Útlitið svart hjá West Ham

Útlitið er svart hjá íslensku fjárfestunum í West Ham í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í alvarlegri fallhættu og verði stig dregin af liðinu vegna misferlis fyrrverandi stjórnenda er liðið svo gott sem fallið.

Kaup Björgólfs Guðmundssonar og annarra íslenskra fjárfesta á enska úrvalsdeildarliðinu West Ham United í nóvember síðastliðnum voru geysilega metnaðarfull. Því miður hefur gæfan ekki verið á bandi íslensku fjárfestanna innan vallar. Nú syrtir enn í álinn þegar félagið á yfir höfði sér frádrátt stiga vegna misferlis fyrrverandi stjórnenda þess.

Eggert Magnússon tók að sér stjórnarformennsku í félaginu og varð þar með fyrsii Íslendingurinn til að vera í forsvari fyrir knattspyrnufélag í ensku úrvalsdeildinni. Gunnar Gíslason, sem var stjórnarformaður Stoke City þann tíma sem Íslendingar áttu hlut í félaginu, var hins vegar fyrsti íslenski stjórnarformaðurinn í enska boltanum.

Alan Pardew stýrði West Ham á þeim tíma sem Íslendingarnir tóku við og lýsti Eggert því yfir að Pardew hefði fullan stuðning hjá stjórninni. Eftir ágæta byrjun seig á ógæfuhliðina og var Pardew þá látinn taka pokann sinn. Eftirmaður hans, Alan Curbishley, fór vel af stað með liðið, stýrði því til sigurs gegn toppliði Manchester United á Upton Park en frá þeim leik hefur liðið ekki unnið leik og er í mjög alvarlegri fallhættu.

Ljóst má vera að ekkert nema kraftaverk getur bjargað West Ham frá falli. Liðið er íl næstneðsta sæti deildarinnar, 9 stigum á eftir liðinu í fjórða neðsta sæti þegar tíu leikir eru eftir. Í síðustu umferð lék West Ham gegn Charlton í sannkölluðum fallslag og kom Pardew, sem nú stýrir Charlton, fram sætum hefndum á Eggerti og félögum með öruggum 4:0-sigri.

Vonir West Ham um að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni veiktust enn nú í vikunni þegar félaginu var birt ákæra frá ensku úrvalsdeildinni vegna samninga við argentínsku landsliðsmennina Carlos Tevez og Javier Mascherano. Niðurstaðan gæti orðið sú að stig yrðu dæmd af félaginu sem gæti varla þýtt annað en fall úr úrvalsdeildinni. Þetta hefur eflaust verið reiðarslag fyrir íslensku fjárfestanna og ekki kemur á óvart að félagið íhugi nú lögsókn gegn þeim stjórnendum sem ábyrgð báru á samningunum við Argentínumennina.

Fari svo að West Ham falli úr úrvalsdeildinni yrði það verulegt áfall fyrir íslensku fjárfestanna. Fótboltinn er harður heimur og fáir sem græða mikla peninga á fjárfestingum sínum þar. Án efa hafa menn tekið með reikninginn möguleikann á falli og væntanlega er til staðar áætlun um hvernig eigi að bregðast við.

West Ham er einn af stærri klúbbunum og það er geysilega merkilegt að fjárfestar frá litla Íslandi ráði þar för. Til að ráðast í slíkt verkefni þarf ekki bara fjárhagslegt afl, ástríðu og þor, heldur líka þolgæði og einurð. Þótt það kunni að hljóma kaldhæðnislega í því tilviki að illa fari, þá verðum við að vona að fall sé fararheill.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)