Fjórtán, bráðum fimmtán – Hugleiðingar um bjórinn!

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem þykir bjór ákaflega bragðgóður og svalandi. Fátt veit maður betra en að fá sér einn, tvo jafnvel þrjá kalda eftir langan og strangan vinnudag. Einhvern veginn finnur maður streytu dagsins og áhyggjurnar sem fylgja amstrinu renna af manni jafnharðan og maður teygar þessa gullnu blöndu humla og gers.

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem þykir bjór ákaflega bragðgóður og svalandi. Fátt veit maður betra en að fá sér einn, tvo jafnvel þrjá kalda eftir langan og strangan vinnudag. Einhvern veginn finnur maður streytu dagsins og áhyggjurnar sem fylgja amstrinu renna af manni jafnharðan og maður teygar þessa gullnu blöndu humla og gers.

Í gærkvöldi, [þ.e. 26. febrúar, nánar tiltekið kl. 19:11], þegar þetta var ritað, langaði pistilhöfund ákaflega mikið í svona eins og einn til tvo bjóra til að skola þessum annars mæðuþrungna miðvikudegi niður. Slagveðrinu sem gengið hafði yfir landið allt frá jólum hafði loksins slotað og m.a.s. smá sólarglætu var að sjá á himni. Loftið var hlýtt og ekki var laust við að vorfnyk legði í vit manna, þó eflaust hafi veðurguðirnir ekki sungið sitt síðasta þennan veturinn. Aðstæður gærkvöldsins hreinlega öskruðu á kaldan bjór.

Í ísskáp pistilhöfundar var hins vegar ekki annað að finna en einmana papriku innan um hálftómar krukkur af alls kyns sósum. Þá voru góð ráð dýr. Ekki var hægt að stökkva út í búð og fjárfesta í eins og einni kippu af bjór sökum úreltrar löggjafar. Vínbúð(TM) ÁTVR er ekki opin lengur en til 18 á miðvikudögum og ekki má selja bjórinn neins staðar annars staðar. Hinn möguleikinn í stöðunni var ferð á eina af knæpum miðborgarinnar. Slík ferð mynda kosta heljarinnar fjárútlát. Stór bjór af krana, á velflestum börum borgarinnar, kostar 600 kr. í dag. Þetta er einfaldlega allt of hátt verð fyrir einn “stóran”. Eðlilegt verð gæti verið á bilinu 3-400 kr. en ekki meira en það. Áfengisgjaldið og álagning heildsalans réttlæta að mati pistilhöfundar ekki þetta háa verð. Áfengisgjald af hálfum lítra af 5% bjór er rétt tæpar 73 kr. og álagning heildsalans miðað við útsöluverð úr ÁTVR er líklega svipuð krónutala. Það er því ljóst að veitingasalinn hefur töluvert svigrúm til að lækka hjá sér bjórverðið.

1. mars næstkomandi eru fjórtán ár liðin frá því að sala bjórs var aftur lögleidd á Íslandi. Síðan þá hefur lítið breyst. ÁTVR er enn með einkasölu á áfengi og bjórinn er enn rándýr, jafnt á bar sem í Vínbúð(TM). Mikið væri það nú gott að á fimmtán ára afmæli bjórsölunnar, að ári liðnu, gæti maður rölt út í 10 11 og keypt sér eina kippu og skálað fyrir afmælisbarninu. Til að það verði mögulegt er nauðsynlegt að þeir sem munu sitja næsta Alþingi Íslendinga taki á þessu máli. En þangað til skora ég á eigendur veitinga- og skemmtistaða hér í borg að lækka verðið á bjórnum. Við Íslendingar, sem og ferðamenn hér á landi, þurfum hreinlega á því að halda að geta skolað niður skammdeginu á sómasamlegu verði.

Skál!!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)