Lifandi vísindi

Í nýjasta hefti tímaritsins Lifandi vísindi eru tækni- og vísindaframfarir síðustu tveggja áratuga raktar. Í þessu greinargóða yfirliti eru það þó ekki aðeins áfangar í tækni og vísindum sem náðst hafa sem koma á óvart. Stigvaxandi hraði framþróunar á þessum sviðum er ekki síður athyglisverður.

Í tilefni af 20 ára útgáfuafmæli tímaritsins Lifandi vísindi kom nýverið út sérstakt afmælisblað þar sem að tækni- og vísindaframfarir síðustu tveggja áratuga eru raktar. Þetta er með afbrigðum skemmtilegt yfirlit, og hreint ótrúlegir sigrar sem unnist hafa á hinum ýmsu fræðasviðum á þessum tíma. Það er ekki síður athyglisvert að gera sér grein fyrir hversu framfarahraðinn í sjálfu sér hefur aukist.

Hversdagsleiki ársins 1984 er í það minnsta svo langt frá deginum í dag, að myndi einstaklingur vakna upp til nútímans eftir 20 ára svefn, myndi sá hinn sami að líkindum þurfa umtalsverða aðhlynningu, svo ekki sé minnst á túlk til að aðlagast þeim aðstæðum og áreiti sem tæknin hefur skapað okkur. Það er nefnilega ekki nóg með að framþróun hafi orðið hraðari, heldur er hún líka aðgengilegri almenningi en á öðrum tímum. Þannig hefur bylting í tækni og vísindum haft slík áhrif á okkar daglega líf, starf og jafnvel tungutak að ekki væri ólíklegt að sá nývaknaði kysi einfaldlega að leggjast aftur til hvílu.

Hver hefði t.d árið 1984, með Commodore 64 tölvuna í fanginu, getað ímyndað sér Internetið, umfang þess og óþrjótandi möguleika? Að eitthvert alheimsnet myndi í senn gera heiminn minni og allan hans fróðleik aðgengilegan á þann hátt að það ætti eftir að hafa merkjandi áhrif á samfélög jarðar. Hefði einhverjum dottið í hug að á árinu 2004 þætti það eðlilegasti hlutur í heimi að hafa símtæki gróið við eyrað á sér, tæki sem um leið væri e.t.v stafræn myndavél, myndsími, leikja- og tónlistarmaskína?

Enn fremur hefði sjálfsagt engum flogið í hug á þessum tíma, þegar mönnum var rétt að verða ljóst að DNA hvers og eins er einstakt, að erfðamengi mannsins yrði kortlagt og að hægt yrði staðsetja með vissu ákveðin gen sem yllu hinum eða þessum sjúkdómnum. Hvað þá að e.t.v yrði hægt að beita genalækningum og koma í veg fyrir birtingu sjúkdómsins. Þá hefði því heldur tæplega verið trúað að hægt yrði rækta upp heil líffæri í tilraunaglösum og því síður að fundin yrði leið til að kyrrsetja ljósið. Líklegast hefði þó botninn slegið úr hjá 1984-manninum þegar honum yrði ljóst að möguleikinn á að endurskapa ákveðna lífveru frá grunni, eða einrækta hana væri nú fyrir hendi. Svona mætti halda áfram.

Í takt við þennan framfarahraða sem virðist hreinlega aukast með veldisvexti á tímaeiningu má því kannski ætla að innan 10-15 ára gætu villtustu tækni- og vísindafantasíur 2004-mannsins orðið að veruleika.

Ekki er annað í stöðunni en að bíða og sjá, og vona að þegar upp er staðið hafi hraðinn ekki keyrt tilveru okkar um koll. Ef til vill kemur að þeim tímapunkti að 2004-maðurinn kýs einfaldlega afturhvarf til fortíðar-sem við vitum auðvitað að er ekki hægt! Ennþá.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.