Alþingi í gíslingu

Alþingi Íslendinga fjallar nú um hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Kristaltært er að mjög svo skiptar skoðanir eru um málið í þjóðfélaginu og ekki síður innan ríkisstjórnar. Hvernig sækir ríkisstjórn sér umboð í máli sem þessu?

Alþingi Íslendinga fjallar nú um hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Aðild að ESB er helsta stefnumál Samfylkingarinnar og kom það skýrt fram í nýliðinni kosningabaráttu. Í raun má segja að aðild sé eina mál þess flokks þar sem málflutningur samfylkingarmanna er með þeim hætti að úrlausn allra annara mála virðist nátengd aðildarumsókn, hvort sem það er afgreiðsla Icesave samninganna eða umfjöllun um erfðabreyttar lífverur. Aðrir flokkar á þingi eru minna spenntir og fyrir kosningar fór Vinstri hreyfingin grænt framboð fram með stefnuskrá þar sem lýst var harðri afstöðu gegn aðild að ESB.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þrátt fyrir gerólíka stefnu í þessu máli lagt til að sótt verði um aðild og þegar málið kom inn í þingið var réttlæting VG fyrir því að leggja fram slíkt mál að hver þingmaður væri bundinn af sinni sannfæringu og engin skuldbinding væri af hálfu þingmanna flokksins að styðja það. Þingið skyldi skera úr um hvort lagt yrði í ferð til Brussel með samþykkt eða synjun óháð flokkslínum. Í gær kom hins vegar í ljós í skeleggri ræðu háttvirts þingmanns VG Ásmundar Einars Daðasonar, að frelsi þingmanna ríkisstjórnarflokkanna ekki svona ríkt þegar á reynir.

Eftir situr þingið í miðri umræðu um eitt stærsta mál í sögu þjóðarinnar og Samfylkingin telur við hæfi að beita því vinnulagi að svínbeygja þingið að vilja sínum. Þingið er því eins og Ásmundur Einar Daðason komst að orði á Alþingi í gær, í gíslingu Samfylkingarinnar og er sú staða óbærileg og getur á engan hátt talist lýðræðisleg. Umboð til að fara í aðildarviðræður við ESB verður að vera skýrt. Ljóst er að kjósendur VG hafa ekki veitt þingmönnum sínum slíkt umboð og því er með öllu óskiljanlegt hvernig Samfylkingin leyfir sér að koma fram við samstarfsflokkinn.

Eina leiðin út úr þessari bóndabeygju sem Samfylkingin hefur komið þing og þjóð í er sú leið sem breytingartillaga Sjálfstæðismanna leggur til, að leita álits þjóðarinnar á því hvort sækja beri um aðild. Sú leið er alls ekki gallalaus en illskásti kosturinn til að leysa íslensku gíslana úr prísundinni.
Ég hvet þingmenn VG til að fara að sannfæringu sinni í þessu máli og vona að þeir séu ekki farnir að þjást svo af Stokkhólmsheilkenninu í gíslatöku þessari að þeir hafi misst sjónir af vilja kjósenda sinna.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.