Græðgi eða öfund?

Launakjör Sigurðar Einarssonar, forstjóra Kaupþings hafa verið milli tannanna á fólki undanfarna daga, og sýnist sitt hverjum. Mörgum þykja bónusgreiðslur upp á tæpar 70 milljónir bera vott um sívaxandi græðgi peningamannanna, en þeir eru líka margir sem eru fljótir til að verja þessi kjör, og saka þá einfaldlega um öfund sem andmæla þessum greiðslum.

Þegar launakjör Sigurðar Einarssonar eru til umræðu meðal harðra frjálshyggjumanna eru tveir frasar fljótir að skjóta upp kollinum og eiga að binda endi á alla umræðu. Í fyrsta lagi er sú kenning að allir sem gagnrýna háar launagreiðslur þjáist af öfundsýki á háu stigi. Hins vegar er imprað á því að þetta fólk kunni nú greinilega enga hagfræði, það haldi greinilega að enginn geti grætt nema einhver annar tapar.

Báðar þessar röksemdir eru ætlaðar til þess að gera lítið úr þeim sem gagnrýnir, ekki til að verja greiðslurnar. Auðvitað eru einhverjir sem gagnrýna slíkar greiðslur af hreinni öfund, og hvað varðar hugmyndina um að enginn geti grætt öðru vísi en að annar tapi er hún augljós fjarstæða.

En það þýðir ekki að fyrirtæki sem greiða slíkar upphæðir til stjórnenda sinna eigi að vera hafin yfir gagnrýni. Hugmyndin með árangurstengdum launum er að hvetja stjórnendur til að vinna með hag fyrirtækisins í huga, en ef stjórnendum er greitt meira en nauðsynlegt er til að hvetja þá til dáða er ljóst að þeir peningar renna ekki til hluthafa fyrirtækisins, sem tapa þá á ráðahaginum (eða græða a.m.k. ekki jafn mikið og þeir ættu að gera).

Félag fjárfesta er meðal þeirra sem sett hafa spurningamerki við þessar greiðslur, einmitt á þessum forsendum. Smærri fjárfestar hafa ekki notið mikillar verndar á íslenskum hlutafjármarkaði og það er gott að félagsskapur þeirra sýni nú ákveðna viðleitni til eftirlits fyrir hönd hins almenna hluthafa.

Annað atriði sem eðlilegt er að velta fyrir sér er hvernig árangurinn er mældur. Því miður var það ekki gefið upp, en miðað við atburði undanfarins árs virðist líklegt að yfirtökusnúningar liðins árs Kaupþings sé að hluta til orsök þess að Sigurður fær jafnháar greiðslur og raun ber vitni. Eðlilegt er að hinn almenni hluthafi hugleiði hvort þessi stækkun sé einnig afleiðing af því hvernig samið var við Sigurð í upphafi og hvort slíkar sameiningar séu besta leiðin til að tryggja framtíðarverðmæti hlutabréfa fyrirtækisins. Afkoma JP Nordiska hefur að undanförnu verið undir væntingum, og þótt skemmtilegra sé að stýra stóru fyrirtæki en litlu skiptir hagnaðurinn meira máli fyrir hluthafana, og þá sérstaklega hina smærri.

Forsætisráðherra hefur einnig séð ástæðu til að gagnrýna kaupauka Sigurðar. Sú gagnrýni er óheppilegri og ekki til þess fallin að draga úr áhyggjum almennings af flokkadráttum í viðskiptalífinu. Það er erfitt að sjá hvers vegna forsætisráðherra telur þörf á því að tjá sig sérstaklega um ráðningarsamninga Kaupþings. Ofan úr stjórnarráði hefur ekki heyrst hávær gagnrýni á kjör Kára Stefánssonar eða Björgúlfsfeðga.

Það má heldur ekki gleyma því af hverju kjör Sigurðar eru til umræðu. Ástæðan er sú að Kaupþing er eitt af sárafáum fyrirtækjum sem er skyldað til að sundurliða laun æðstu stjórnenda, vegna skráningar á markaði í Svíþjóð. Ítarlegar upplýsingar og sundurliðanir er að finna í ársreikningi félagsins og er það mikið fagnaðarefni. Launakjör æðstu stjórnenda í öðrum skráðum fyrirtækjum eru trúnaðarupplýsingar sem almennir hluthafar hafa ekki aðgang að.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst málið um það hvort þessar 70 milljónir séu nauðsynlegar að halda Sigurði við efnið. Sumum finnst kannski að þetta hljóti að vera ofrausn enda nægi þær 12 milljónir sem hann hefur í föst laun bæði fyrir afborgunum af íbúð og bíl. En ef bornar eru saman árstekjur Sigurðar sem starfsmanns hjá Kaupþingi og þremenninganna sem ákváðu að stofna bjórverksmiðju í Rússlandi, hljóta 70 milljónir að teljast ansi lítill biti, því nærri má geta að hver þremenninganna hafi hagnast um milljarð á hverju ári, þann tíma sem þeir voru í Rússlandi.

Kjör þau sem æðstu stjórnendum eru boðin hljóta óhjákvæmilega að ráðast af því hvaða möguleika þeir hafa til að afla tekna annars staðar. Þótt laun Sigurðar séu há á Íslenskan mælikvarða eru þau ekki há í alþjóðlegu samhengi. Án þess að dómur sé lagður á ráðningarsamning Sigurðar sérstaklega, er ljóst að alþjóðleg samkeppni mun neyða íslensk fyrirtæki í auknum mæli til að bjóða alþjóðleg launakjör fyrir æðstu stjórnendur, hvort sem almenningi, eða hluthöfum, líkar betur eða verr.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)