Enn hallar á tónlistarfólk

TónlistarkennslaTónlistarnemar á framhalds- og háskólastigi, sem stundað hafa nám við tónlistarskóla í Reykjavík en eiga lögheimili annars staðar á landinu, fá ekki að halda áfram námi í Reykjavík nema sveitarfélag viðkomandi ábyrgist greiðslu kostnaðar sem af náminu hlýst. Það hlýtur að vera kominn tími til kominn að tónlistarnám sé tekið alvarlega.

TónlistarkennslaÍ Fréttablaðinu í gær á blaðsíðu 8 var sagt frá því að tónlistarnemar á framhalds- og háskólastigi, sem stundað hafi nám við tónlistarskóla í Reykjavík en eigi lögheimili annars staðar á landinu, fái ekki að halda áfram námi í Reykjavík nema sveitarfélag viðkomandi ábyrgist greiðslu kostnaðar sem af náminu hlýst. Forsvarsmenn sveitarfélagana neiti hins vegar að borga kostnaðinn á þeim forsendum að ekki sé í verkahring sveitarfélaga að niðurgreiða nám á framhalds- og háskólastigi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður tekur eftir að halli á tónlistarfólk hér á landi, hvort sem um er að ræða nema eða atvinnufólk. Fyrir nokkrum árum fóru tónlistarkennarar í verkfall til að krefja fram launahækkun og lengi virtist sem enginn sæi ástæðu til að koma til móts við þá í kröfum sínum eða sýna nokkurn samningsvilja. Ekki er laust við að læðst hafi að manni þær hugsanir að takmörkuð virðing væri borin fyrir tónlistarkennurum.

Tónlistarnemar eru, ekki síður en aðrir nemar á framhalds- og háskólastigi, að undirbúa sig fyrir framtíðina. Margir hverjir eru að undirbúa sig fyrir sitt ævistarf. Þeirra undirbúningur felst í áralangri, þrotlausri vinnu, oft og tíðum allt frá barnsaldri og má segja að flestir þeirra stundi, a.m.k. fram að framhaldsskólastigi, tvöfalt nám. Það dytti líklega engum í hug að tilkynna ungum Seltirningum eða Garðbæingum að þeim væri ekki lengur heimilt að stunda nám í framhaldsskólum Reykjarvíkurborgar. Af hverju gildir annað um tónlistarnám? Það er kominn tími til að tónlistarnám verði tekið alvarlega.

Þrátt fyrir að Íslendingar séu fámenn þjóð höfum við hér á þessu skeri getað státað okkur af afar blómlegri menningu. Þar hefur tónlistin ekki síst verið mikilvæg. Ísland getur státað af mörgum framúrskarandi tónlistarmönnum og er þá ekki einungis verið að tala um nöfn eins og Björk, SigurRós eða Kristján Jóhannsson. Sem dæmi má nefna að það er varla til sá stjórnandi sem kynnst hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands sem ekki hefur lofað hana í hástert. Margir þeirra hafa einnig haft orð á því hversu stórkostlegt sé að lítið land eins og Ísland skuli eiga sinfóníuhljómsveit á heimsmælikvarða.

Að stunda tónlist er starf eins og hvert annað starf. Nei – e.t.v. ekki eins og hvert annað starf þar sem það krefst þess að aðrir njóti. Tónlistarmenn vinna og við njótum. Ef við Íslendingar viljum hins vegar halda í þennan fjársjóð sem við eigum, rækta hann og hlúa að honum væri réttast að staldra við stundarkorn en helst af öllu snúa við og gera tónlistarnámi jafnhátt undir höfði og öðru námi. Það yrði til þess að tryggja að við sjálf og aðrir fáum að njóta og viti menn – Ísland mun njóta góðs af!

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)