Skærasta tennisstjarna heims heldur uppteknum hætti

Skærasta tennisstjarna heims bregst ekki aðdáendum sínum frekar en fyrri daginn. Heimspressan stóð á öndinni þegar Anna Kournikova drullutapaði í 1. umferð Opna ástralska meistaramótsins í gær – venju samkvæmt.

Örlög skærustu tennisstjörnu heims verða sífellt hryggilegri. Síðustu misserin hefur þess verið beðið með mikilli eftirvæntingu að rússeska rósin spryngi út en hún virðist nú ætla að visna áður en það gerist. Anna Kournikova, ein þekktasta, dáðasta og skærasta stjarna tennisheimsins á enn eftir vinna sigur á móti og í gær beið hún auðmýkjandi ósigur fyrir óþekktri belgískri tenniskonu á Opna ástralska meistaramótinu.

Anna náði einungis að vinna eitt sett, en úrslitin urðu 6-0 og 6-1 þeirri belgísku í vil. Þetta þýðir að rússneska rósin vann einungis fjóra bolta í öllum leiknum, sem er afar, afar lélegt. Þessi frammistaða Önnu er þó í samræmi við leik hennar síðustu mánuði og ætti ekki að koma neinum óvart. Vart verður komist hjá því að álykta sem svo að stúlkan geti hreinlega ekkert í íþrótt sinni, að minnsta kosti ekki á þeim „level“ sem hún er að keppa á.

Í pistli íþróttadeildar Deiglunnar frá 27. ágúst á síðasta ári var einnig fjallað um Önnu Kournikovu. Pistillinn bar yfirskriftina Fegurðardísin sem ekkert getur og var þar m.a. reynt að leita svara við því, hvort ímynd skipti orðið meira máli en geta þegar íþróttir eru annars vegar? Var á það bent á að Kournikova hafði þá fallið úr keppni í 1. umferð á fjórum stórmótum í röð, en væri samt alltaf fengin á öll mót og nyti mestrar athygli fjölmiðla.

Athygli fjölmiðla beindist einmitt hvað mest að Önnu Kournikovu af öllum keppendum Opna ástralska meistaramótsins. Allar virðulegustu myndaþjónustur veraldarvefjarins voru til að mynda uppfullar í gær af myndum af afturenda stjörnunnar. Þar gaf að líta dularfullan plástur og snérust spekúlerasjónir íþróttaspekúlantanna um það, hvort plástrinum væri ætlað að hylja dónalegt húðflúr eða hvort tilvist hans ætti sér eðlilegri skýringar. Íþróttadeild Deiglunnar hefur ekki komist til botns í þessu máli, og gegn staðfastri neitun ungfr. Kournikovu verða með engu móti færðar sönnur á, að undir liggi óviðurkvæmilegt húðflúr, eins og gefið hefur verið skyn. Ef myndin hér til hliðar er grannt skoðuð, má greina lítinn plástur á miðju mjóbaki tenniskonunnar og geta lesendur sjálfir fellt sinn dóm í þessu efni.

Því verður ekki á móti mælt að á ákveðinn hátt er Anna Kournikova íþrótt sinni til sóma, enda glæsilegur íþróttamaður á velli, heilbrigðið og hreystin uppmáluð. Hennar persónulega „fylgi“ í fjölmiðlaheiminum virðist einnig eiga sinn þátt í að auka vinsældir tennisíþróttarinnar í heild. Hún er því orðin eins konar lukkudýr í sportinu, svona til að koma mótinu af stað, tekur nokkrar uppgjafir og drullutapar alltaf í fyrstu umferð, lætur svo taka af sér nokkrar fínar myndir og mótið er komið í heimspressuna. Sjálf hefur hún meira upp úr módelstörfum en aðalatvinnu sinni, tennisleiknum, þannig að í raun eru allir að græða á tennisstjörnunni sem ekkert getur.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)