Málefnalega umræðu ofar æsingi

Gagnrýni Morgunblaðsins á hömluleysi í málflutningi í opinberri umræðu er réttmætt. Mikilvægt er að fólk kunni fótum sínum forráð þegar það tjáir skoðanir sínar þótt vitaskuld verði hver að axla þá ábyrgð sem tjáningarfrelsinu fylgir.

Menn eiga það til að grípa til svívirðinga þegar rökin eru ósannfærandi.

Í leiðara Morgunblaðsins sl. föstudag er ítrekuð sú afstaða blaðsins að það telji opinberar umræður á Íslandi ekki fara fram með þeim málefnalega hætti sem hægt sé að krefjast af vel menntaðri og upplýstri þjóð. Morgunblaðið veltir upp þeirri spurningu hvort þau viðbrögð Sigurðar Inga Jónssonar að segja sig úr Frjálslyndaflokknum vegna óánægju með tjáningarform varaformanns flokksins og viðurkenningu forystu flokksins á því tjáningarformi, séu vísbending um að hinum almenna borgara sé að verða nóg boðið. Þá kastar blaðið fram þeirri spurningu hvort tímabært sé að stjórnmálamenn, fjölmiðlar og aðrir sem taki þátt í opinberum umræðum, taki höndum saman um að bæta umgengnishætti sína hver við annan að þessu leyti.

Ég verð að taka undir þessi sjónarmið Morgunblaðsins og hrósa Sigurði Inga fyrir að kjósa að sætta sig ekki við þessi vinnubrögð forystu flokksins. Ég sem áhugamaður um pólitíska umræðu nenni ekki lengur að láta bjóða mér að þurfa að lesa í gegnum eða hlusta á neikvæð gífuryrði og svívirðingar um nafngreinda einstaklinga áður en greinarhöfundur/ræðumaður/nafnlaus höfundur kemur sér að kjarna málsins þ.e. ef það er þá einhver kjarni yfir höfuð.

Vissulega er ég fylgjandi tjáningarfrelsi í landinu og viðkomandi einstaklingar geta birt svo til hvaða óhróður sem er svo framarlega sem þeir brjóti ekki í bága við lög. Hins vegar verða menn náttúrulega einhvern tímann að þroskast og gera sér grein fyrir að öllu frelsi fylgir jafnframt ábyrgð. Við sem lesendur verðum að gera þá lágmarkskröfu að þeir sem sjá ástæðu til að tjá sig á opinberum vettvangi brjóti ekki gegn ákvæðum laga um ærumeiðingar og íhugi örlítið siðferðislega ábyrgð sína.

Það er ljóst að þegar pólitísk umræða er hætt að snúast um málefni heldur um það hver getur komið sem flestum neikvæðum gífuryrðum um pólitíska andstæðinga sína eða opinbera aðila í eina setningu, er ljóst að umræðuna setur niður. Afleiðingarnar verða þær að annað hvort minnkar siðferðiskenndin smám saman þannig að maður fer niður á sama plan eða einfaldlega hættir að nenna að fylgjast með og taka þátt í pólitískri umræðu.

Nauðsynlegt er að taka upp umræðu um málið á opinberum vettvangi og vekja athygli á að þetta ástand sé ekki eðlilegt né samboðið þjóð sem telur sig vera siðaða og vel menntaða. Ég skora á Morgunblaðið að fylgja hugmyndum sínum í þessu máli eftir og hafa forgöngu um að bæta umhverfi okkar að þessu leyti. Því hver er betur til þess fallinn en sá fjölmiðill sem hefur í gegnum tíðina staðið hvað opnastur fyrir skriflegum vangaveltum íslensku þjóðarinnar.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.