Heim í heiðardalinn

Heim í heiðardalinnÁ undanförnum áratugum hafa orðið mjög miklar breytingar í byggðum landsins þegar fólk hefur flutt úr sveitunum á mölina. Átthagafélög hafa meðal annars séð til þess að brottfluttir haldi sambandi við gamla sveitarfélagið. En hversu lengi er hægt að tala um að einhver komi frá einhverjum stað?

Heim í heiðardalinnÍslendingar hafa verið manna duglegastir að rekja ættir sínar, finna hvaðan forfeður þeirra komu og hvaða merkilega fólk er í ættum þeirra. Einn þáttur sem þessu hefur tengst eru hin svokölluðu átthagafélög.

Átthagafélögin standa yfirleitt fyrir margvíslegum skemmtunum í heimabyggðinni, þar sem brottfluttum og ættingjum þeirra er safnað saman, ásamt áhugasömu fólki um viðkomandi byggð. Fjölmargar slíkar skemmtanir hafa verið haldnar í sumar og hafa þær glætt bæina miklu lífi. Sum félaganna hafa jafnvel tekið þátt í fjármögnun og uppbyggingu á starfsemi á viðkomandi stöðum.

Á veturna hafa þessi félög staðið fyrir miklum skemmtunum í Reykjavík, þar sem gamlir sveitungar hittast og rifja upp sögur úr gamla sveitarfélaginu og segja börnunum og barnabörnunum skemmtilegar sögur af eftirminnilegum einstaklingum.

Um daginn var viðtal við afa sem var á ferð á Suðureyri með barnabörnin, en afinn ólst upp á Suðureyri og taldi sig til Súgfirðings. Ekki nóg með það heldur taldi hann barnabörnin sín jafnframt til Súgfirðinga, þrátt fyrir að þau hefðu alið allan sinn mann í Reykjavík og höfðu ekki önnur tengsl við Suðureyri en að fara þangað hugsanlega einu sinni á ári með afa sínum.

Reglulega er undirritaður spurður hvaðan hann kemur og er það alltaf sama vandamálið að svara þessari spurningu. Á að segja Reykjavík því það er fæðingarstaðurinn og búsetan? Á að segja Reykjavík og Kópavogi/Vestmannaeyjum því þaðan koma foreldrarnir, eða á jafnvel að segja frá Vestmannaeyjum, Vestfjörðum, úr Eyjafjarðarsveit og Breiðdal því forfeðurnir eru þaðan?

Niðurstaðan hefur alltaf verið sú að nota fæðingarstað undirritaðs og telja annað ekki fram, enda lítil tengsl við aðra staði. Að sjálfsögðu þarf hver og einn að finna sinn uppruna og ráða þá væntanlega tengsl við viðkomandi stað mestu um hvaðan fólk telur uppruna sinn vera.

Fyrir utan að teljast til Reykvíkinga hefur undirritaður þrengt þetta nánar niður í Grafarvoginn.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.