Einakvæðing bankanna í höfn – báknið minnkar

Vatnaskil urðu í íslenskri viðskipta- og stjórnmálasögu í gær þegar fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra undirrituðu samning um sölu á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hf. Með þessu er afskiptum ríkisins lokið á viðskiptabankamarkaði. Við þetta er ljóst að núverandi ríkisstjórn hefur tekist að minnka báknið – og það hlýtur að gleðja alla markaðssinna. En ekki eru allir sáttir um þessa stefnu og því ekki úr vegi að líta aðeins á þá þætti sem hafa áhrif á það hvort breytingin sé hagkvæm fyrir þjóðfélagið.

Líklegt er að þegar litið verður til baka og ríkisstjórnir Davíð Oddssonar lagðar á vogarskálar sögunnar muni einkavæðing ríkisfyrirtækja, og þá sérstaklega ríkisbankanna, vega þyngst. Það afrek að koma viðskiptabankakerfinu úr ríkiseign í einkaeign hefur kostað mikið þref og átök. Þessum átökum hefur lyktað með því að endanleg yfirfærsla bankanna er staðreynd og ólíklegt er að Íslendingar þurfi nokkru sinni aftur að búa við þær aðstæður að stjórnmálamenn ráði því hverjir fara með völd í þessum mikilvægu fyrirtækjum og geti því sveigt ráðstafanir þeirra í átt að pólitískum markmiðum fremur en viðskiptalegum.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur tvö markmið. Hið fyrra, og mikilvægara, er að koma rekstri samkeppnisfyrirtækja úr höndum stjórnmálamanna yfir til einkaaðila. Hið síðara er vitaskuld að losa um eignir ríkisins og greiða niður skuldir og má segja að það sé hálfgerður bónus fyrir ríkissjóð – því heildarhagræðið sem neytendur og fyrirtæki njóta með aukinni samkeppni og skynsamlegri ákvörðunum um stjórn fyrirtækjanna er vitaskuld stærsti þjóðhagslegi ávinningurinn við einkavæðinguna.

Því mætti e.t.v. segja að hægt sé að setja upp skema sem sýnir nokkur dæmi um hvort salan hafi verið hagkvæm:

Þjóðhagslegur ábati ÞÁ af sölu ríkisbankanna fyrir þjóðfélagsbúa í heild

ÞÁ = V + VV

Þar sem V er kaupverð bankans að frádregnum fórnarkostnaði. Talan V er næstum örugglega jákvæð. Gert er ráð fyrir að kaupverðið hafi verið um 50 milljarðar króna og verði að stærstum hluta notað til að lækka skuldir ríkisins.*

VV er verðmæti sem skapast við bætta stjórn, hagræðingu í rekstri, hugsanlega sameiningar, skynsamlegri lánveitingar og harðari samkeppni um viðskiptavini á bankamarkaði (sú tala getur tekið öll gildi frá mínus óendanlegt til óendanlegs, þótt líklegt sé að talan verði ekki ýkja nálægt ystu jöðrum).

Útskýring

Ef V + VV > 0 þá er augljóst að ÞÁ> 0 og þar af leiðir að einkavæðingin hefur í heild jákvæð áhrif.

Dæmi 1

Ef V < VV, eins og hér er haldið fram, þá er ljóst að ÞÁ>>0

Þar sem V er gefin sem söluverð bankanna að frádregnum fórnarkostnaði. Hingað til hafa fengist um 50 milljarðar síðan salan hófst. VV er skv. þessum forsendum miklu hærri tala og einkavæðingin því hagkvæm. Þessi kostur er jafnvel enn betri en sá sem sýndur var í dæmi 1.

Dæmi 2

Ef V > VV, sem þýðir að stærsti kosturinn við sölu bankanna sé að fá pening inn í ríkiskassann, þá getur tvennt gerst og eru sérdæmi.

i. V + VV > O => ÞÁ > 0 og bankasalan góð

eða

ii. V + VV < 0 => ÞÁ < 0 og bankasalan er óhagkvæm

Ég er í þeim hópi sem tel að af þessum breytum sé VV langstærsta talan, þótt óvíst sé að nokkru sinni verði hægt að mæla hana. Talan V er næstum örugglega jákvæð enda gert ráð fyrir kaupverðið hafi verið um 50 milljarðar króna.*

Til þess að telja áhrifin þjóðhagslega óhagkvæm er því beinlínis lagt til að við gefum okkur að rekstur ríkisbanka sé betri, að þjónusta þeirra við fyrirtæki og einstaklinga taki einkabönkunum fram og að ákvarðanir hinna eigendalausu banka, undir stjórn stjórnmálamanna, sé betri en hjá fremstu sérfræðingum sem hafa fjárhagslega og persónulega hagsmuni af því að tryggja að rekstur fyrirtækjanna sé með sem bestu móti.

Eins og sjá má í forsendum dæmisins þá er gert ráð fyrir skynsamlegri nýtingu fjármagnsins (niðurgreiðslu skulda) sem fæst fyrir bankana. Sú forsenda er auðvitað ekki gefin í pólitísku umhverfi þótt í þessu tilviki hafi verið tekin ákvörðun um þessa meðferð fjárins. Ef hins vegar V < VV þá gildir það enn að salan er þjóðhagslega til góðs - jafnvel þótt kaupverði einkavæðingarinnar yrði varið í að kaupa ógeðslega mikið af kjöti sem síðan væri brennt - en um landbúnaðarmál verður fjallað síðar. Enn eru þó verk óunnið í einkavæðingarmálum og víst er að fjölmargir stjórnmálamenn, sérstaklega úr röðum Sjálfstæðisflokks, hefðu viljað sjá fleiri ríkisapparöt frelsuð úr ríkisfaðminum á umliðnum tólf árum. Það er hins vegar án efa rétt forgangsröðun að byrja á viðskiptabönkunum því ríkiseign á þeim var vitaskuld mun meiri dragbítur á íslenskt athafnalíf heldur en t.a.m. einokun ÁTVR á áfengismarkaði eða staða RÚV og Þjóðleikhússins á afþreyingarmarkaði. Með tíð og tíma mun ríkið vonandi einnig hætta beinum afskiptum af þessum þáttum þjóðfélagsins. Þær raddir heyrast gjarnan að sú kynslóð hægri sinnaðra stjórnmálamanna sem nú er við völd hafi ekki fylgt æskuhugsjónum sínum eftir af nægu kappi. Þær gagnrýnisraddir eru hluti af dægurþrasi stjórnmálanna en þegar upp er staðið er víst að stærstu og mikilvægustu skref í átt til heilbrigðara og frjálsara þjóðfélags hafa verið stigin undir stjórn þeirra manna sem vildu báknið burt – og vilja það greinilega enn. *

Orðalagðið „næstum örugglega“ vekur eflaust athygli. Ef núvirtar væntar aðgreiðslur ríkisins af þessum stofnunum að frádregnum þeim vaxtasparnaði sem sparast við niðurgreiðslu skulda nemi meira en 50 milljörðum þá geti sú tala verið neikvæð.
Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.