Völvupsá Völu Kazcinski 2004!

Eins og áður mun hin heimsþekkta og óskeikula völva, Vala Kazcinski, spá fyrir um komandi ár 2004. Vala hefur nú þegar, þrátt fyrir, stuttan starfsaldur skipað sér á sess með ekki ómerkari spámönnum en Nostradamusi, Múhameð og Svani Kristjánssyni – og hún er ekki síður umdeild. Vala er óskeikul völva og ofurnæmur spámiðill – og óvenjulega spádjörf í ár.

„Jú jú, það er rétt. Ég spáði hvítum jólum,” segir Vala glaðhlakkaleg í upphafi spjallsins þegar blaðamenn Flugufótarins hittu hana að spjalli í dimmum kjallara eldsnemma í gærmorgun.

„Ég hef alltaf spáð rétt fyrir um veðurfar en hef yfirleitt kosið að halda því meira fyrir sjálfa mig svona til að eyðileggja ekki spennuna,” bætir hún við. Hún vill því ekki segja okkur hvernig jólin verða á næsta ári en gaukaði því að okkur vísbendingu: „Staðsetning lægða gæti gefið vísbendingar fyrir þá sem kunna að lesa rétt úr því.”

Ritstjórn Flugufótarins fékk Völu til þess að spá fyrir um helstu tíðindi í viðskiptalífi, stjórnmálum og íþróttum, auk þess sem hún var fengin til þess að segja frá komandi tíðarfari og segja okkur óorðnar fréttir af fræga fólkinu.

Tíðarfar

„Árið verður langt. Lengra en í fyrra. Ég hef líka á tilfinningunni að þetta verði ekki prímtöluár eins og var nú í ár. Prímtöluár eru erfið ár að spá fyrir um,” segir Vala en bætir kankvíslega við: „En það truflar mig svosem ekki. Ég er alltaf nákvæm.”

Undanfarnar aldir hefur ríkt á Íslandi svokallað temprað sjávarloftslag. Ég tel ekki miklar líkur á að breyting verði á þar á á árinu 2004. Veðrið verður að mestu leyti breytilegt milli mánaða og framan af árinu munu dagar vera stuttir og kalt úti. Þegar líður á tel ég líklegt að dagarnir lengist og meðalhiti muni hækka. Þá er líklegt að nokkuð verður um sólríka daga um sumarið og hiti muni jafnvel einstöku sinnum ná 20°.“

Völvan telur hins vegar ólíklegt að hiti fari upp fyrir 30° og útilokað að hann fari upp fyrir 70°.

Á seinustu mánuðum ársins er líklegt að dagarnir styttist á ný og veður mun kólna í framhaldi af því. Þá er líklegast að við munum sjá snjó áður en árinu lýkur. Þó er allt óvíst í þeim efnum.

Þá er líklegt að veðurfar verði töluvert til umræðu á árinu, sérstaklega meðal eldra fólks.

Íþróttir

Íslenskir íþróttamenn munu margir ferðast til suðurhluta Evrópu og heimsækja sögufrægan stað. Ég sé fyrir mér mikinn áhuga á þessu ferðalagi íslensku íþróttamannanna – og jafnvel finnst mér líklegt að útlenskir íþróttamenn munu fara að fordæmi Íslendinganna og heimsækja þennan stað.

Þar mun fara fram margs konar keppni og finnst mér líklegt að árangur Íslands verði mjög góður – og mörgum mun finnast hann ótrúlegur miðað við fámennið hér á landi.

Mér finnst líklegt að nýkjörinn íþróttamaður ársins verði í sviðsljósinu í sumar og félagar hans í handboltalandsliðinu. Gengi liðsins verður gott á köflum og gæti mikil stemmning myndast í kringum leiki liðsins.

Um það bil þegar öll þjóðin verður komin á yfirsnúning þá gæti gengi liðsins þó farið hrakandi og munu margir segja að það sé alveg dæmigert fyrir Íslendinga að um leið og það fari að ganga vel þá séu gerðar ósanngjarnar kröfur.

Við þetta munu allir sættast á þann árangur sem næst, og sjá eftir því að hafa látið sig dreyma um raunverulega sigra. Því munu flestir á endanum telja árangurinn mjög góðan, sama hver hann verður – í raun ótrúlegan miðað við fámennið hér á landi.

Ég skynja mikla spennu í kringum landslið kvenna í knattspyrnu og mér finnst eins og almenningur muni veita ákveðnum leikjum kvennalandsliðsins meiri áhuga en áður hefur verið.

Hvað varðar Íslandsmótið í knattspyrnu kvenna þá finnst mér eins og Olga Færseth gæti orðið markheppin og alls ekki ólíklegt að hún verði markahæst.

Þá sé ég vandræði í kringum einhverja leiki í Vestmannaeyjum og held jafnvel að einhverjum þeirra verði frestað – en þeir verða þó allir leiknir áður en Íslandsmótinu lýkur.

Viðskiptalífið

Ég sé fyrir mikla og stóra atburði gerast á leikvelli viðskiptanna á nýju ári – og mér finnst ekki endilega alls ólíklegt að einhverjir þeirra verði ekki alls kostar óumdeildir.

<< Hér fellur völvan í mjög djúpt trans >>

Ég sé mann með bauga undir augum og stóra bauga á baugfingri hægri handar. Maðurinn er með sítt, svart hár og mun koma mikið við sögu í íslensku viðskiptalífi á næsta ári. Aðrir sem verða áberandi í viðskiptalifinu eru líklega Kaupþingsmenn og svo feðgar sem bera sama nafn en ég kem ekki alveg fyrir mig hvaða nafn þeir bera. Ég sé þó fyrir mér fögur fley og lævísa lyfjan sem tengist þeim á einhvern hátt.

<< Hér kemst völvan aftur á æskilegt trans stig og heldur því út viðtalið >>

Mér finnst ég skynja einhvern óróleika í kringum sparisjóðina í byrjun ársins. Og hugsanlega munu aðrar bankastofnanir einnig vera í fréttunum; þó ekki endilega allar í einu. Mér finnst líka eins og vextir verði í umræðunni.

Annars finnst mér eins og það geti verið að árið verði býsna gott hjá flestum fyrirtækjum í Kauphöllinni sem munu skila hagnaði og ganga vel í rekstri. Eins finnst mér ég sjá það fyrir að það verði hugsanlega ekki alveg eins gott þeim fyrirtækjum sem verða rekin með tapi. Þetta er óvenjuskýrt finnst mér.

Ég sé líka fyrir mér hugsanlega kjarasamningagerð á næsta ári.

Fræga fólkið

Umtalsverðar breytingar eru fyrirsjáanlegar á högum ríka og fræga fólksins. Sumt ríka fólkið gæti orðið frægt á meðan eitthvað af fræga fólkinu gæti hugsanlega orðið ríkt. Þá finnst mér ekki endilega ósennilegt að í einhverjum tilvikum kunni þetta tvennt að fara saman.

Á árinu mun Kristinn H. Gunnarsson stíga það gæfuspor að hætta rökræðum við aðra en sjálfan sig og Gunnar Smári Egilsson verður valinn No-Name andlit ársins. Ég gæti trúað að hann yrði stundum í spjallþáttum í fjölmiðlum. Þá mun Guðlaugur Þór Þórðarson ekki birtast nema í þriðja hverju tölublaði af Séð og Heyrt á árinu, og Katrín Júlíusdóttir mun komast í fjölmiðla fyrir eitthvað sem tengist á einhvern hátt stjórnmálum.

Af sparnaðarástæðum fer annað bindið af skáldverki Hannesar Hólmsteins beint í kilju. Kiljan verður metsölubók.

Fjalar Þorgreirsson og Heimir Karlsson verða enn stressaðri og stífari í framkomu og fastlega má búast við því að í framhaldinu verði þeir gestaspyrlar í Pressukvöldi á RÚV.

Fulltrúar karlahóps Femínistafélagsins verða uppteknir í frisbí og koma lítið við sögu en staðalímyndarhópur félagsins fær á sig þann stimpil að hafa of staðlaða ímynd. Við þetta verður stofnaður staðalímyndahópahópur.

Alþjóðamál

Ég gæti trúað því að Evrópusambandið muni hugsanlega stækka á árinu og að einstaka Evrópulúði á kreml.is muni veita því eftirtekt og birta grein um áhrif þess atburðar á stöðu Íslands.

Töluvert verður um átök í heiminum á árinu. Mér finnst ekki ósennilegt að átökin muni að mestu eiga sér stað í fátækum ríkjum.

Mér finnst eins og að Bandaríkjamenn gætu haft einhver afskipti af utanríkismálum á árinu og er líklegt að sitt muni sýnast hverjum um þau afskipti. Hugsanlega verða mótmæli vegna þessara aðgerða, ef til þeirra kemur, sem er ekki mjög ólíklegt.

Ég spái því að á árinu verði haldnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þær gætu fengið töluverða athygli fjölmiðla, ekki aðeins vestan hafs heldur um allan heim. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að sonur fyrrum forseta bjóði sig fram í þessum kosningum og gæti hann jafnvel haft sigur.

Þó gæti verið að frambjóðandi frá öðrum flokki nái einnig ágætis árangri og gæti hugsanlega jafnvel slegið forsetasyninum við.

Þá telur völvan líklegt að vinstrimenn vinni nokkra sigri í einstaka sveitastjórnarkosningum í Suður-Ameríku. Munu þeir sigrar hugsanlega hljóta athygli íslenskra róttæklinga og gætu hugsanlega orðið tilefni margra hnyttinna endursagna af www.internationalsocialist.org sem birtast munu reglulega á murinn.is.

Stjórnmál og fjölmiðlar

Mikilla tíðinda gæti verið að vænta í stjórnmálum á Íslandi á næsta ári.

Hugsanlega mun Davíð Oddsson láta umdeild ummæli frá sér fara og ekki er óhugsandi að um þau verði fjallað í Fréttablaðinu. Ekki er þó víst að Morgunblaðið geri þeim skil, að minnsta kosti gæti ég trúað því að einhver blæbrigðamunur verði á umfjöllun Morgunblaðsins annars vegar og DV hins vegar. Við þetta verður engin umræða um áhrif eigenda – eða annarra – á ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins.

Þá finnst mér eins og Sigmar Guðmundsson í Kastljósinu verði ennþá harðari í horn að taka á næsta ári og hugsanlega muni það enda með ósköpum – hugsanlega með líkamlegu ofbeldi þegar hann knýr gróðapunga og stjórnmálaskoffín um svör.

Annars spái ég því að miklar vangaveltur geti hugsanlega orðið um fyrirætlanir forsætisráðherra en þær gætu þó að einhverju leyti skýrst að hluta þegar nokkuð er liðið á árið. Ólíklegt, en ekki útilokað, verður að teljast að embættið verði lagt niður í núverandi mynd.

Hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar almennt finnst mér ég skynja að þar gæti hugsanlega orðið einhver órói – og ég útiloka ekki ungliðahreyfinguna í því sambandi, þótt ekkert verði fullyrt á þessari stundu.

Stríðs- og kirkjumálaráðherrann mun leggja áherslu á aukna þjálfun íslenskra sérsveitarmanna og ekki er ólíklegt að hann muni hugsanlega sækja ráðstefnur um öryggis- og varnarmál í útlöndum. Þá er ekki ólíklegt að hann fjalli um þær ráðstefnur á heimasíðu sinni.

Landbúnaðar og fornaldarmálaráðherrann mun vekja kátínu á árinu. Gunnar Birgisson gæti lagt til að banni á rjúpnaveiði verði aflétt. Dagný Jónsdóttir mun halda áfram í hugsjónapólitík, Ágúst Ólafur Ágústsson verður hugsanlega uppnefndur á Andríki og Sigurður Kári Kristjánsson gæti á ný fengið heimild til að stjórna einhvers konar véltækjum.

Ég sé fyrir mér ákveðinn óróa í Samfylkingunni og finnst einhvern veginn eins og ákveðin fjarlægð geti skapast á milli formanns og varaformanns.

Ísland mun ekki gera árás á Færeyjar á þessu ári. Íslensk stjórnvöld munu hugsanlega samt sem áður ekki taka illa í að tiltekin ríki hlutist til í málefnum annarra ríkja með vopnuðum árásum og hernámi.

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)