Allt lagt í sölurnar

Slysið um borð í geimferjunni Columbiu fyrr á þessu ári, og eins sprengingin í Challenger, eru þörf áminning um að vísindi og framfarir eru ekki áhættulaus. Þótt fórnir geimfaranna séu augljósar eru fjölmargir aðrir sem hafa fórnað sér í þágu vísindanna, hvort sem er beint eða óbeint.

Sagt hefur verið að Arkímedes hafi verið sá fyrsti til að deyja fyrir vísindin. Hann á að hafa neitað að standa upp frá rúmfræðimyndum sínum þegar rómverskan hermann bar að og drap hermaðurinn hann fyrir ógreiðviknina.

Rúmfræðin hefur þó aldrei talist til hættulegustu vísindagreinanna. Og þótt ýmsir hafi þurft að deyja fyrir skoðanir sínar, jafnt vísindalegar sem aðrar, þá kynnu sumir að halda því fram að þar væri ekki um „hreina“ vísindalega fórn að ræða. Allt öðru máli gegnir um líffræði og sjúkdóma. Á tuttugustu öldinni létust nokkur hundruð vísindamanna, einvörðungu vegna smits sem þeir urðu fyrir á rannsóknarstofum. Mun fleiri smituðust á vettvangi. Einna þekktastur þeirra vísindamanna sem hafa þurft að gjalda fyrir rannsóknir sínar á sjúkdómum var Ignaz Semmelweis, sem var einn ötulasti baráttumaður fyrir handþvotti á sjúkrahúsum. Hann skrámaðist á hendi við skurðaðgerð og lést í kjölfarið af völdum sýkingar.

Eðlisfræðin á líka sinn skerf af píslarvottum. Marie Curie afhjúpaði ásamt eiginmanni sínum leyndardóma geislavirkni og hlaut alþjóðlega viðurkenningu á sínu sviði. Hún lést af völdum hvítblæðis árið 1934. Við vitum nú það sem hún vissi ekki, að geislavirkni veldur alvarlegum frumuskemmdum og krabbameini.

Einhvern stærsta tollinn hafa þó könnunarferðir tekið. Magellan, sem oft er talað um að hafi fyrstur siglt umhverfis jörðina, átti ekki slíku láni að fagna í raun. Leiðangur hans komst reyndar alla leið, en hann týndi lífi á leiðinni, ásamt 250 af þeim 270 mönnum sem lögðu af stað.

Robert F. Scott týndi lífinu á leið heim af Suðurpólnum, ásamt öllum leiðangursmönnum. Þeir höfðu náð þangað aðeins mánuði á eftir Roald Amundsen, sem komst þangað fyrstur manna. Amundsen komst klakklaust til baka, en týndi síðar lífinu í flugslysi nyrst í Norðursjónum. Hann var þá að reyna að bjarga félaga sínum sem hafði verið að gera tilraunir með loftbelgsflug á Norðurheimskautasvæðinu.

Landkönnuðir nútímans, geimfararnir, fylgja í fótspor fyrri tíma hetjanna. Mannaðar ferðir Appollo geimferðaáætlunarinnar voru alls 11 talsins. Af þeim 11 endaði ein (Appollo 1) í stórslysi þar sem allir geimfararnir þrír létust, og í annarri munaði ekki nema hársbreidd (Appollo 13). Af rúmlega 100 geimskutluferðum bandaríkjamanna hafa tvær (Challenger og Columbia) endað í stórslysi og í bæði skiptin hafa allir týnt lífi.

Engu að síður er haldið áfram og undirbúningur fyrir næstu geimskutluferðir er í fullum gangi. Píslarvottar vísindanna vita fullvel hvaða áhættu þeir taka og halda áfram rannsóknum sínum fram í rauðan dauðann, jafnvel lengur. Antoine Lavoiser, sem meðal annars uppgötvaði súrefnið, var dæmdur til dauða í frönsku byltingunni, að hluta til vegna vísindaritdeilu við samtímamann sinn. Hann var tekinn af lífi með fallöxi, en hafði áður tilkynnt vinum sínum að hann myndi blikka augunum eins lengi og hann gæti, til að kanna hversu langan tíma það tæki hann að deyja. Hann blikkaði augunum í 15 sekúndur eftir að höfuðið var skilið frá búknum.

Ein af síðustu dagbókarfærslum Scott, frá pólferðinni afdrifaríku, myndi sóma sér ágætlega sem einkunnarorð þessara píslarvotta: „Við tókum áhættu, og við vissum að við tókum áhættu. Þótt gæfan hafi ekki verið okkur hliðholl að þessu sinni, höfum við því enga ástæðu til að kvarta.“

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)