IcelandAirExpress

Það er langt síðan við Íslendingar urðum flugleiðir, löngu áður en Flugleiðir sáu sig knúna til að verða eingöngu Icelandair. Þessi leiði stafar af miklu leyti af því að í skjóli einokunar hafa flugfargjöld Icelandair verið seld háu verði til Íslendinga, oft mun hærra verði en í Bandaríkjunum og Evrópu. Það er t.a.m. þekkt dæmi að það hafi verið hagstæðara fyrir þá, sem hafa þurft að fara í viðskiptaferðir til Bandaríkjanna, að fljúga með Icelandair í gegnum London og kaupa þaðan miða til Bandaríkjanna með millilendingu í Keflavík!

Nú hyllir loks undir að Íslendingar geti kastað flugleiðanum fyrir Róða. Þann 27. febrúar næstkomandi hefjast daglegar flugferðir Iceland Express til London og Kaupmannahafnar. Stóru tíðindin eru þau að þessar ferðir munu bjóðast á mun lægra verði en eini samkeppnisaðilinn hefur áður boðið, eða frá kr. 14.160 með sköttum til London og 14.660 til Kaupmannahafnar fram og til baka. Þetta er svipað verð og dótturfélag Icelandair, Flugfélag Íslands, býður á flugi til Akureyrar og til baka. Sem dæmi má nefna að með því fljúga áfram með lággjaldaflugfélögum á borð við Ryanair og EasyJet er svo hægt að fá tengiflug í sólina frá London á innan við 10.000 kr. báðar leiðir með sköttum. Það ætti því að vera hægt að komast til S-Evrópu frá Íslandi fyrir innan við 25.000 kr.

Til að bregðast við samkeppninni kynnti Icelandair undir lok síðasta árs breytingar á fargjaldakerfi sínu og lögð var áhersla á almenna lækkun fargjalda. Ódýrustu fargjöld Icelandair kosta 19.800 kr. með sköttum og enginn tilviljun er að þetta verð býðst eingöngu til London og Kaupmannahafnar. Þó er vert að hafa í huga að bókunarfyrirvari hjá Icelandair er 21 dagur og er fargjaldið óbreytanlegt. Enginn bókunarfyrirvari er hjá Iceland Express og hægt er að breyta fargjaldinu gegn 1.500 kr. breytingargjaldi. Þar að auki þarf að dveljast a.m.k. aðfaranótt sunnudags ef flogið er á vegum Icelandair en enginn svoleiðis kvöð er á fargjaldi Iceland Express.

Það má því gera að því skóna að Iceland Express muni fá töluverð viðskipti frá þeim sem þurfa að stoppa stutt, t.a.m. viðskiptaferðalöngum. Hingað til hafa þeir sem dvelja ekki aðfararnótt sunnudags þurft að kaupa Saga-Class miða hjá Icelandair en slíkt fargjald kostar um og yfir 100.000 kr. Vafalaust hafa Saga-Class fargjöldin verið að skila Icelandair mestri framlegð pr. sæti svo að þessi tímabæra samkeppni mun eflaust hafa töluverð áhrif á afkomu Icelandair á árinu.

Það verður í það minnsta áhugavert að fylgjast með því hvernig Icelandair mun bregðast við þessari auknu samkeppni á sínum arðbærustu flugleiðum og hvaða áhrif innkoma Iceland Express mun hafa á afkomu þess. Icelandir mun líklega lækka verðið hjá sér tímabundið til að reyna að drepa Iceland Express í fæðingu. En vegna gamals vana og hærra þjónustustigs má telja líklegt að fólk kjósi frekar að ferðast með Icelandair sé verðið það sama.

Pistilhöfundur vonar allavega að örlög Iceland Express verði ekki þau sömu og annarra flugfélaga sem hafa reynt fyrir sér í samkeppni við Icelandair. Við Íslendingar höfum einfaldlega ekki efni á því.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)