Kjarasamningar: Mikið fagnaðarefni

Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru aðfaranótt mánudags eru mikið fagnaðarefni. Ekki aðeins vegna þess að ekki kom til verkfalla heldur einnig vegna þess að samningurinn siglir milli skers og báru hvað launahækkanir varðar.

Aðfaranótt mánudags skrifuðu Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið undir samning við Samtök atvinnulífsins um kaup og kjör til næstu fjögurra ára. Samningurinn kveður á um að laun hækki um 15% á samningstímanum. Mikið fagnaðarefni er að samningur hafi náðst án þess að til verkfalla komi. Einnig er fagnaðarefni að launahækkanir samkvæmt samningnum séu innan þeirra marka sem samrýmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% á ári. Ef Seðlabankinn nær markmiði sínu að meðaltali yfir samningstímann mun verðlag hækka um rúmlega 10%. Samninguring mun þá fela í sér tæplega 5% kaupmáttaraukningu.

Ekki er ólíklegt að framleiðniaukning í hagkerfinu verði talsvert meiri en 5% á næstu fjórum árum. Ef svo er þá veitir samningurinn nokkuð svigrúm fyrir launaskrið umfram samningsbundnar hækkanir án þess að hlutfall launa af VLF hækki. Þetta hlutfall er raunar nálægt sögulegu hámarki. Því er allt eins líklegt að það lækki á samningstímanum. Samningurinn veitir svigrúm til slíkrar lækkunar.

Það er þó alls ekki þannig að samningurinn kveði á um of litlar kauphækkanir. Ljóst er að líta verður á samning af þessu tagi sem gólfið í launarófinu. Ekki er skynsamlegt að slíkt gólf haldist í hendur við meðaltalsframleiðniaukningu í landinu. Ef svo væri myndu fyrirtæki sem búa við minni en meðaltalsframleiðniaukningu lenda í vandræðum. Slíkt gæti leitt til aukins atvinnuleysis.

Samningurinn er skynsamlegur þar sem hann siglir milli skers og báru. Hann tryggir öllum launþegum kaupmáttaraukningu án þess þó að ganga of nærri þeim fyrirtækjum sem búa við minnsta framleiðniaukningu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.