Ertu til í að gera mér greiða?

Fyrir nokkru hlaut Esther Duflo nóbelsverðlaunin í hagfræði, fyrir brautryðjandi rannsóknir á sviði tilrauna- og þróunarhagfræði. Það er ótrúlegt afrek og því þótti ýmsum miður hve hlutfallslega stór hluti umfjöllunarinnar, sérstaklega í upphafi, virtist snúa að því að hún væri eiginkona eiginmanns síns, Abhijit Banerje, sem vissulega er hagfræðingur og vissulega hlaut nóbelsverðlaunin á sama tíma og hún.

Fyrir nokkru hlaut Esther Duflo nóbelsverðlaunin í hagfræði, fyrir brautryðjandi rannsóknir á sviði tilrauna- og þróunarhagfræði. Það er ótrúlegt afrek og því þótti ýmsum miður hve hlutfallslega stór hluti umfjöllunarinnar, sérstaklega í upphafi, virtist snúa að því að hún væri eiginkona eiginmanns síns, Abhijit Banerje, sem vissulega er hagfræðingur og vissulega hlaut nóbelsverðlaunin á sama tíma og hún.

Þegar sigurganga Hildar Guðnadóttur var að hefjast og fjölmiðlar voru að átta sig á að hér væri um eitthvað algerlega óvenjulegt á ferðinni urðu líka sumir til að beina athyglinni í fyrstu að því að hún hefði unnið mikið með Jóhanni Jóhannsssyni, og undirtónnin hvort þessi árangur væri hugsanlega afrakstur „innblásturs“ karlmannsins sem hún hafi unnið svo mikið með.

Sú tilfinning að árangur kvenna sé um of eignaður karlmönnum í þeirra tengslaneti er sterk þessa dagana, og kristallaðist í eftirminnilegu atriði í Áramótaskaupinu þegar Katrín Jakobsdóttir var kölluð „konan hans Gunna Sigvalda“ af þónokkuð karllægum fréttamanni. En er þessi tilfinning eitthvað sem á sér bara uppruna í þjóðarsál dagsins í dag, eða er þetta mynstur sem hægt er að skrásetja á kerfisbundinn hátt?

Þótt nákvæmlega þessi tilvik hafi ekki verið greind í ritrýndum rannsóknum, eru til fjölmargar rannsóknir á mati karla og kvenna á smærri framlögum eftir kynjum. Ein af áhugaverðari slíkum rannsóknum fjallar um greiðvikni. Í þeirri rannsókn voru þátttakendur látnir lesa stutta sögu um hvernig tiltekin persóna í sögunni gerði öðrum aðila greiða. Síðan voru þeir spurðir hvort sá sem hefði þegið greiðann skuldaði greiða á móti.

Ef greiðinn var unninn af karlmanni, voru bæði karlar og konur sem lásu söguna líklegri til að segja að við greiðan hefðu stofnast væntingar um að hann yrði endurgoldinn síðar. Þegar sá greiðvikni var settur í líki karlmanns þótti lesendum annars vegar að sá sem þáði greiðann væri líklegur til að gera ráð fyrir að endurgjalda hann síðar. Þeim þótti líka líklegra að sá greiðvikni hefði að hluta til gert greiðann með endurgjald í huga og ætlaðist til að fá greiða á móti. Greiðviknar konur, aftur á móti, voru líklegri til að hafa gert greiðann af einskærri manngæsku og hjálpsemi (að mati þátttakenda), og ekki ætlast til að fá greiða á móti.

Slíkur kerfisbundinn munur er óheppilegur og væri gott að breyta honum, eftir því sem hægt er. En viðhorf á borð við það sem að ofan er lýst valda því líka að karlar og konur sem stunda greiðvikni og fá greiða á móti þurfa að taka tillit til viðhorfanna við leik og störf.

Eitt af því sem getur reynst nauðsynlegt er því að þegar konur gera (körlum eða öðrum konum) greiða er að vera opinskárri um að þær ætlist til endurgjalds, og að þetta sé hluti af víðara samstarfi þar sem allir ættu að vera að hjálpa öllum. Virði tengslanets er nefnilega lítið ef greiðar flæða aðeins í aðra áttina.

Það er alveg öruggt að Abhijit Banerjee hefur gert eiginkonu sinni greiða, í formi aðstoðar og hugmynda, rétt eins og hún hefur gert honum sambærilega greiða. Hildur Guðnadóttir og Jóhann Jóhannsson hafa líka eflaust skipst á ótal greiðum, aðstoð og innblæstri í þeirra samvinnu. Það er vonandi að þeir Abhijit og Jóhann hafi kunnað að meta greiðvikni samstarfskvenna sinna og áttað sig á að slík greiðvikni er hluti af starfinu, en ekki eitthvað sem menn eiga bara að segja takk við og brosa.

Og fyrir þá sem horfa á slíkt samstarf milli snillinga af báðum kynjum er líka rétt að hafa í huga að þegar athyglinni er ósjálfrátt beint að karlinum er í raun verið að falla í sömu gryfju og þátttakendur í rannsókninni féllu í, að gera ráð fyrir að konan hafi ekki verið fullur meðlimur í samstarfinu heldur hafi hennar framlag bara samanstaðið af þúsund litlum greiðum við teymið, sem óþarfi sé að velta sérstaklega fyrir sér.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)