Fátt stöðvar Lakers

Magic og KareemLið Los Angeles Lakers er með besta vinningshlutfallið í NBA deildinni það sem af er vetri. Þetta kemur svosem ekki á óvart miðað við mannvalið þar er saman komið í vetur. En þrátt fyrir að útlitið sé gott er kálið ekki sopið þótt í ausuna sé komið.

Magic og KareemEftir níu leiki í deildinni í vetur hefur lið Los Angeles Lakers unnið í sjö og tapað aðeins tveimur og hefur besta sigurhlutfall deildarinnar, ásamt Indiana Pacers.

Það þarf svosem ekki að koma á óvart að Lakers standi vel að vígi. Í sumar fékk félagið tvo af bestu leikmönnum NBA sögunnar, þá Karl Malone og Gary Payton, til liðs við sig. Þessir kappar ásamt þeim Devan George, Kobe Bryant og Shaquille O´Neal mynda sennilega eitthvert óárennilegasta byrjunarlið sem sögur fara af.

En það fer ekki heldur framhjá neinum að þrátt fyrir að hafa mannskap til að verða eitt besta lið sögunnar þá eru brestirnir í liðsheildinni stórir. Stærsta vandamálið er vitaskuld Kobe Bryant.

Á síðustu árum hefur afbrýði hans í garð Shaquille O´Neal sprottið upp með reglulegu millibili. Til þess að leysa úr ágreiningi á milli þeirra hefur Magic Johnson ítrekað verið fenginn til að miðla málum en í byrjun níunda áratugarins hefði sambærileg rimma allteins getað risið upp á milli Magic og Kareem Abdul-Jabbar. Magic hefur lýst því í viðtölum að þegar hann gekk til liðs við Lakers þá hafi hann ætíð litið svo á að hann væri að ganga í liðið hans Jabbar og lét sér því aldrei detta það til hugar að líta svo á að hann væri í keppni við gamla meistarann um athygli.

Magic hefur ekki einasta gengið í milli í deilum þeirra O´Neal og Bryant heldur var hann einnig lykilmaður í því að fá Karl Malone til félagsins. Þannig er mál með vexti að Magic Johnson lék alla tíð í treyju númer 32 hjá Lakers og eftir að hann lauk ferli sínum var tekin ákvörðun um að ekki yrði framar notast við það númer hjá Lakers. Þegar upp kom sá möguleiki að Karl Malone, sem einnig hefur leikið í treyju nr. 32 allan sinn feril hjá Utah Jazz, kæmi til liðs við Lakers ákvað Magic að veita Malone heimild til þess að leika með sitt gamla númer.

Það sem gerir ákvörðun Magic sérstaklega áhugaverða er sú staðreynd að þegar hann fyrst tilkynnti um að hann væri sýktur af HIV veiruinni þá tjáði hann blaðamönnum jafnframt að hann teldi að hann gæti haldið áfram að leika í NBA deildinni. Var þessu víðast vel tekið. Karl Malone mótmælti þessum áformum Magic hins vegar harðlega og það var afstaða hans sem á endanum olli því að Magic lagði skóna á hilluna árið 1992.

Bryant virðist hins vegar eiga erfitt með að skilja hugsunina á bak við það að vera í liði og átta sig illa á því að frægðarsól eins leikmanns þarf ekki nauðsynlega að skyggja á annars.

Vandræðin vegna nauðgunarkæru á hendur Bryant eru ekki heldur til þess fallinn að styrkja liðsheildina hjá Lakers.

Vera má að Bryant læri eitthvað af þeim gömlu stórstjörnum sem gengið hafa til liðs við Lakers. Bæði Karl Malone og Gary Payton tóku á sig verulega launaskerðingu til þess að fá tækifæri til að leika með liði sem gæti orðið meistari. Það eru einungis menn með slíka skaphöfn sem geta myndað undirstöður að framúrskarandi liði; hvort sem það er í íþróttum eða öðru.

Leikmenn Lakers ættu því að taka sér Magic Johnson, James Worthy, Kareem Abdul-Jabbar og félaga til fyrirmydnar. Ef O´Neal og Bryant tekst það mun ekkert stöðva Lakers í vetur.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)