grundvallarleikreglur lýðræðisins. Það þarf því að átta sig á því að þessar breytingar sem gerðar voru á fjölmiðlalögunum skipta ekki efnislega máli um málsmeðferðina. Ef við setjum sem dæmi að lögin hefðu verið lögð fram á ný en hámarkshlutur markaðsráðandi fyrirtækis hefði hækkað úr 5 í 5,1% eða lækkað úr 5 í 2,5% – hefði þá með því móti verið hægt að segja að nú væri Alþingi búið að setja ný lög og því þyrfti þjóðin bara alls ekkert að kjósa um þau? Manni þætti það hæpið.

Úr því sem komið var hefði verið réttast af ríkisstjórninni að láta kosningarnar fara fram eða draga fjölmiðlafrumvarpið til baka. Það er hins vegar aðkallandi verkefni fyrir Alþingi að skýra leikreglur um málskot nánar. Sumarþingið hefði ekki átt að skirrast undan að taka það mál til umfjöllunar enda hafa umræður og atburðir síðustu vikna sýnt að slík umræða er þarfari en marga grunaði.

Nú hefur dýrmætur tími og mikil pólitísk orka farið í þetta eina mál. Það er kominn tími til þess að einbeita sér að verðugri viðfangsefnum svo sem eins og að lækka skatta, stokka upp í heilbrigðiskerfinu, auka frelsi í skólamálum, svo fátt eitt sé nefnt. Enn er lag til góðra verka ef ríkisstjórnin nær áttum á ný.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)