Bækur bæta og kæta

Fátt er betra í skammdeginu en að lesa góða bók. Jólin eru sérstaklega góður tími til þess arna, enda er bókin algeng jólagjöf og nokkur tími gefst yfir hátíðarnar við þessa iðju.

Fátt er betra í skammdeginu en að lesa góða bók. Jólin eru sérstaklega góður tími til þess arna, enda er bókin algeng jólagjöf og nokkur tími gefst yfir hátíðarnar við þessa iðju.

Hægt er að lesa/skoða bækur á ýmsa vegu. Sumar bækur krefjast þess að þær séu lesnar frá upphafi til enda og eru fáir útúrdúrar möglegir. Þetta á t.d. við um skáldsögur. Lesandinn verður að byrja á síðu 1, (oftast reyndar á síðu 7 eða 9) og enda á lokasíðunni.

Annars konar bækur bjóða upp á aðra möguleika. Bækur almenns efnis, t.d. handbækur og yfirlitsrit, er ekki við hæfi að lesa frá upphafi til enda. Það væri t.d. kúnstugt að byrja á íslensku alfræðiorðabókinni á fyrstu síðu, og enda á þeirri síðustu. Höfundur þessa pistils verður þó að játa að hafa einu sinni byrjað á téðri bók og komist á bls. 51, en þá var honum farið að leiðast þófið. Á þeirri síðu má t.d. finna skýringar á hugtökunum andalúsít og andarteppukvef.

Ævisögur bjóða upp á alveg sérstaka möguleika í þessu sambandi. Þær má lesa á ýmsan máta. Undirritaður hefur það t.d. fyrir sið þegar hann les ævisögur að byrja á því að skoða allar myndirnar í bókinni, sé þeim til að dreifa. Að því loknu hefst hann handa við að lesa bókina. Bókin er ekkert endilega lesin frá upphafi til enda. Stundum hentar að byrja einhvers staðar aftarlega í bókinni og fikra sig framar á lífsleið viðkomandi. Þannig las hann ævisögu Lindu P. um daginn. Byrjaði á aftasta kaflanum og las bókina í gegn í öfugri röð. Endaði á fyrsta kaflanum.

Svo eru svokallaðar frásagnarbækur sér kapítuli út af fyrir sig. Í þeim greinir höfundur frá einhverjum skemmtilegum atvikum eða atburðum sem hann hefur upplifað, hvort sem hann kom að þeim atburðum með einhverjum hætti eða ekki. Bók Flosa Ólafssonar, sem kom út núna fyrir jólin, er eins konar frásagnarbók, sem er bundin við stuttar frásagnir af heimilislífi Flosa og samskiptum hans við konu sína Lilju. Þá bók þarf t.d. ekki að lesa frá fyrstu til síðustu síðu, heldur er lesandanum unnt að drepa niður í bókinni hér og þar með tilviljanakenndum hætti.

Af ofangreindu má sjá að hægt er að lesa bækur með ýmsum hætti. Það er líka hægt að lesa bækur á ýmsum stöðum. Þar má nefna uppi í sófa eða rúmi, við borð, í bíl, úti á túni, hvar sem er. Best er að lesa í nokkru næði, þó að slíkt sé ekki alltaf mögulegt. Staðsetning bókarinnar getur einnig verið margbreytileg. Hægt er að láta bókina liggja í rúminu eða á borðinu, og lesa hana þannig. Einnig er mögulegt að halda á bókinni, hvort sem lesandinn stendur, situr eða liggur. Mestu máli skiptir að efnislegt inntak bókarinnar komist til skila. Fari hvorki fyrir ofan garð né neðan.

Það er hollt að lesa bækur. Bækur eru fyllri, ítarlegri og skilja meira eftir sig en blöð, enda eru þær lengri. Sumar bækur eru þó hið mesta sorp, aðrar bækur eru alger snilld. Flestar bækur eru þó einhvers staðar á milli þess að teljast sorp og snilld. Bækur eiga það almennt sameiginlegt að hafa einhvern boðskap fram að færa, hvort sem hann er virðingar- eða vítaverður. Það er a.m.k. hægt að fullyrða að bóklaus maður er blindur!

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)