Nýjar vörur daglega!

flagaVerslunareigendur vilja ganga svo langt að setja örflögur í vörurnar svo hægt sé að fylgjast með notkun og afdrifum þeirra, eftir að heim er komið. Með þessu væri hægt að afla vitneskju um neytendur varanna sem slær öllum markaðsrannsóknum við.

flagaJólaösin er nú afstaðin í verslunum landsins og þar með einum mesta sölutíma ársins lokið. Fólk er að ná áttum eftir lætin og safnar nú kröftum fyrir útsölurnar. Það er því við hæfi á þessum tímapunkti að skoða þær aðferðir sem notaðar eru við að lokka viðskiptavini til þess að kaupa ákveðna vöru og þjónustu. Eru þeir reknir áfram eins og fé í réttir eða er um að ræða lúmskari aðferðir?

Markaðsfræðingar reyna að öðlast eins góða þekkingu og mögulegt er á neyslumynstri og kauphegðun almennings. Tilgangurinn er að fá sem bestar upplýsingar um hvernig hægt er að mæta þörfum neytenda og markaðssetja síðan vöru sem uppfyllir þessar þarfir. Þetta er breyting frá því sem áður var, þegar vörur voru hannaðar án tillits til þessara þátta og reynt var að laga viðskiptavinina að vörunni.

Ekki er lengur stuðst við staðlaðar steríótýpur og fullyrðingar um neysluvenjur þeirra, heldur eru gerðar markaðsrannsóknir á því hvernig markhópurinn hegðar sér raunverulega. Að því búnu er hægt að nálgast hópinn beint og með sem árangursríkustum hætti. Í leiðinni er hægt að spara mikla peninga í tilgangslausar birtingar í þeim miðlum sem viðkomandi hópur notar ekki.

En hve langt á að ganga til að fá þessar upplýsingar? Þær eru gulls ígildi. Sá sem hefur bestu upplýsingar um sinn markhóp getur þjónustað hann best. Aðeins þannig getur viðkomandi náð samkeppnisforskoti. Það er því nokkuð ljóst að framleiðendur eru tilbúnir að leggja töluvert á sig.

Nú eru uppi raddir í Bretlandi um að hætta sé á að gengið verði of langt í þessum efnum og brotið verði á rétti fólks til einkalífs. Bresku réttindasamtökin Liberty, hafa varað við því að lúmskir verslunareigendur þar í landi vilji ganga svo langt að setja örflögur í vörurnar svo að hægt sé að fylgjast með notkun og afdrifum þeirra eftir að heim er komið. Þannig væri hægt að afla vitneskju sem slær öllum markaðsrannsóknum út.

En hvaða brögðum er nú þegar beitt, fyrir utan augljósar aðferðir líkt og auglýsingar og annað slíkt? Jú, tökum sem dæmi matvöruverslun í Smáralind. Nýbökuð húsmóðir í Kópavogi sem venur komur sínar þangað í leit að bleyjum, brauði og mjólk er boðin velkomin með helsta veikleika kvenna: Snyrtivörum. Þegar ilmandi rekkum sleppir tekur við dýrðlegt úrval að fylgihlutum svo sem hönskum og töskum. Það tekur dágóða stund að skálma breiða gangana fram hjá öllu fíneríinu áður en komið er að mjólkurkælinum. Þetta gerir óspennandi ferð í matvörubúðina að dásamlegu ævintýri, fyrir þá sem þetta kunna að meta.

Nú þegar liggja ótrúlega ítarlegar upplýsingar uppi á borðum. Á Íslandi hefur kortanotkun verið gífurleg og það heyrir nú til undantekninga að greitt sé með peningum. Greinarhöfundur hefur oft leitt hugann að því hvar þessum upplýsingum sé í raun safnað og fær tak fyrir hjartað er hún hugsar til þess að ef til vill sitji einhver með kortayfirlitið hennar. Ef sá hinn sami ætlaði að greina hvaða fyrirtæki ætti að ota að henni kæmist hann að þeirri níðurstöðu að best væri að senda henni Bónusbæklinginn á fimmtudögum með helgartilboðum og lista yfir nýjustu myndböndin á leigunum. Ekki spennandi það og algjört einkamál hennar!

Gæta þarf velsæmis í öflun og meðferð upplýsinga. Það vill enginn láta troða á rétti sínum til einkalífs og láta njósna um sig. Svo lengi sem ekki er of langt gengið og siðferðis er gætt, eru athuganir á hegðun neytenda til góðs því þær stuðla að því að væntingar séu uppfylltar og hagsmunum allra er þjónað.

Eftir að hafa hugleitt alla þá möguleika sem eru fyrir hendi að fylgjast með kauphegðun almennings, fá samsæriskenningar byr undir báða vængi. Hver veit nema örflögurnar séu löngu komnar í notkun???