Bambustannburstar til bjargar?

Við stöndum frammi fyrir risaáskorun í formi hnattrænnar hlýnunar. Næstu ár munu snúast um hvernig við brjótum þessa risastóru áskorun í bita sem hægt er að takast á við. Hver biti þarf að vera nógu lítill til að okkur fallist ekki hendur en samanlagt þurfa þeir að vera nógu stórir til að hafa áhrif á grunnáskorunina, sem er að halda gróðurhúsalofttegundum innan þeirra marka að hnattræn hlýnun verði undir 1,5°C og súrnun sjávar leiði ekki til óafturkræfs hruns á lífríki hafsins. Svona vandamál hafa stundum hefur verið kennd við að borða fíl.

Síðastliðinn föstudag hélt Andri Snær Magnason opnunarfyrirlestur í Kveikju, nýju námskeiði í samfélagslegri nýsköpun fyrir grunnema í Háskóla Íslands. Í námskeiðinu hittust nemendur úr mismunandi greinum, fólk úr atvinnulífinu, og fólk eins og Andri sem hefur djúpan skilning á loftslagsáskoruninni – hvernig á að borða fíl. Andri Snær lagði áherslu á viðhorfsskipti (e. paradigm shift), grundvallarbreytingu á því hvað þætti mikilvægt í þjóðfélaginu. Hann tók fram að margt benti til þess að slík breyting væri í raun og veru að eiga sér stað og að umhverfisáskorunin væri ekki lengur það síðasta sem hugað væri að í hverju verki, heldur það fyrsta.

Við erum samt enn að reyna að fóta okkur í þessum nýja heimi því það eru svo margir girnilegir smáréttir á gnægtaborði umhverfisáskorunarinnar. Sala á bambustannburstum hefur til dæmis tvöfaldast á örfáum árum, og í sjálfu sér ekkert að því að notast við tannbursta sem getur endað á moltuhaugnum í stað þess að hann sé brenndur í öreindir sínar í Svíþjóð með hinu plastinu okkar. Umhverfisáhrifin eru eflaust jákvæð af því að fara í þessi skipti, en hættan er að með því að einblína á auðvelda hluti teljum við okkur trú um að við séum búin að standa okkar plikt. Svo hendum við bambustannburstanum í ferðatöskuna okkar á leið í flugferðina til Kanarí eða Austurríkis í vetrarfríinu, og leiðum hjá okkur þau margföldu umhverfisáhrif sem flugið sjálft hefur.

Samanburðurinn á bambustannbursta og millilandaflugi er auðveldur, en í baráttunni við hnattræna hlýnun eru margar spurningar sem eru mun áleitnari og erfiðari. Ein sú stærsta er spurningin um hvort eðlilegra er að meta útblástur gróðurhúsalofttegunda sem fellur til við framleiðslu vara eða við neyslu þeirra. Ýmis fyrirtæki og jafnvel heilu borgirnar hafa tekið upp það markmið að verða kolefnishlutlausar á næstu árum. Í borg sem er með lítinn staðbundinn útblástur, skilvirkar almenningssamgöngur og þjónustudrifið nýsköpunarhagkerfi í stað framleiðslu er aðlaðandi að kaupa dálitla kolefnisjöfnun og íbúarnir verði þá „stikkfrí“ frá kolefnisumræðunni. Allar höfuðborgir Norðurlanna utan Íslands eru einmitt meðlimir í CNCA samtökunum sem stefna að því að komast eins nálægt þessu marki og hægt er á næstu árum.

En þótt útblástur í borgunum sjálfum verði lítill, munu þær samt flytja inn stál, ál, sement, og matvæli sem hafa verið framleidd annars staðar með tilheyrandi umhverfisfótspori. Hver ber ábyrgð á kolefnisfótspori álsins í léttlestakerfinu – Evrópska snjallborgin þar sem lestirnar aka um eða Kínverska iðnaðarborgin þar sem álið er framleitt? Til að við getum „reiknað rétt“ í uppgjörinu við náttúruna verðum við að svara slíkum spurningum og tryggja að allir hafi sama skilning á því hvaða þættir eru hluti af kolefnisfótspori einstakinga, fyrirtækja, borga og þjóða. Sérfræðingar hafa þar stórt hlutverk, en við, almenningur, getum ekki bara beðið um að einhver annar finni út úr þessu, heldur þurfum við að lesa okkur til, kenna aðferðafræðina í skólum, og rökræða hvert við annað. Það er mikið verk, og ekki seinna vænna að hefjast handa.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)